Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Tryggja á rekstur skurðstofu í Eyjum

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sagði á Alþingi í morgun að hann hygðist tryggja að skurðstofum Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum þyrfti ekki að loka í sumar. Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á Alþingi og lagði ráðherra áherslu á að íbúum í Vestmannaeyjum yrði áfram tryggð öflug og örugg heilbrigðisþjónusta. Fram kom í máli ráðherra að heilbrigðisstofnunin hafi verið rekin með halla nokkur undanfarin ár, þ.e. um 12,5 m.kr. árið 2003 og að halli ársins 2004 stefndi í að verða um 33,4 m.kr. Fram kom einnig hjá ráðherra að uppsafnaður halli hafi verið um 95 milljónir króna í árslok 2004 . Fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja á árinu 2005 eru um 485 m.kr. Framlög til heilsugæslusviðsins eru rúmlega 90 m.kr., til sjúkrasviðs tæplega  318 m.kr. og vegna hjúkrunarrýma rúmlega 77 m.kr.  Á stofnuninni eru 19 sjúkrarými og 16 hjúkrunarrými. Sagði ráðherra að borið saman við aðrar heilbrigðisstofnanir sýnist honum fé ekki naumt skammtað til stofnunarinnar. Ráðherra lagði áherslu á að hagræðingu mætti ná í rekstri stofnunarinnar og sagði í því sambandi m.a. afar brýnt að samnýta vaktir sjúkra- og heilsugæslusviðsins. “Tvennt þarf að tryggja en það er öryggi íbúanna og skynsamlegur rekstur”, sagði ráðherra í svari sínu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum