Hoppa yfir valmynd
6. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrar og ráðuneytisstjórar Norðurlandanna funda með framkvæmdastjóra OCHA

Ráðherrar og ráðuneytisstjórar Norðurlandanna funduðu í dag með Martin Griffiths, framkvæmdastjóra hjá samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA).

Á fundinum var farið yfir alvarlega stöðu í mannúðarmálum á heimsvísu. Þörfin fyrir mannúðaraðstoð hefur aldrei verið meiri og ekki er útlit fyrir að hún minnki á næstunni. Áhrif stríðsins í Úkraínu á framlög til annarra ríkja í neyð, svo sem Afganistan, Sýrlands, Jemen, Eþíópíu og Sahel-svæðisins, var meginumræðuefni fundarins. Afleiddar afleiðingar stríðsins voru einnig ræddar, til að mynda fæðuóöryggi og hækkandi eldsneytisverð. Minnti Griffiths á mikilvægi hlutleysis og talaði um hlutverk OCHA við að tryggja mannúðaraðgengi.

OCHA er ein af fjórum áherslustofnunum Íslands í mannúðaraðstoð samkvæmt stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Stofnunin gegnir lykilhlutverki í mannúðaraðstoð og neyðarviðbrögðum. Hún leiðir mannúðarþarfagreiningar og samþættingu mannúðarákalla á heimsvísu í samvinnu við undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna og félagasamtök. Mannúðaraðgengi, þar með talið samningaviðræður á vettvangi, er einnig meðal lykilhlutverka OCHA og framkvæmdastjóra stofnunarinnar.

Ísland veitir árleg óeyrnamerkt framlög til OCHA og Neyðarsjóðs Sameinuðu þjóðanna (e. Central Emergency Response Fund) samkvæmt rammasamningum. Ísland leggur einnig ríka áherslu á svæðasjóði OCHA (e. Country-Based Pooled Funds) sem gera framlagsríkjum kleift að sameina framlög sín í körfusjóði til mannúðaraðgerða í einstaka ríkjum. OCHA sér um úthlutun sjóðsframlaga til stofnana Sameinuðu þjóðanna og frjálsra félagasamtaka og ábyrgist að framlögum sé veitt þangað sem þörfin er mest. Fyrirkomulagið hentar Íslandi vel vegna smæðar og fárra starfsstöðva á stríðshrjáðum svæðum.

  • Ráðherrar og ráðuneytisstjórar Norðurlandanna funda með framkvæmdastjóra OCHA - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum