Hoppa yfir valmynd
7. júní 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 263/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 263/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050023

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 5. desember 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. ágúst 2017, um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Afganistan (hér eftir nefndur kærandi) um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Noregs. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 11. desember 2017. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 18. desember 2017. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var hafnað af kærunefnd þann 7. febrúar 2018. Þann 9. maí 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins með beiðni þess efnis ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust kærunefnd þann 18., 29. og 30. maí 2018.

Krafa kæranda um endurupptöku máls hans er byggð á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku málsins á því að í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga komi m.a. fram að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Kærandi telji að hann hafi ekki á nokkurn hátt haft áhrif á málsmeðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd hjá íslenskum stjórnvöldum þannig að lengd málsmeðferðarinnar gæti hafa tafist af hans völdum. Kærandi bendir á að þar sem hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 9. maí 2017 telji hann að tilefni sé til þess að óska eftir endurupptöku málsins hjá kærunefndinni. Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja honum um efnismeðferð umsóknar hans og vísa honum aftur til Noregs verði felld úr gildi og stofnuninni gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. laganna skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Kærunefnd hefur í fyrri úrskurðum litið svo á að fresturinn í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga byrji að telja þegar kærandi sækir um alþjóðlega vernd og haldi áfram að telja þar til flutningur kæranda til viðtökuríkis hefur farið fram.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 12. maí 2017 samkvæmt lögregluskýrslu Lögreglustjórans á Suðurnesjum og fylgdarskrá alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra. Þann 5. desember 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. ágúst 2017, um að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Noregs. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 11. desember 2017. Þann 9. maí 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins.

Þann 14. maí sl. óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild Ríkislögreglustjóra varðandi flutning á kæranda og hvort kærandi hafi átt þátt í því að flutningur hafi ekki farið fram innan 12 mánaða frestsins. Þann sama dag barst sameiginlegt svar frá Útlendingastofnun og stoðdeild Ríkislögreglustjóra þar sem gerð er grein fyrir því að litið sé svo á að kærandi hafi tafið mál sitt þar sem kærandi hafi verið með opið mál til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en honum hafi verið gefið að sök að hafa framvísað fölsuðu fæðingarvottorði. Þá hafi einnig komið í ljós að kærandi hafi verið með annað mál í kerfinu út af fölsuðum skilríkjum en því máli hafi verið lokið með skilorðsbundinni frestun ákæru þann 2. júní 2017 en með þeim fyrirvara að málið gæti verið tekið upp að nýju gerist hann sekur á ný um einhverskonar brot á skilorðstímanum sem hafi verið tvö ár. Stoðdeild Ríkislögreglustjóra hafi því ekki fengið heimild til að flytja kæranda úr landi út af þessum tveimur málum fyrr en þann 3. maí sl. Kærunefnd óskaði þann 24. maí sl. frekari skýringa á því hvers vegna kærandi var ekki fluttur úr landi frá þeim tíma þegar stoðdeild Ríkislögreglustjóra fékk leyfi til að flytja hann úr landi þann 3. maí sl. og fram til 12. maí sl. þegar 12 mánaða frestur til flutnings úr landi rann út. Í sameiginlegu svari frá Útlendingastofnun og stoðdeild Ríkislögreglustjóra kom fram að það taki að meðaltali um tvær vikur hið minnsta að undirbúa flutning. Þá taki aðildarríkin sér ákveðinn frest til að svara beiðnum um flutning en fresturinn sé frá þremur og upp í sjö virka daga. Jafnframt hafi starfsmenn stoðdeildar verið þéttbókaðir á umræddu tímabili í öðrum fyrirfram ákveðnum flutningum sem ekki hafi verið hægt að hrófla við. Það hafi því verið ómögulegt fyrir lögregluna að flytja kæranda úr landi á þessu stutta tímabili.

Þann 15. maí sl. gaf kærunefnd talsmanni kæranda kost á að tjá sig um þær upplýsingar sem bárust frá Útlendingastofnun og stoðdeild Ríkislögreglustjóra varðandi flutning á kæranda. Svar barst frá kæranda þann 18. maí sl. þar sem fram kemur að kærandi geri athugasemd við þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að opið mál í kerfi lögreglunnar á hendur umsækjanda um alþjóðlega vernd verði jafnað til tafa umsækjanda á máli í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá verði ekki séð hvers vegna rannsókn máls kæranda hafi tekið marga mánuði en engin gögn liggi fyrir frá lögreglu um vinnslu málsins og vafi leiki á um sekt kæranda í umræddu máli. Kærandi hafi ekki tafið rannsókn málsins hjá lögreglu á nokkurn hátt og verði ekki látinn gjalda þess að rannsókn lögreglu hafi dregist. Jafnframt hafi Ríkislögreglustjóri haft níu daga til að flytja kæranda úr landi eftir að leyfi um flutning hafi verið veitt. Frekari andmæli bárust frá kæranda þann 29. maí sl. þar sem fram kemur m.a. að sá tími sem stjórnvöld þurfi til að undirbúa framkvæmd á flutningi kæranda hafi eðli málsins samkvæmt ekkert með hann eða athafnir hans að gera. Annir hjá stoðdeild Ríkislögreglustjóra geti ekki talist til tafa af völdum kæranda. Þá bendir kærandi m.a. á að lögregla hafi ekki verið innt eftir skýringum á því hvers vegna dráttur hafi verið á málsmeðferð í máli kæranda og engar upplýsingar liggi fyrir um að drátturinn sé kæranda að kenna.

Þann 30. maí 2018 barst kærunefnd tölvupóstur frá Útlendingastofnun þar sem vakin var athygli á því að flutningur kæranda væri fyrirhugaður þann næsta dag og að stoðdeild Ríkislögreglustjóra óskaði eftir svari frá kærunefndinni hvort nefndin kæmi til með að fresta framkvæmd í máli kæranda vegna framkominnar beiðni um endurupptöku. Kærunefnd sendi tölvupóst þann sama dag til hlutaðeigandi aðila, þ. á m. til talsmanns kæranda, þar sem greint var frá því að með tilliti til þeirra gagna sem lægju fyrir í málinu á grundvelli þeirra lagaskilyrða sem við eiga taldi kærunefnd að ekki væru forsendur á því tímamarki að taka ákvörðun um frestun framkvæmdar á flutningi kæranda. Í kjölfarið bárust andmæli frá kæranda þann 30. maí sl. þar sem fram kemur m.a. að hann mótmæli því að flutningur fari fram á honum áður en kærunefnd hafi tekið afstöðu til þess hvort fresta skuli réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar sem fyrir liggi í málinu og afstaða hafi verið tekin til endurupptökubeiðni þessarar. Kærandi óski eftir því að kærunefnd beiti þeirri heimild sem henni sé veitt í 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og taki ákvörðun um frestun framkvæmdar á fyrirhuguðum flutningi.

Samkvæmt ofangreindu óskaði kærandi eftir alþjóðlegri vernd hér á landi þann 12. maí 2017. Ljóst er að kærandi lagði fram auðkennisvottorð þann 24. október sl. við meðferð máls hans hjá kærunefnd. Skilríkin voru send til flugstöðvardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum til að rannsaka áreiðanleika þeirra. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að auðkennisvottorðið væri breytifalsað og var sú niðurstaða lögð til grundvallar við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd. Þann 3. janúar 2018 tilkynnti kærunefnd lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um framlagningu kæranda á skjalinu. Líkt og áður hefur komið fram var kærandi settur á framkvæmdarlista stoðdeildar Ríkislögreglustjóra þann 3. maí sl. Að mati lögreglu var þá ómögulegt að framkvæma flutning kæranda áður en 12 mánaða fresturinn rann út.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn fari umsókn ekki í efnismeðferð af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber að einhverju leyti ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Með því að leggja fram skjal í tengslum við kærumál sitt sem reyndist breytifalsað setti kærandi af stað atburðarás sem meðal annars fól í sér tiltekin viðbrögð stjórnvalda innan refsivörslukerfisins. Afleiðingar þeirrar atburðarásar voru tafir á flutningi kæranda til viðtökuríkis. Með því að hrinda af stað þessari atburðarás ber kærandi ábyrgð á þeim töfum sem af henni leiddu, enda hefur ekki verið sýnt fram á að viðbrögð stjórnvalda við framlagningu skjalsins, greining stjórnvalda á skjalinu og rannsókn málsins hafi verið óforsvaranleg í ljósi aðstæðna og athafna kæranda. Nefndin telur það ótæka túlkun á 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga að kærandi geti, vegna framlagningar breytifalsaðs skjals á meðan mál hans var til afgreiðslu hjá kærunefnd og þeirra tafa sem það leiddi til, öðlast betri rétt en hann hefði notið ef hið breytifalsaða skjal hefði ekki verið lagt fram. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að óeðlilegar tafir hafi orðið á flutningi kæranda til viðtökuríkis eftir að ljóst var að flytja mátti kæranda til viðtökuríkis.

Það er mat kærunefndar í ljósi alls ofangreinds að tafir sem urðu á framkvæmd úrskurðar kærunefndar í máli kæranda séu á ábyrgð kæranda sjálfs. Af því leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga fyrir því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar eru ekki uppfyllt.

Í ljósi þessa verður ekki séð að úrskurður kærunefndar frá 5. desember 2017 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að atvik máls hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd því hafnað.

Hvað varðar kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 29. gr. stjórnsýslulaga vekur kærunefnd athygli á því að ákvæðið fjallar um réttaráhrif kærðrar ákvörðunar og mögulega frestun réttaráhrifa vegna kærumeðferðar. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd þegar kveðið upp úrskurð í máli kæranda sem felur í sér endanlega niðurstöðu í máli hans á stjórnsýslustigi. Kemur því ekki til skoðunar að veita frestun réttaráhrifa á grundvelli þessa ákvæðis.

Í andmælum kæranda vegna fyrirhugaðs flutnings á honum, dags. 30. maí sl., var óskað eftir því að kærunefnd beiti þeirri heimild sem henni sé veitt í 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga vegna fyrirhugaðs flutnings á kæranda. Beiðni um endurupptöku máls frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar kærunefndar en í ákvæðinu er að finna heimild til handa kærunefnd til að fresta framkvæmd flutnings ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. Að teknu tilliti til þeirra gagna sem lágu fyrir í máli kæranda taldi kærunefnd ekki ástæðu til að beita umræddri heimild í tengslum við flutning á honum.

 

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The appellant’s request is denied.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum