Hoppa yfir valmynd
8. júní 2018 Utanríkisráðuneytið

Íslendingum þakkaður stuðningurinn í Mangochi

Íslensku fulltrúarnir, María Erla og Vilhjálmur, ásamt Ágústu Gísladóttur forstöðumanni sendiráðisins, með fulltrúum héraðsstjórnarinnar í Mangochi. Ljósmynd: LDK - mynd

Íslendingum var þakkaður stuðningurinn við grunnþjónustu í Mangochi héraði í Malaví þegar María Erla Marelsdóttir skrifstofustjóri Þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og Vilhjálmur Wiium deildarstjóri tvíhliða þróunarsamvinnu heimsóttu Malaví í vikunni. Fyrri hluta heimsóknarinnar var farið í vettvangsferð til Mangochi héraðs, helsta samstarfsaðila Íslands í þróunarsamvinnu í landinu en verkefnin snúa einkum að mennta-, heilbrigðis- og vatns- og salernismálum.

Í ferðinni var meðal annars heimsóttur Chimbende grunnskólinn sem er einn af tólf áhersluskólum í grunnþjónustuverkefninu. Á síðustu árum hafa verið byggðar níu skólastofur við skólann, keypt skólaborð og bekkir fyrir nemendur, allir nemendur fengið námsgögn og bækur, mæðrahópar eru starfræktir, nýir kennarar menntaðir og aðrir fengið símenntun á sviði kennslu og uppeldisfræði. Á áætlun er að svo að byggja níu skólastofur til viðbótar og verða þá allir nemendur skólans sem eru rúmlega 1.500 komnir inn í skólastofur. Enn eru fimm bekkir sem læra utandyra.

Þá var fæðingardeildin í Kadango heimsótt en hún er ein af átta fæðingardeildum með biðskýli sem byggðar hafa verið í dreifbýli í héraðinu fyrir íslenskt þróunarfé. Að meðaltali eru 2-3 fæðingar á dag í Kadango og konur hafa þurft að leita langa leið eftir fæðingarhjálp. Nú er komin sjúkraflutningabíll á staðinn, sem auðveldar og styttir tíma í bráðaþjónustu.

Í Heimsókn til Makanjira heilsugæslustöðvarinnar kom fram að á áætlun er að uppfæra heilsugæsluna svo unnt verði að bregðast við bráðatilfellum og framkvæma keisaraskurði. Makanjira er afskekktasta sýslan í héraðinu og vegir oft ófærir á regntímabilinu frá desember til mars. Barnshafandi mæður og fólk sem lendir í slysum þurfa því að ferðast langa og oft ófæra leið til að komast á héraðssjúkrahúsið í Mangochi bæ. Rætt var við heilbrigðisnefnd svæðisins sem hefur kallað eftir uppfærslu á heilsugæslunni frá árinu 2013.

Í höfuðstað héraðsins, Mangochi bænum, var skoðuð nýja fæðingadeildin sem áætlað er að taki til starfa í júlí.  Reiknað er með að á deildinni verði 20-30 barnsfæðingar daglega eða sem nemur 7-10 þúsund fæðingum á ári hverju. Skoðaðar voru afleiðingar brunans á héraðssjúkrahúsinu en ákveðið hefur verið að verða við beiðni héraðsyfirvalda að fjármagna endurbyggingu húsnæðisins sem brann.

Ennfremur var haldinn fundur með framkvæmdateymi héraðsins í verkefninu. Þar var farið yfir framvindu verkefnisins frá því nýr samningur var undirritaður í nóvember á síðasta ári. Eins var farið yfir helstu verkþætti sem eru á áætlun frá júlí 2018 til júní 2019.

Í lok ferðarinnar var í höfuðborginni, Lilongve, haldin fundaröð með samstarfsaðilum í landinu – utanríkisráherra, ráðuneytisstjóra sveitastjórnamála, fulltrúum UN Women, Mannfjöldasjóði SÞ (UNFPA), Matvælaáætlun SÞ (WPF), Barnahjálp SÞ (UNICEF) og Action Aid vegna áætlunar um að auka stjórnmálaþátttöku kvenna í landinu. Einnig var haldinn fundur með fulltrúum frá írska sendiráðinu.

  • $alt
  • $alt
  • $alt
  • $alt
  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

6. Hreint vatn og hreint
4. Menntun fyrir öll
5. Jafnrétti kynjanna
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum