Hoppa yfir valmynd
22. júní 2005 Utanríkisráðuneytið

Skilaboð Norðurlanda til Íraksráðstefnu

Eftir áralanga áþján hafa Írakar sögulegt tækifæri til að koma á lýðræði og byggja upp land sitt. Til þess að Írakar standi sem best að vígi á þessum tímamótum og geti búið í haginn fyrir lýðræði og hagsæld þarf bæði skörulega og langvarandi aðstoð frá samfélagi þjóðanna. Norðurlandaþjóðirnar vilja því auka aðstoð sína enn frekar.

Alþjóðlega ráðstefnan um Írak, sem nú stendur yfir í Brussel og fjöldi ríkja tekur þátt í ásamt Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu, veitir samfélagi þjóðanna tækifæri til að láta í ljós sameiginlegan stuðning við þróun lýðræðis í Írak og efnahagslega endurreisn landsins.Til merkis um sameiginlega afstöðu okkar skrifum við, fimm norrænir utanríkisráðherrar, eftirfarandi grein.

Í júní 2004 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna einróma ályktun nr. 1546 þar sem fagnað var lokum hernámsins, fullveldi Íraks var staðfest að nýju og lagðar voru línur fyrir þróun lýðræðis í landinu. Ályktunin var staðfesting þess að samfélag þjóðanna hafði ákveðið að líta fram á veginn. Við fögnum því að Sameinuðu þjóðunum hefur verið veitt forystuhlutverk í endurreisn Íraks. Vegur það þungt er við göngum nú enn lengra í stuðningi okkar við írösku þjóðina.

Undanfarið ár hafa orðið miklar framfarir í átt til lýðræðis í Írak. Þingkosningar voru haldnar með góðum árangri, bráðabirgðastjórn mynduð og hafist var handa við að semja nýja stjórnarskrá. Til að styrkja lýðræðið í Írak frekar í sessi er áríðandi að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um nýju stjórnarskrána í október, eins og fyrirhugað var, og að nýjar almennar kosningar fari fram í Írak í desember 2005. Jafnframt er áríðandi fyrir framgang lýðræðis og samningu nýrrar stjórnarskrár Íraks að allir hópar Íraka óháð kynþætti, kyni eða trú fái tækifæri til að taka þátt í stjórnmálaþróuninni.

Því miður hamlar mjög slæmt ástand öryggismála framþróun í Írak. Öfl hryðjuverka og ótta ógna nú lýðræðisþróuninni. Fyrir þessum öflum fer sundurleitur hópur manna, allt frá ótíndum glæpamönnum, þjóðernissinnuðum uppreisnarmönnum og fylgismönnum Saddams Husseins, til hópa sem eru innblásnir af trúarlegu ofsæki og sækja sumir hverjir stuðning erlendis frá. Óháð því af hvaða hvötum þessir hópar stjórnast hindra þeir framþróunina í lýðræðisátt. Hvorki íraska þjóðin né samfélag þjóðanna geta látið árásir hryðjuverkamanna stöðva uppbyggingu nútímalegs lýðræðisríkis í Írak.

Til að styrkja getu Íraka til að tryggja sjálfir öryggi í landinu hefur fræðsla verið efld innan íraska réttarkerfisins og meðal írösku lögreglunnar og hersins. Öll Norðurlöndin leggja sitt af mörkum til þessa með ólíkum hætti. Þannig verða írösk stjórnvöld fær um að vernda borgara sína gegn hryðjuverkum og skálmöld samtímis því að mannréttindi eru virt. Forsendur fyrir framþróun í Írak og því að aðstoð samfélags þjóðanna við endurreisn beri árangur er að öryggismálum verði komið í lag.

Þátttaka nágrannaríkja skiptir miklu við að koma á stöðugleika sem er forsenda endurreisnar í Írak. Það er í þágu allra grannþjóðanna að Írak verði lýðræðisríki og það ætti að stuðla að stöðugleika á svæðinu. Norðurlönd eru dæmi um það hvernig góð nágrannatengsl geta leitt til velmegunar og styrkt framþróun. Írak hefur alla burði til að auka velmegun þegna sinna.

Vilji þjóðarinnar sjálfrar þarf að vera hafður að leiðarljósi við endurreisnarstarfið. Margt er ógert og mikilla endurbóta er þörf. Byggja þarf vatnsveitur, leggja vegi og veita rafmagni. Leggja þarf áherslu á menntun, atvinnu og félagslegt öryggi. Skapa verður réttlát og gagnsætt réttarríki. Góðir stjórnarhættir og stjórnvöld sem verða að standa fyrir máli sínu gagnvart borgurunum eru þungamiðjan í lýðræðislegri samfélagsgerð. En lýðræði hefur aldrei fengið tækifæri til að skjóta rótum í Írak. Það er ekki auðvelt verk að stuðla að því og þar er þörf á aðstoð okkar.

Nú gefst Írökum sögulegt tækifæri til að gera Írak að frjálsu, lýðræðislegu og sameinuðu ríki. Írakska þjóðin hefur þjáðst nóg síðustu tuttugu árin - á meðan stríðið við Íran stóð, undir blýþungu oki Saddams Husseins, á árum fátæktar og nú við erfitt öryggisástand. Það er kominn tími til að Írakar fái að búa við frið og öryggi, njóta mannréttinda og lifa án fátæktar og kúgunar. Írak ber einnig að fá sinn sess í samfélagi þjóðanna. Til að skapa slíkar aðstæður í Írak þarf mikla þolinmæði og mikið fjármagn. Allir sem að því verki koma, innlendir sem erlendir, verða að axla sína ábyrgð. Umheimurinn allur og löndin í kring hafa ekki efni á mistökum í þessum efnum. Ríkisstjórnir Norðurlandanna leggja nú þegar sinn skerf til öryggismála og endurreisnar í Írak og við erum reiðubúin til að halda áfram á þeirri braut.

Per Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur

Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands

Davíð Oddsson, utanríkisráðherra Íslands

Jan Petersen, utanríkisráðherra Noregs

Laila Freivalds, utanríkisráðherra Svíþjóðar



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum