Hoppa yfir valmynd
20. september 2012

Sýnilegur árangur á vinnumarkaði

„Það sem af er þessu ári hefur atvinnuleysi verið 1 ½ prósentustigi lægra en á sömu átta mánuðum í fyrra og er nú um 4,8%. Í OECD-löndunum er atvinnuleysi nú um 8%  að jafnaði og aðeins örfá lönd með minna atvinnuleysi en hér á landi,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í umræðum um atvinnumál á Alþingi 19. september síðastliðinn.

Í heildina hefur staðan batnað

Atvinnuleysi og atvinnustigið hefur verið nokkuð til umfjöllunar að undanförnu í fjölmiðlum eftir að birtar voru nýjar tölur Hagstofunnar sem sýna árstíðabundið aukið atvinnuleysi í ágústmánuði. Hafa ber í huga að tölur Hagstofunnar byggjast á könnunum og skekkja getur numið 5000 störfum til eða frá. 
Meðal annars var lagt út af tölum Hagstofunnar í Morgunkorni Íslandsbanka sama dag og umræðurnar fóru fram á Alþingi. Þar segir m.a.:
„Í heild má segja að rannsókn Hagstofunnar bendi til þess að staðan á vinnumarkaði hafi batnað þó nokkuð á milli ára. Þannig hefur atvinnuleysi að jafnaði mælst minna á fyrstu átta mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra, eða um 6,7% á móti 7,6%. Sé tekið mið af fjölda einstaklinga þá hafa þeir verið um 12.100 að jafnaði það sem af er ári á móti 13.800 á sama tímabili í fyrra. Fjöldi starfandi hefur farið úr 168.500 í 169.500 á sama tíma, og hlutfall starfandi úr 75,3% í 75,7%. Þessi fjölgun starfandi hefur jafnframt leitt til þess að heildarvinnustundum, sem er mælikvarði á ársverk, hefur fjölgað nokkuð enda stendur meðalfjöldi vinnustunda nánast í stað á milli ára í 40,4 stundum. Má ætla að heildarvinnustundir hafi aukist um rúm 0,7% á milli ára, sem er þó ekki mikil breyting.“
Samkvæmt gögnum Hagstofunnar fjölgaði starfandi fólki á vinnumarkaði frá öðrum ársfjórðungi 2011 til annars ársfjórðungs 2012 um 2.100 manns. Á sama tímabili fækkaði atvinnulausum um 2.500 og langtímaatvinnulausum fækkaði um 1.100 milli ára.
Einstaklingum utan vinnumarkaðar fjölgar hins vegar. Þetta þarf ekki endilega að vera áhyggjuefni að mati sérfræðinga Íslandsbanka, einkum ef námsmönnum hefur að sama skapi fjölgað, því það muni skila sér í betur menntuðu vinnuafli síðar meir. Þessi mynd eigi hins vegar eftir að skýrast.

Lægri skattar – auknar fjárfestingar

Stjórnarandstæðingar, einkum sjálfstæðismenn, klifa á því að samtímis litlum fjárfestingum sé skattheimta í tíð núverandi ríkisstjórnar mikil. Tölurnar tala hins vegar sínu máli en þær sýna lækkandi skattheimtu sem hlutfall af landsframleiðslu. Árin 2005 og 2006 námu skatttekjur ríkisins 31,5% af landsframleiðslunni. Á þessu ári eru þær áætlaðar 27,3% af landsframleiðslu og verða enn lægri á því næsta eða 27,1%.
Reyndin er einnig sú að á fyrstu sex mánuðum þessa árs var fjárfesting 19,3% meiri en á sama tímabili í fyrra.

Hvað um framkvæmdir ef veiðigjald verður slegið af?

Í umræðunum á Alþingi vék forsætisráðherra einnig orðum að opinberum stuðningi við atvinnulífið og fjárfestingum og sagði m.a.:  „Aukið veiðigjald, sem sjálfstæðismenn börðust  á móti fyrr á þessu ári, gerir okkur mögulegt að nærfellt tvöfalda framlög til rannsókna og tækniþróunar auk þess að skila 400 milljónum í sóknaráætlanir landshluta sem verður veruleg lyftistöng fyrir landsbyggðina ásamt samgöngubótum sem fjármagnaðar verða af veiðileyfagjaldi og flýta bæði Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöngum um 2-3 ár. [...]Það væri fróðlegt að heyra hvort þessi framfararmál verða slegin af komist sjálfstæðismenn til valda, eins og forystumenn þeirra hafa boðað með afnámi veiðigjaldsins.“
Jóhanna vísaði einnig í alþjóðlegar samanburðartölur um skattlagningu. „[Þær] sýna að óvíða í OECD ríkjunum eru tekjuskattar á fyrirtæki lægri en hér á landi og þessir skattar eru miklu hærri t.d. á Norðurlöndum.  Sama gildir um tryggingargjaldið en væntanlega er það hvað lægst hér á landi meðal OECD ríkja.“ 

Ekki hægt að rekja allar tafir til ríkisstjórnarinnar

Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi 20. september bar Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ríkisstjórninni á brýn að standa ekki við sinn hluta kjarasamninga og tók undir orð aðila vinnumarkaðarins í þeim efnum.
Jóhanna vísaði því á bug að ríkisstjórnin hefði svikið gefin loforð: „Ætla menn í alvöru að halda því fram að ríkisstjórnin beri ábyrgð á töfum á til dæmis verkefnum eins og Helguvík þar sem verið er að deila um orkuverðið? Ætla menn í alvöru að halda því fram að ríkisstjórninn beri ábyrgð á alþjóðlegu fjármálakreppunni sem hefur tafið mörg fjárfestingarverkefni hér? Ég spyr: Ætla menn í alvöru að halda því fram að ríkisstjórnin hafi svikið ýmis fyrirheit, á ég að nefna Vaðlaheiðargöng, spítala o.s.frv.? Ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að sjá að ríkisstjórnin hefur lagt gríðarlega mikið af mörkum til þess að kjarasamningar nái fram að ganga.“

Ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi 19.september sl. er að finna hér.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum