Hoppa yfir valmynd
19. desember 2012

Verk ríkisstjórnarinnar - uppbygging og umbætur III

Fiskveiðar
Fiskveiðar

11.    LÆKKUN SKULDA HEIMILA OG FYRIRTÆKJA:  Skuldir heimila og fyrirtækja hafa lækkað um nær helming frá haustinu 2008 sem hlutfall af landsframleiðslu. Þá voru þær 510% af lansframleiðslunni en eru núna um 280%. Þær hafa m.ö.o. lækkað um nálægt  helming sem hlutfall af landsframleiðslu á þremur árum sem telja má eftirtektarverðan viðsnúning.

Sé einungis litið til skulda heimila sést að þær hafa lækkað um 19 prósentustig af landsframleiðslu á tveimur árum (um 300 milljarðar króna) og um 27 prósentustig frá sínu hæsta gildi sem var fyrir um þremur og hálfu ári. Fara þarf aftur til 1. júní 2007, sem er talsvert fyrir hrun, til að finna sambærilega skuldastöðu heimilanna og nú. Íbúðaskuldir heimila eru nú svipaðar og þær voru í upphafi eignarbólunnar árið 2004 sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.  Þá var gripið til margvíslegra aðgerða tila ð gæta réttarstöðu skuldara. Komið var á fót embætti umboðsmanns skuldara, þak sett á dráttarvexti og margt fleira sem miðaði að því að milda áföll hrunsins.

Heildareignir heimila að frádregnum heildarskuldum, nam yfir 1.800 milljörðum króna um síðustu áramót og höfðu þar með aukist um tæp 17% á milli ára. Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir verulegri hækkun vaxtabóta til að létta þeim róðurinn sem glíma við hækkun verðtryggðra lána. Í fyrra nam vaxtakostnaður heimilanna um 55 milljörðum króna. Á árunum 2011 og 2012 voru að jafnaði um 30% vaxtakostnaðarins endurgreiddur úr ríkissjóði en allt upp í 45% hjá tekjulægstu heimilunum.

Væntanleg hækkun barnabóta á næsta ári bætir stöðu ungra barnafjölskyldna enn frekar.  Á fjárlögum næsta árs er ráðgert að hækka barnabætur í um 11 milljarða króna eða um allt að 30 af hundraði. Gert er ráð fyrir að um 23 milljarðar fari samtals  í barna- og vaxtabætur  á næsta ári. Til samanburðar er það hærri upphæð en sem nemur árlegum rekstrarkostnaði allra framhaldsskóla landsins.

12.    GJALDTAKA FYRIR AFNOT AF AUÐLINDUM SJÁVAR: Á árinu 2012 samþykkti Alþingi að veiðigjald yrði hækkað til muna. Þetta skilar ríkissjóði verulega auknum tekjum miðað við núverandi afkomu í sjávarútvegi. Annars vegar er lagt grunngjald á hvert þorskígildiskíló. Hins vegar er um að ræða sérstakt gjald sem tekur mið af afkomu greinarinnar og sveiflast í takt við afkomu hennar. Áætlað er að veiðigjaldið skili ríkissjóði allt að 15 milljörðum króna á næsta ári. Hækkun veiðigjaldsins er hluti af tekjustofni fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar og rennur hluti fjárins m.a. til gerðar jarðganga á Austfjörðum og Vestfjörðum, tækni- og rannsóknarsjóða og  sóknaraáætlana landshlutanna.

13.    MARKVISS BARÁTTA GEGN KYNBUNDNU OFBELDI:  Gripið hefur verið til margvíslegra úrræða til að stemma stigu við kynbundnu ofbeldi. Austurríska leiðin svonefnda, um að fjarlægja beri ofbeldismenn af heimilum fremur en fórnarlömbin hefur verið lögfest. Bann við kaupum á vændi hefur verið leitt í lög. Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi ásamt bókun um mansal árið 2011. Árið 2012 fullgilti Íslands samning Evrópuráðsins gegn mansali. Með þessu hefur Ísland skuldbundið sig til þess að vernda fórnarlömb og herða rannsóknir og saksókn í slíkum málum og herða jafnframt forvarnir gegn mansali. Ríkisstjórnin hefur stutt við rekstur Kvennaathvarfsins og Kristínarhúss sem liðsinna fórnarlömbum mansals. Jafnframt er unnið að endurskoðun fyrstu aðgerðaáætlunar Íslands gegn mansali, en hún var samþykkt í mars 2009.

Í apríl 2012 var undirritað samkomulag milli velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um verkefni sem miðar að vitundarvakningu gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. 25 milljónum króna er varið til verkefnisins á þessu ári og samtals 32 milljónum króna árin 2013 og 2014.  


14.    ÍSLAND 2020: Stefnumörkunin Ísland 2020 er framtíðarsýn sem varð til í samtölum og samvinnu hundruða Íslendinga um land allt og samráði við landshlutasamtök, sveitarfélög, verkalýðshreyfingu og samtök í atvinnulífi. Tillögurnar eru afrakstur þessara funda, vinnu sérfræðihópa, stöðumats háskólastofnana og greiningar á því hvaða utanaðkomandi þættir gætu haft áhrif á þróunina á Íslandi næstu árin.

Áherslur á samfélag þekkingar, velferðar og sjálfbærni er lykill að fjölbreyttu og traustu atvinnulífi.

Til að meta hvernig gengur að framkvæma stefnuna Ísland 2020 eru sett fram 15 mælanleg markmið auk 5 markmiða sem tengjast efnahagslegri hagsæld og lífsgæðum.

Þá eru með stefnunni settar fram 30 aðgerðir og verkefni sem ætlað er að vera fyrstu skref í átt að Íslandi 2020. Eitt veigamesta verkefnið er fjárfestingaráætlun um þróun innviða, atvinnumála, mannauðs og samfélags.

Hlutlægu mælikvarðarnir 20 eru uppfærðir reglulega og þá er að finna á vef Stjórnarráðs Íslands ásamt öðru efni um Ísland 2020.

15.  FORSENDUR TIL AÐ DRAGA ÚR SKULDUM RÍKISSJÓÐS:  Ætla má að skuldir hins opinbera hafi náð hámarki á síðastliðnu ári. Þá námu þær 101% af landsframleiðslu. Gert er ráð fyrir að árið  2012 nemi skuldir hins opinbera 97%  landsframleiðslunnar. Árið 2008 var þetta hlutfall um 70% og aðeins 28% árið 2007. Skuldir hins opinbera eru svipaðar hér á landi og í ýmsum öðrum iðnríkjum á borð við Bandaríkin, Belgíu, Írland og Portúgal.

Reyndin er sú að íslenska ríkið ræður vel við skuldir sínar og á ekki við skuldakreppu að stríða. Hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins verður viðráðanleg eftir að þrotabú gömlu bankanna hafa verið gerð upp. Allt bendir til þess að tekist hafi að stöðva skuldsöfnun ríkissjóðs enda leggur ríkisstjórnin kapp á  að draga úr skuldum hins opinbera og minnka þannig tugmilljarða króna fjármagnskostnað ríkissjóðs.

Skuldatryggingarálag á ríkissjóð Íslands er nú komið niður í 175 punkta sem er hið lægsta frá því á fyrrihluta ársins 2008. Hæst fór skuldatryggingaálagið í um 1.500 punkta eftir bankahrunið haustið 2008.

Fyrri greinar:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum