Hoppa yfir valmynd
6. desember 2012

Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur II

Mosi og hraun
Mosi og hraun

6.    JAFNRÉTTI KYNJA HVERGI MEIRA: Árið 2012 skipaði Alþjóða efnahagsráðið (World Economic Forum) Íslandi í efsta sæti á lista ráðsins yfir stöðu jafréttismála í heiminum fjórða árið í röð. WEF metur stöðu ríkjanna út frá fjórum lykilþáttum þ.e. aðgengi að heilbrigðisþjónustu, aðgengi að menntun og þátttöku í stjórnmálum. Loks er fjallað um efnahagslega stöðu; atvinnuþátttöku, launajafnrétti, atvinnutekjur og hlutfall kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga Ísland bætti stöðu sína umtalsvert á milli ára og hefur nú  0, 8640 stig. Samkvæmt þessari aðferðarfræði skortir því aðeins 0,1360 stig upp á fullkomið jafnrétti.
Ríkisstjórnin hefur undirritað viljayfirlýsingu ásamt samtökum atvinnurekenda, launamanna og sveitarfélaga um að vinna markvisst að launajafnrétti kynjanna. Þá hefu verið lögð fram aðgerðaráætlun stjórnvalda í 17 liðum um aukið launajafnrétti, jafnlaunastaðal, rannsóknir á jafnrétti, fæðingarorlofi o.fl.  Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og lífeyrissjóða munu að fullu koma til framkvæmda á næsta ári. Hlutur kynjanna í ríkisstjórn og í æðstu embættum ríkisins hefur að fullu verið jafnaður.

7.    ENDURSKOÐUN STJÓRNARSKRÁR: Í kjölfar  almennrar atkvæðagreiðslu 20. október 2012 um mikilvægar tillögur stjórnlagaráðs til breytinga á stjórnarskrá er hafinn lokakaflinn í ferli sem hófst með samkomulagi á Alþingi vorið 2010 um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Eftir að samkomulag tókst var efnt til þúsund manna þjóðfundar. Nefnd sérfræðinga starfaði með stjórnlagaráði  sem skipað var af Alþingi. Með ákvörðun sinni tryggði Alþingi að almenningur gæti komið að heildstæðri  endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Með þessu hefur ríkisstjórnin efnt fyriheit í stefnuyfirlýsingu um endurskoðun stjórnarskrárinnar og vilji kjósenda hefur verið kannaður. Aldrei á lýðveldistímanum hefur gagnger endurskoðun stjórnarskrárinnar komist svo vel á veg þrátt fyrir margar tilraunir.
Hópur lögfræðinga hefur nú yfirfarið  tillögur ráðsins og gert við þær nokkrar athugasemdir. Málið er nú í höndum Alþingis svo sem vera ber.

8.    FJÁRMÁL RÍKISINS – MIKILL VIÐSNÚNINGUR FRÁ HRUNI: Eitt helsta verkefni kjörtímabilsins hefur verið að brúa 300 milljarða gat í fjárlögum ríkisins sem rekja má til hrunsins. Stjórnvöld urðu að laga rekstur þjóðarbúsins að meira en 200 milljarða króna halla og tugmilljarða auknum fjármagnskostnaði. Hallinn á fjárlögum 2008 var um 14% af landframleiðslu en verður á næsta ári vel innan við 1%. Nú er svo komið að rekstur ríkissjóðs verður nánast sjálfbær á næsta ári ef fram heldur sem horfir. Engin ríkisstjórn í hinum vestræna heimi hefur náð slíkum árangri á liðnum árum.
Árangurinn lýsir sér meðal annars í því að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu eru farnar að lækka. Þær eru nú svipaðar hér og í ýmsum öðrum iðnríkjum og teljast vel viðráðanlegar.
Ríkissjóður og Seðlabanki Íslands hafa  í tvígang greitt niður erlend lán fyrirfram í því skyni að lækka mikinn vaxtakostnað af gjaldeyrisforða þjóðarinnar.
Skuldatryggingaálag ríkissjóðs var tæp 1500 stig þegar verst lét en er nú 178 stig og hefur ekki verið lægra frá því fyrir hrun. Áhættuþóknunin hefur ekki mælst jafn lág síðan um mitt ár 2011.

9.    DREGIÐ ÚR ÓJÖFNUÐI:  Barátta ríkisstjórnarinnar gegn auknum ójöfnuði hefur skilað áþreifanlegum árangri. Ójöfnuður ráðstöfunartekna í landinu er um helmingi minni nú en árið 2007 þegar hann varð mestur að fjármagnstekjum meðtöldum.  Þannig lækkaði GINI-stuðulinn (0,0 merkir að allir hafa sömu tekjur en 1,0 að aðeins einn hafi allar tekjurnar) úr 0,43 árið 2007  í um 0,24 árið 2010. Ef ekki er tekið mið af fjármagnstekjum, svo sem venjulega er gert, hefur  GINI lækkað úr rúmum 0,29 í rúma 0,23 á árunum eftir hrun. OECD telur t.d. breytingar úr 0,25 í 0,28 á tíu ára tímabili vera miklar breytingar. Á Vesturlöndum er algengt að GINI sé á bilinu 0,20 til 0,35. Ísland hefur m.ö.o. horfið úr hópi þeirra Evrópuþjóða þar sem ójöfnuður eru mestur og skipar sér nú í hóp þeirra þjóða þar sem hann er minnstur.

(„Í þeim skilningi vegnar okkur öllum betur í þjóðfélögum þar sem meira jafnræði ríkir. Ójafnræðið hefur mest áhrif á þá sem eru í neðsta þrepi samfélagins en jafnvel fyrir þá á toppnum er ávinningurinn nokkur.“ – Richard Wilkinson, höfundur bókarinnar The Spirit Level – Why  Equlity is Better for Everyone.)

10.    MÁLEFNI PALESTÍNU: Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og Dr. Riad Malki, utanríkisráðherra Palestínu, staðfestu með formlegum hætti upptöku stjórnmálasambands milli Íslands og Palestínu 15. desember 2011. Áður hafði Alþingi að tillögu utanríkisráðherra samþykkt mótatkvæðalaust að Palestína yðri viðurkennd sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.
Ríkisstjórnin hefur stutt sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna aðild þeirra að Sameinuðu þjóðunum.  
Ísland var meðflutningsríki ályktunartillögu þess efnis að Palestína fengi stöðu áheyrnarríkis hjá Sameinuðu Þjóðunum. Tillagan var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á fundi SÞ 29. nóvember sl. 138 ríki greiddu atkvæði með tillögunni, 41 ríki sat hjá og aðeins 9 voru á móti.

Tengdar greinar:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum