Hoppa yfir valmynd
2. mars 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Óskað upplýsinga um getu Landspítala til að annast greiningu leghálssýna

Landspítali - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Í kjölfar ummæla yfirlæknis meinafræðideildar Landspítala í fjölmiðlum um að Landspítali geti annast greiningu leghálssýna vegna krabbameinsskimunar hefur ráðuneytið óskað eftir því að spítalinn staðfesti vilja sinn þessa efnis. Óskað er eftir því að spítalinn geri grein fyrir því til hvaða aðgerða hann þyrfti að grípa til að annast umrædda starfsemi þannig að hún uppfylli viðmið um gæði, öryggi og skilvirkni.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sem tók við ábyrgð á skimunum fyrir leghálskrabbameini um áramót, beindi erindi til Landspítala 22. júlí á liðnu ári, varðandi greiningu sýna úr leghálskrabbameinsskimunum. Landspítali svaraði erindinu með bréfi, 12. ágúst 2020, þar sem sagði m.a. að rannsóknir/greiningar frumusýna í tengslum við skimun fyrir leghálskrabbameini væri allnokkuð frábrugðin starfi á meinafræðideild spítalans, þarfnaðist sérhæfðs starfsfólks og mjög sérhæfðs tækjabúnaðar, auk viðeigandi húsnæðis: „Mjög lítið af þessu er til staðar á meinafræðideildinni og verður að segjast „…að við teljum ekki ástæðu til að óska eftir að sinna þessari rannsóknarstarfsemi.“ 

Tilvitnað bréf og umræður í kjölfar þess leiddu til þess að heilsugæslan leitaði annarra lausna um greiningu á sýnum og gerði samning til þriggja ára við rannsóknarstofu sjúkrahússins í Hvidovre í Danmörku. Sá samningur er uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara.

Óskað er eftir svörum Landspítala við erindinu fyrir 15. mars næstkomandi.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum