Hoppa yfir valmynd
16. júní 2009 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðleg ráðstefna um ályktun öryggisráðs Sþ nr. 1325 um konur, frið og öryggi

Utanríkisráðuneytið og Háskóli Íslands standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi, dagana 19.-20. júní 2009.

Umfjöllunarefni ráðstefnunnar er hvernig tryggja megi að konur taki með beinum hætti þátt í formlegum og óformlegum friðarferlum, þ.á.m. friðarumleitunum, friðarsamningum og friðaruppbyggingu. Á ráðstefnunni verður kannað hvaða leiðir eru færar fyrir stjórnvöld, alþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök til að efla þátttöku kvenna í friðarferlum.

Tíu frummælendur með mikla þekkingu á ályktun öryggisráðsins nr. 1325 og umfangsmikla reynslu af friðarferlum á átakasvæðum munu segja frá reynslu sinni og hugmyndum um hvernig megi bæta framkvæmd ályktunarinnar. Ennfremur verða pallborðsumræður og málstofur með þátttöku frummælenda.

Á meðal frummælenda eru Rachel Mayanja, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sérlegur ráðgjafi framkvæmdastjóra SÞ um kynjamálefni og bætta stöðu kvenna, Wenny Kusuma, umdæmisstjóri UNIFEM í Afganistan, Samia Bamieh, fyrrverandi sendiherra og varaformaður nefndar palestínskra stjórnvalda um bætta stöðu kvenna, Dr. Naomi Chazan, prófessor í stjórnmálafræði við hebreska háskólann í Jerúsalem og fyrrverandi varaforseti ísraelska þingsins, Donald Steinberg, varaforseti rannsóknarstofnunarinnar International Crisis Group og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, setja ráðstefnuna.

Ráðstefnan, sem er haldin á ensku, fer fram 19. júní í Háskóla Íslands, Öskju, stofu 132 og hefst kl 9:00. Skráning fer fram á vefslóðinni www.1325.is þar sem einnig er að finna frekari upplýsingar um ráðstefnuna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum