Hoppa yfir valmynd
12. september 2012

Stefnuræða forsætisráðherra – Ágrip

Gluggar á Alþingishúsinu
Gluggar á Alþingishúsinu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherraJóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, flutti stefnuræðu sína á Alþingi 12. september 2012.
Í upphafi máls síns vék hún orðum að veðuráhlaupinu á Norðausturlandi og afleiðingum þess. Þar hefðu hundruð einstaklinga unnið þrekvirki við að bjarga búfénaði og koma innviðum samfélagsins aftur í samt lag. „Ég vil þakka af heilum hug þeim mikla fjölda einstaklinga sem lagt hefur sitt af mörkum til björgunarstarfanna. Jafnframt vil ég fullvissa þá og heimamenn um að ríkisstjórnin mun áfram fylgjast vel með gangi mála og tryggja að allur nauðsynlegur stuðningur verði veittur.“

Batnandi hagur

Forsætisráðherra sagði þessu næst að Íslendingar hefðu í æ ríkari mæli fundið fyrir batnandi hag eftir þrengingar áranna eftir hrun. Aukin þjóðarframleiðsla, fjölgun starfa, vaxandi kaupmáttur launa og jafnari lífskjör hafi gert það að verkum að sífellt fleiri hafi sannfærst um að samfélagið  sé á réttri leið og bjartari tíð sé í vændum.
„Fá lönd innan OECD búa nú við minna atvinnuleysi en Ísland og ekkert land hefur náð að minnka atvinnuleysið eins hratt og mikið  á liðnum árum. Á þessu ári hafa orðið til um 4.600 ný störf og ekkert bendir til annars en að framhald verði á lífskjarasókn Íslendinga á komandi árum, ef áfram verður haldið á sömu braut.“
Jóhanna benti einnig á að fjöldi fjárfestingarverkefna séu í farvatninu ásamt frekari virkjunarframkvæmdum.  Þá hafi fjárfesting fyrstu sex mánuði ársins 2012 aukist um 19,3% samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2011.
„Fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar er mikilvægur leiðarvísir á þeirri vegferð að auka fjárfestingar enn frekar og skapa ný störf, en eftirfylgni þeirrar áætlunar verður  eitt af mikilvægum samstarfsverkefnum okkar þingmanna á komandi vetri.
Með nýsamþykktum stórauknum veiðigjöldum af sameiginlegri fiskveiðiauðlind þjóðarinnar hefur um helmingur af tilskildu fjármagni vegna áætlunarinnar verið tryggður og er áhrifa hennar þegar farið að gæta. Nefni ég sérstaklega undirbúning framkvæmda við Norðfjarðargöng, sem hefjast munu á næsta ári, en einnig stórefld framlög til rannsókna og tækniþróunar og sóknaráætlana landshluta.“

Þingið

Jóhanna gerði störf Alþingis að umtalsefni og sagði að á lokaspretti yfirstandandi kjörtímabils væri tækifæri til þess að gefa þjóðinni betri mynd af störfum þess en birst hafi á liðnum þingum. „Sú birtingarmynd hlýtur að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni. Hún hefur gengið fram af þjóðinni með þeim afleiðingum að traust hennar til þessarar  merku  og sögufrægu stofnunar okkar Íslendinga er í sögulegu lágmarki.
Það er mat mitt að verði ekki breyting á vinnubrögðum hér á Alþingi þá stefni í óefni. Um þetta hljótum við að vera sammála hér í þessum sal, óháð því hvaða stjórnmálaflokki við tilheyrum. Við eigum því að sameinast um að bæta vinnubrögðin,“ sagði Jóhanna og kvaðst jafnframt hafa átt viðræður við forystumenn flokkanna um málið sem yrði framhaldið.

Fjárlög

Forsætisráðherra gerði fjárlagafrumvarp næsta árs einnig að umtalsefni. Það markaði tímamót vegna pólitískra áherslna á velferð. „Fjárlagafrumvarpið er einnig óræk sönnun þess að ríkisstjórninni hefur á kjörtímabilinu auðnast að koma ríkisrekstrinum á réttan kjöl. Hallinn á fjárlögum 2008 var um 14% af landframleiðslu en verður á næsta ári vel innan við 1%. Engin ríkisstjórn í hinum vestræna heimi hefur náð slíkum árangri á liðnum árum.
Vegna þessa árangurs höfum við í ár loksins náð því marki að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu eru farnar að lækka.“
Jóhanna gat auk þess um fjölda mála sem þegar hafa verið lögð fram og stefnt væri að því að afgreiða á þingi í vetur, þar á meðal endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins og rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar

Jóhanna fór ítarlega yfir þá vinnu sem lögð hefur verið í að endurskoða stjórnarskrána og stöðu þess máls. Þetta sagði hún m.a.: „Þótt sú ferð hafi ekki reynst áfallalaus hefur árangurinn og uppskeran verið góð og í fullu samræmi við væntingar.
Einstigið á milli varðanna sem Alþingi reisti hefur verið fetað. Frá Alþingi til þúsund manna þjóðfundar, frá þjóðfundi til sérfræðinganefndar og frá sérfræðinganefndinni til stjórnlagaráðs, sem skipað var í samræmi við niðurstöðu almennra og lýðræðislegra kosninga, niðurstöðu sem ekki hefur verið dregin í efa efnislega, enda þótt annmarkar hafi talist vera á formlegri framkvæmd kosninganna.
Sú leið sem Alþingi varðaði vorið 2010 var afar metnaðarfull. Hún var síðast en ekki síst lýðræðisleg og Alþingi Íslendinga til mikils sóma. Með ákvörðun sinni sýndi Alþingi því skilning að heildstæð endurskoðun stjórnarskrárinnar er stærra mál en svo að það verði alfarið til lykta leitt innan veggja Alþingis, heldur þurfi jafnframt að tryggja ríka aðkoma almennings að endurskoðunarferlinu öllu.“
Jóhanna bætti við að jákvæð niðurstaða í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu muni fela í sér skýr skilaboð til Alþingis um að ljúka endurskoðunarferlinu á grundvelli tillögu stjórnlagaráðs. „Mikilvægt er að þjóðin gefi Alþingi skýra leiðsögn í þessum efnum enda hefur reynslan sýnt að þessi mál hafa reynst Alþingi erfið úrlausnar.“
Jóhanna sagði að ný stjórnarskrá væri ekki eina breytingin sem unnið hafi verið að á stjórnkerfi landsins. Sett hafi verið ný heildarlög um Stjórnarráð Íslands, siðareglur hafi verið innleiddar, ráðuneytum verið fækkað úr 12 í 8 og stofnunum hafi fækkað um nær 20%.

Skuldavandi heimilanna

Jóhanna sagði að skuldavandi heimilanna hefði náð hámarki árið 2009. Í skýrslu, sem kemur út á næstunni, komi fram að megnið af greiðsluvanda heimilanna vegna skulda hafi verið kominn til fyrir hrun bankanna eða meira en 2/3 hlutar vandans. „Samkvæmt skýrslunni hafa skuldir heimilana verið lækkaðar um 15-20% og veruleg hækkun vaxtabóta hefur létt skuldabyrðar heimilanna umtalsvert. Á síðastliðnu ári var  30% vaxtakostnaðar endurgreiddur og í ár tæplega 27%.  Væntanleg hækkun barnabóta á næsta ári bætir síðan um betur fyrir ungar barnafjölskyldur, sem margar fóru illa út úr hruninu.“
Í lok máls síns kvaðst Jóhanna vona í einlægni að löggjafarþingsins, sem nú hefur hafið störf, verði minnst fyrir aga, vönduð vinnubrögð og sanngjarna málsmeðfer á stórum og mikilvægum málum sem skipta muni miklu um framtíð íslensku þjóðarinnar.

Stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, má finna í heild sinni á vef forsætisráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum