Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2012

Innheimta gengislána rædd á fundi ráðherranefndar

Á fundi ráðherranefndar um efnahagsmál í dag, 20. ágúst, var meðal annars fjallað um álitamál sem til umræðu hafa verið í fjölmiðlum um innheimtu banka og annarra lánastofnana á gengislánum sem dæmd hafa verið ólögmæt. Fundinn sátu Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, Oddný G, Harðardóttir, fjármálaráðherra og Ögmundur Jónasson, starfandi efnahags- og viðskiptaráðherra, auk aðstoðar- og embættismanna.
Nefndin kallaði til fundar við sig lögfræðingana Lúðvík Bergvinsson og Sigurvin Ólafsson sem birtu í síðustu viku greinargerð þar sem spurt er hvort ólögmæt lán geti verið í vanskilum. Jafnframt fékk ráðherranefndin fulltrúa Fjármálaeftirlitsins á fundinn vegna málsins. Þá má geta þess að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis kemur saman til fundar næstkomandi miðvikudag þar sem einnig verður fjallað um þau álitamál sem nú eru rædd í fjölmiðlum um innheimtu og afborganir af gengislánum.

Fylgst með framvindunni

Þess má geta að í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands 15. febrúar sl. beindi Fjármálaeftirlitið tilmælum til bankanna um að stilla innheimtuaðgerðum í hóf meðal þeirra sem réttaróvissa ríkir um í kjölfar dómsins. Þessi tilmæli er að finna í heild sinni á vef FME.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi 1. mars síðastliðinn að eðlilegt væri að flýta málinu og skoða yrði lagabreytingar þar að lútandi ef með þyrfti. Hún kvaðst hafa nokkrar áhyggjur af innheimtuaðgerðum og taldi rétt að grípa til aðgerða til að milda innheimtuna meðan ekki væri búið að vinna úr gengislánadóminum. Nánar er um þetta fjallað á vef efnahags- og viðskiptaráðuneytisins 5. mars sl.
Loks má geta þess að Samkeppniseftirlitið heimilaði 9. maí sl. fjármálafyrirtækjum afmarkað samstarf sem miða átti að því að hraða úrvinnslu skuldamála sem varða gengisbundin lán, í framhaldi af dómi Hæstaréttar 15. febrúar sl.  Um þetta er fjallað á vef Samkeppniseftirlitsins. Þar segir m.a. að við ákvörðunina hafi verið horft til mikilvægis þess að hraða endurskipulagningu skulda einstaklinga og fyrirtækja. „Er heimildin bundin ítarlegum skilyrðum sem lúta að formi og umgjörð samstarfsins og háttsemi bankanna í tengslum við útvinnslu umræddra lána.“
Á vegum stjórnvalda verður áfram fjallað um gengislánin og innheimtuaðgerðir og kannað hvort frekari aðgerða sé þörf til að hraða meðferð mála fyrir dómstólum og eyða þeirri óvissu sem ríkir, en 11 gengislánamál eru nú til meðferðar og bíða niðurstöðu dómstóla.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum