Hoppa yfir valmynd
23. september 2010 Dómsmálaráðuneytið

Kosið til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010

Íslendingar ganga að kjörborði laugardaginn 27. nóvember 2010 og velja fulltrúa til setu á stjórnlagaþingi sem kemur saman eigi síðar en 15. febrúar 2011 til að endurskoða stjórnarskrá Íslands.

Kosningavefur dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, www.kosning.is.
Kosningavefur dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, www.kosning.is

Fréttatilkynning frá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu og landskjörstjórn:

Íslendingar ganga að kjörborði laugardaginn 27. nóvember 2010 og velja fulltrúa til setu á stjórnlagaþingi sem kemur saman eigi síðar en 15. febrúar 2011 til að endurskoða stjórnarskrá Íslands.

  • Stjórnlagaþing skal skipað minnst 25 og mest 31 þjóðkjörnum og persónukjörnum fulltrúa.
  • Landið verður eitt kjördæmi og vægi atkvæða verður því jafnt.
  • Atkvæði af landinu öllu verða talin í Reykjavík á vegum landskjörstjórnar og úrslit birt fyrir landið í heild, ekki eftir kjördæmum.
  • 18. október rennur út framboðsfrestur.
  • Fyrir 3. nóvember upplýsir landskjörstjórn hverjir bjóða sig fram til stjórnlagaþings.
  • 10. nóvember hefst atkvæðagreiðsla utan kjörfundar.
  • 27. nóvember er kosið til stjórnlagaþings.

Framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings er samvinnuverkefni dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, landskjörstjórnar, Þjóðskrár Íslands, utanríkisráðuneytis, sveitarstjórna, sýslumanna og fleiri opinberra aðila.

Framboðsfrestur til hádegis 18. október
Landskjörstjórn auglýsir kosningar til stjórnlagaþings eigi síðar en átta vikum fyrir kjördag. Sömu reglur gilda um kjörgengi og í alþingiskosningum að því undanskildu að forseti Íslands, alþingismenn, varamenn alþingismanna, ráðherrar og þeir, sem setið hafa í nefndum til undirbúnings stjórnlagaþingi, eru ekki kjörgengir.

Framboði til stjórnlagaþings skal skilað á sérstökum eyðublöðum, sem landskjörstjórn hefur útbúið í samráði við dómsmála- og mannréttindaráðuneytið. Gögn vegna framboðs skulu hafa borist landskjörstjórn eigi síðar en kl. 12 á hádegi 18. október 2010.

Eyðublöðin fyrir framboð og kynningu frambjóðenda, ásamt meðmælendalistum, er að finna á vef landskjörstjórnar, landskjor.is, og á kosningavef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, kosning.is. Þar eru jafnframt ítarlegar upplýsingar um hvernig og hvert á að skila framboðsgögnum.

Framboði skal fylgja listi með nöfnum minnst 30 og mest 50 meðmælenda, sem fullnægja skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, og skrifleg yfirlýsing frá hverjum meðmælanda, staðfest af tveimur vottum. Hverjum kosningarbærum manni er einungis heimilt að mæla með einum frambjóðanda.

Frambjóðandi skal einnig í samandregnu máli gera grein fyrir framboði sínu, til notkunar í kynningarefni. Þá skal ljósmynd af viðkomandi fylgja framboðstilkynningu.

Kostnaður hvers frambjóðanda vegna kosningabaráttu má að hámarki nema 2 millj. kr.

Upplýst um frambjóðendur
Fyrir miðvikudaginn 3. nóvember upplýsir landskjörstjórn hverjir bjóða sig fram til stjórnlagaþings og gerir það á vefsíðu sinni og á kosningavef dómsmála- og mannréttindaráðuneytsins. Hún raðar frambjóðendum í stafsrófsröð, þar sem fyrsta nafn er valið af handahófi, og úthlutar þeim um leið auðkennistölu, sem einnig er valin af handahófi. Auðkennistalan gerir kjósendum kleift að raða frambjóðendum á kjörseðlum að eigin vali í kjörklefanum.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kosninga til stjórnlagaþings hefst 10. nóvember. Kjósanda, sem ekki getur kosið á kjördag, er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar frá og með 10. nóvember til kl. 12 hinn 26. nóvember, hjá öllum sýslumannsembættum á landinu.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar á erlendri grundu hefst einnig 10. nóvember og skal lokið í síðasta lagi kl. 12 á hádegi 26. nóvember. Utanríkisráðuneytið annast framkvæmdina og mun kynna hana.

Kynningarefni um frambjóðendur
Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu er falið, samkvæmt lögum um stjórnlagaþing nr. 90/2010, að útbúa kynningarefni um frambjóðendur og dreifa því á öll heimili hér á landi. Auk þess skal kynningarefnið birt á vefsíðu á vegum ráðuneytisins, kosning.is. Kynningarefnið byggist á upplýsingum sem frambjóðandi skilar á þar til gerðu eyðublaði og fylgir framboði. Ráðuneytið mun kappkosta að hraða þessari kynningu eftir að framboð liggja fyrir. Ætla má að kynning á frambjóðendum verði þá fljótlega birt á kosningavefnum og að prentað kynningarefni verði síðan borið í hús á landinu öllu einni viku til tíu dögum fyrir kosningar.

Afrit af kjörseðli sent hverjum kjósanda
Þá mun dómsmála- og mannréttindaráðuneytið dreifa til allra kjósenda í landinu afriti af kjörseðli, auðkenndum sem kynningarseðli, ásamt skýringum á því hvernig atkvæðagreiðslan fer fram. Þessi kynningarseðill skal jafnframt birtur á vefsíðu á vegum ráðuneytisins. Kynningarseðilinn má kjósandi fylla út og hafa með sér í kjörklefann.

Kjörskrá
Kjörskrá verður unnin með sama hætti og við alþingiskosningar. Þjóðskrá Íslands sér um gerð kjörskrárstofna en samkvæmt lögum nr. 90/2010 eru á kjörskrárstofni allir íslenskir ríkisborgarar sem skráðir verða með lögheimili í tilteknu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár Íslands 6. nóvember 2010 og fæddir eru 27. nóvember 1992 og fyrr. Ennfremur eru á kjörskrárstofni þeir íslenskir ríkisborgarar sem flutt hafa lögheimili sitt til útlanda og uppfylla kosningarréttarskilyrði laga um kosningar til Alþingis.


Nánari upplýsingar veita:

Hjalti Zóphóníasson,                          Þórhallur Vilhjálmsson,                                
skrifstofustjóri í dómsmála-                ritari landskjörstjórnar
og mannréttindaráðuneytinu              sími: 563 0500
sími: 545 9000




 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum