Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nr. 154/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 154/2018

Miðvikudaginn 29. ágúst 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. apríl 2018, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. febrúar 2018 um uppbót/styrk til kaupa á bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 12. janúar 2018. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. janúar 2018, var umsókn kæranda synjað. Kærandi sótti um að nýju með umsókn, móttekinni 17. janúar 2018. Með bréfi, dags. 16. febrúar 2018, synjaði Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda á ný. Óskað var eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með bréfi, dags. 21. febrúar 2018, og var umbeðinn rökstuðningur veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 3. apríl 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. apríl 2018. Með bréfi, dags. 25. apríl 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. júní 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. júní 2018. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Gerð er krafa um að fallist verði á umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið.

Í kæru kemur fram að móðir kæranda, sem sé skipaður lögráðamaður kæranda, hafi 12. janúar 2018 sótt um uppbót/styrk til bifreiðakaupa fyrir hans hönd. Á árinu X hafi kærandi búið í foreldrahúsum og þá hafi Tryggingastofnun samþykkt uppbót/styrk til bifreiðakaupa, enda hafi móðir hans verið skráður ökumaður bílsins á þeirri umsókn. Í 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009, um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, segi að uppbót sé eingöngu heimilt að veita þegar hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður hans. Bíllinn hafi orðið fyrir tjóni á árinu X og hafi því verið keyptur annar bíll sem hafi verið hugsaður til bráðabirgða, enda ekki nógu langur tími liðinn frá síðustu afgreiðslu á uppbót/styrk. Í X hafi sá bíll orðið óökufær og þá hafi verið keyptur nýr bíll.

Móðir kæranda hafi óskað eftir staðfestingu Tryggingastofnunar á að henni væri heimilt að kaupa þriðja bílinn þó að ekki væru liðin fimm ár frá því að uppbót/styrk til bifreiðakaupa árið X hafði verið samþykktur. Það hafi verið staðfest, hægt væri að kaupa bílinn og sækja um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupanna seinna, þ.e. að fimm árum liðnum frá fyrri samþykkt. Tekið hafi verið fram að fyrir lægi gilt hreyfihömlunarvottorð kæranda hjá stofnuninni og að ekkert væri því til fyrirstöðu að hann fengi umsókn um uppbót afgreidda þegar sótt yrði um hana.

Að liðnum fimm árum frá fyrstu afgreiðslu Tryggingastofnunar á uppbót/styrk til bifreiðakaupa hafi móðir kæranda sent inn nýja umsókn í samræmi við fyrri ráðleggingar stofnunarinnar. Umsókninni hafi verið synjað með bréfi, dags. 15. janúar 2018, á þeim grundvelli að skráður ökumaður, þ.e. móðir kæranda, væri ekki með sama lögheimili og kærandi. Kærandi hafi orðið X ára X og hafi þá flutt í sjálfstæða búsetu þar sem hann hafi notið sólarhringsþjónustu frá C. Það hafi hins vegar í för með sér að hann eigi ekki lengur rétt til uppbótar/styrks frá Tryggingastofnun vegna ákvæðis 3. gr. framangreindrar reglugerðar. Frá þessari reglu sé hins vegar ein undantekning, þ.e. þegar um sé að ræða einstakling sem búi einn og geti ekki ekið sjálfur en sé með persónulegan aðstoðarmann samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, til dæmis samningi um notendastýrða persónulega aðstoð (hér eftir NPA), beingreiðslusamningi eða sambærilegum samningi og þá þurfi að leggja fram með umsókn afrit af slíkum samningi.

Það virðist því skipta höfuðmáli þegar sótt sé um uppbót/styrk til bifreiðakaupa úr hvaða vasa fjármagn fyrir þjónustunni komi. Kærandi sé í sólarhringsþjónustu sem sé veitt af sveitarfélaginu, ekki samkvæmt beingreiðslusamningi eða samningi um NPA, enda hafi aðstandendur hans ekki óskað eftir slíku. Samt sem áður sé um að ræða lögbundna þjónustu sem sé veitt á nákvæmlega sömu forsendum, með nákvæmlega sama sniði og til dæmis ef um væri að ræða beingreiðslusamning. Eini munurinn sé sá að C greiði laun starfsmanna beint til þeirra en ekki til þjónustuþega eða aðstandenda sem síðan greiði laun starfsmanna. Hvort um sig sé þjónusta, sbr. lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. NPA hafi ekki verið staðfest með lögum og sé í raun enn tilraunverkefni af hálfu ríkisins. Tryggingastofnun geti því tæplega sett það sem skilyrði fyrir þjónustu/styrkjum.

Umboðsmaður kæranda hafi sett sig í samband við aðstandendur fatlaðs einstaklings, sem sé í samskonar þjónustu og kærandi, en […] hafði hún aðstoðað þau við að sækja um uppbót/styrk til bifreiðakaupa fyrir þann einstakling. Tryggingastofnun hafi samþykkt þá umsókn. Með þeirra samþykki hafi umboðsmaður kæranda fengið leyfi til að skoða gögn sem hafi legið til grundvallar þeirri umsókn. Það hafi komið í ljós að þegar þau hafi leitað ráðgjafar hjá Tryggingastofnun, hafi þeim verið tjáð að þau þyrftu ekki að setja inn skráðan ökumann, það þyrfti hins vegar að fylgja staðfesting frá ábyrgðaraðila búsetuþjónustunnar. Það hafi verið umboðsmaður kæranda sem hafi útbúið þá staðfestingu og á þeim grundvelli hafi umsóknin verið samþykkt af Tryggingastofnun.

Í samráði við umboð Tryggingastofnunar á D hafi því verið ákveðið að sækja um að nýju, án þess að skrá ökumann. Sótt hafi verið um að nýju 17. janúar 2018 og meðfylgjandi hafi verið send sams konar staðfesting frá ábyrgðarmanni búsetuþjónustunnar og hafi verið gert hjá áðurnefndum einstaklingi. Tryggingastofnun hafi aftur gert athugasemd við umsóknina þar sem að hún hafi ekki þótt fullnægjandi því að það vantaði gögn, þjónustusamning við sveitarfélagið. Slíkur samningur sé ekki til þar sem að kærandi fái þjónustu frá sveitarfélaginu. Um þjónustu hans gildi hins vegar þjónustuáætlun en ekki samningur þar sem um sé að ræða lögbundna þjónustu sem hann eigi rétt á lögum samkvæmt og slík þjónustu geti vart talist umsemjanleg. Þjónustuáætlunin hafi verið send til Tryggingastofnunar til viðbótar við umsóknina en stofnunin hafi synjað kæranda aftur um styrk/uppbót þar sem engin þjónustusamningur hafi legið fyrir.

Óskað hafi verið eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar. Þar hafi verið greint frá því hvernig þeirri þjónustu sem kærandi fái sé háttað og að ekki væri fyrir hendi samningur í því formi sem Tryggingastofnun telji vera fullnægjandi. Í rökstuðningi stofnunarinnar, dags. 3. apríl 2018, segi að þjónustuáætlunin sem hafi fylgt umsókninni sé ekki sambærileg við samning sem kveðið sé á um í reglum og því sé stofnuninni ekki heimilt að samþykkja umsóknina á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Jafnframt hafi verið tekið fram að hefði stofnunin talið þjónustuáætlunina vera samning í skilningi reglugerðarinnar þá væri hún ekki efnislega fullnægjandi til þess að veita umsækjanda uppbót/styrk á hennar grundvelli. Ekki væri nægilega skýrt tekið fram í áætluninni hvernig akstri umsækjanda og aðstoðarmanna hans yrði háttað.

Þá sé því komið á framfæri að í samningum, eins og beingreiðslusamningum og samningum um NPA, sé heldur ekki með neinum hætti áætlun um það hvernig akstri umsækjenda og aðstoðarmanna hans sé háttað. Þjónustusamningi og þjónustuáætlun sé ætlað að taka yfir þá þjónustu sem þjónustuþega sé veitt en ekki upplýsingar um þarfir þjónustuþega fyrir akstur eða upplýsingar um það hvað hann geri í sínum frítíma, hvort sem það feli í sér akstur eða ekki.

Afgreiðsla Tryggingastofnunar feli í sér mismunun á milli einstaklinga á grundvelli þess hvernig þeir eða í þessu tilviki aðstandendur kjósi að hafa þjónustuna með tilliti til þess hvernig þjónusta sé fjármögnuð. Að mati umboðsmanns kæranda ætti það ekki að hafa áhrif á afgreiðslu mála hjá Tryggingastofnun hvort fatlaður einstaklingur geti skipulagt og annast þjónustu við sig sjálfur með tilkomu beingreiðslusamnings við sveitarfélag eða samnings um NPA. Það séu ekki allir í þeirri stöðu að ráða við slíkt verkefni eða hafi aðstandendur sem hafi vilja og/eða getu til að bera slíka ábyrgð. Fólk hafi val, sem betur fer. Spurt sé hvort það sé réttlátt að slíkt hafi áhrif á afgreiðslu opinberrar stofnunar líkt og í þessu tilfelli. Móðir kæranda gæti vissulega flutt lögheimili sitt til hans en það hefði í för með sér að lífeyrisgreiðslur til hans myndu skerðast, enda eigi maður lögum samkvæmt að hafa lögheimili þar sem maður sé búsettur. Kærandi hafi valið að búa einn, honum líði vel í sjálfstæðri búsetu en það sé samt að hafa áhrif á lífsgæði hans. Jafnframt sé vert að benda á brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þar sem umsókn einstaklings í sama þjónustuúrræði sveitarfélagsins hafi verið samþykkt á grundvelli staðfestingar frá ábyrgðaraðila þjónustunnar.

Í beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið gerð grein fyrir því að í synjun stofnunarinnar hafi verið gerð athugasemd á grundvelli jafnræðis þar sem staðfest hafi verið umsókn frá einstaklingi í sambærilegri þjónustu og kærandi sé í. Svar Tryggingastofnunar við þeirri athugasemd hafi verið svohljóðandi: „Hafi Tryggingastofnun hins vegar gert mistök í öðru máli veitir það ekki öðrum umsækjendum rétt á grundvelli þeirra mistaka.“ Tekið sé fram að umsóknin hafi verið unnin í samráði við þjónustufulltrúa Tryggingastofnunar, auk þess sem staðfest hafi verið að þrír einstaklingar í öðru bæjarfélagi, í sambærilegri þjónustu og kærandi hafi fengið umsóknir sínar samþykktar á uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á umsókn um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Málavextir séu þeir að sótt hafi verið um uppbót/styrk samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 vegna kaupa á bifreið þann 17. janúar 2018. Umsókninni hafi verið synjað þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um að hafa sjálfur ökuréttindi, eða heimilismaður, samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Einnig hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði undantekningarákvæðis frá þessu skilyrði, en það kveði á um að um sé að ræða hreyfihamlaðan einstakling í sjálfstæðri búsetu, sbr. 6. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar, sem hafi persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, til dæmis samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Sett hafi verið reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, nr. 170/2009. Í 3. gr. sé fjallað um uppbót vegna bifreiðakaupa og í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um styrki vegna bifreiðakaupa. Í 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, komi fram að eingöngu megi veita styrk vegna bifreiðakaupa ef hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Þetta gildi einnig um styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar.

Með reglugerð nr. 967/2016, um breytingu á reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, hafi verið bætt við samhljóða málsliðum við 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. En annar málsliður beggja málsgreina hljómi í dag svona:

„Þetta á þó ekki við þegar um er að ræða hreyfihamlaða einstaklinga í sjálfstæðri búsetu, sbr. 6. mgr. 1. gr., sem hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning.“

Varðandi skilyrðið um ökuréttindi umsækjandans eða heimilismanns sé það að segja að núgildandi reglugerð um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hafi tekið gildi árið 2009 og hafi hún tekið við af eldri reglugerð um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra vegna bifreiða, nr. 752/2002, með síðari breytingum.

Með þeirri reglugerð hafi aðgengi að uppbótum og styrkjum verið rýmkað verulega frá því sem áður hafi verið. Eitt af þeim atriðum sem sérstaklega hafi verið tekin afstaða til hafi verið hversu ströng skilyrði ætti að setja um að uppbótar- eða styrkþeginn hefði sjálfur ökuréttindi. Í eldri reglugerð hafi eins og nú verið skilyrði fyrir veitingu uppbótar vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiðar að umsækjandi eða heimilismaður hans hefðu ökuréttindi. Fyrir veitingu styrkja vegna bifreiðakaupa hafi hins vegar verið strangari skilyrði en í þeim tilvikum hafi umsækjandi sjálfur þurft að hafa ökuréttindi.

Í reglugerð nr. 170/2009 hafi skilyrði til þess að eiga rétt á styrk vegna bifreiðakaupa, hvort sem það sé samkvæmt 4. gr. eða 5. gr reglugerðarinnar, verið rýmkuð á þann hátt að nú þurfi umsækjendur ekki sjálfir að hafa ökuréttindi heldur dugi að heimilismaður hafi slík réttindi. Núna séu því gerðar sömu kröfur til ökuréttinda umsækjanda og heimilismanns hans hvort sem um sé að ræða uppbætur vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiða samkvæmt 2. og 3. gr. eða styrki til bifreiðakaupa samkvæmt 4. eða 5. gr. reglugerðarinnar.

Með breytingareglugerð nr. 967/2016 hafi skilyrði reglugerðarinnar verið rýmkuð enn frekar. Í ákveðnum, nánar tilgreindum tilvikum, hafi verið heimilt að gera undanþágu frá skilyrðinu um að umsækjandi eða heimilismaður hafi ökuréttindi. Þetta eigi við í þeim tilvikum þar sem um sé að ræða hreyfihamlaða einstaklinga í sjálfstæðri búsetu, sbr. 6. mgr. 1. gr., sem hafi persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, til dæmis samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning. Þessi undanþága gildi um uppbót/styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 3., 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Ekki sé deilt um það hvort að kærandi uppfylli skilyrði hreyfihömlunar í máli þessu.

Umsókninni hafi verið synjað þar sem að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um að hafa sjálfur ökuréttindi, eða heimilismaður, samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Einnig hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði undantekningarákvæðis frá þessu skilyrði, en það kveði á um að um sé að ræða hreyfihamlaðan einstakling í sjálfstæðri búsetu, sbr. 6. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar, sem hafi persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, til dæmis samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning.

Með umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa hafi fylgt þjónustuáætlun frá C. Í reglugerðinni sé skýrt kveðið á um að einungis sé heimilt að veita uppbætur/styrki til bifreiðakaupa ef umsækjandi eða heimilismaður umsækjanda hafi ökuréttindi. Eina undantekningin frá þessu sé ef umsækjandi hafi persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, eins og fram hafi komið. Ljóst sé að undantekningarákvæðið sé skýrt og sé algjörlega bundið við að fyrir liggi samningur um þjónustuna við sveitarfélagið. Nokkurt svigrúm sé veitt til þess hvernig sá samningur sé formlega og sé til dæmis ekki bundinn við svokallaða NPA samninga, en samningur verði hins vegar að vera til staðar.

Ljóst sé að þjónustuáætlun sú sem fylgt hafi umsókninni sé ekki sambærileg við samning eins og kveðið sé á um í reglugerðinni. Tryggingastofnun sé því ekki heimilt að samþykkja uppbót/styrk til bifreiðakaupa á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Tryggingastofnun vilji einnig taka það fram að við vinnslu umsóknarinnar hafi þjónustuáætlunin verið skoðuð ítarlega. Þyki Tryggingastofnun því rétt að taka fram að hefði stofnunin talið hana vera samning í skilningi reglugerðarinnar þá væri þjónustuáætlunin ekki efnislega fullnægjandi til þess að veita umsækjanda uppbót/styrk á hennar grundvelli. Ekki komi nægilega skýrt fram í áætluninni hvernig akstri umsækjanda og aðstoðarmanna hans yrði háttað.

Að öllu framangreindu virtu telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrks til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

[...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í 3. gr. og 4. gr. reglugerðarinnar er fjallað um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá uppbót eða styrk til bifreiðakaupa. Þar er tilgreint í 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. það skilyrði að hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Þá segir svo í ákvæðunum:

„Þetta á þó ekki við þegar um er að ræða hreyfihamlaða einstaklinga í sjálfstæðri búsetu, sbr. 6. mgr. 1. gr., sem hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning.“

Í 6. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er skilgreint hvað átt sé við með sjálfstæðri búsetu en ákvæðið er svohljóðandi:

„Með sjálfstæðri búsetu er í reglugerð þessari átt við einhleyping sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“

Ágreiningur í máli þessu snýr að því hvort að kærandi uppfylli framangreint skilyrði um að vera hreyfihamlaður einstaklingur í sjálfstæðri búsetu sem hefur persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag, til dæmis samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning.

Samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem samþykkt voru af Alþingi 26. apríl 2018 og taka gildi 1. október 2018, er notendastýrð persónuleg aðstoð skilgreind með eftirfarandi hætti í 6. tölul. 2. gr. laganna:

„Aðstoð sem stjórnað er af notanda þjónustunnar með þeim hætti að hann skipuleggur aðstoðina, ákveður hvenær og hvar hún er veitt, velur aðstoðarfólk og hver annast umsýslu á grundvelli starfsleyfis þar að lútandi.“

Þá er notendasamningur skilgreindur með eftirfarandi hætti í 5. tölul. 2. gr. laganna:

„Samningur við sveitarfélag sem felur í sér að notandi stjórnar þeirri aðstoð sem hann fær þannig að hann skipuleggur hana, ákveður hvenær og hvar hún er veitt og velur aðstoðarfólk. Notendasamningar geta verið í formi beingreiðslusamnings, þar sem notandi sér alfarið um starfsmannahald sjálfur, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar eða þjónustufyrirkomulags þar sem notandi stýrir sjálfur þjónustu við sig þó að þeir sem aðstoði hann séu starfsmenn sveitarfélags.“

Óumdeilt er að kærandi hefur ekki gert samning við C um þjónustu við hann. Í málinu liggur aftur á móti fyrir þjónustuáætlun C við kæranda sem gerð var á grundvelli 7. gr. reglugerðar nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Fatlað fólk sem hefur þörf fyrir viðvarandi og fjölbreytilegan stuðning á rétt á að gerð sé einstaklingsbundin þjónustuáætlun fyrir það. Gerð slíkrar áætlunar skal vera á ábyrgð þeirra sem sjá um framkvæmd þjónustunnar.

Þjónustuáætlunin felur í sér skýr markmið sem vinna skal að með því að veita stuðning og samhæfa úrræði mismunandi þjónustuaðila, þar á meðal félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og annarra aðila, svo sem á sviði menntunar, atvinnu og tómstunda.

Þjónustuáætlunin lýsir því hver ber ábyrgð á því að tilteknum verkþáttum í áætluninni sé framfylgt ásamt upplýsingum um þann tíma sem einstökum stuðningsþáttum er ætlaður.“

Samkvæmt 2. málsl. 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 2. málsl. 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er það fortakslaust skilyrði fyrir því að ákvæðið eigi við að hreyfihamlaður einstaklingur hafi persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag. Þeir samningar sem nefndir eru í dæmaskyni virðast eiga það sameiginlegt samkvæmt fyrrgreindum skilgreiningum í lögum nr. 38/2018, sem taka gildi 1. október 2018, að notandi skipuleggur aðstoðina og velur aðstoðarfólk sjálfur. Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst ekki á að sú þjónustuáætlun sem liggur fyrir í málinu og kveður á um þjónustu sem kærandi fær frá C sé samningur við sveitarfélag í skilningi 2. málsl. 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 2. málsl. 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Að mati úrskurðarnefndar uppfyllir kærandi því ekki skilyrði fyrir veitingu uppbótar/styrks til bifreiðakaupa.

Í kæru er byggt á því að í afgreiðslu Tryggingastofnunar felist mismunun á milli einstaklinga á grundvelli þess hvernig þeir kjósi að haga þjónustunni. Einnig er byggt á því að umsókn einstaklings í sama þjónustuúrræði sveitarfélagsins og kærandi sé með, hafi verið samþykkt á grundvelli staðfestingar frá ábyrgðaraðila þjónustunnar. Þá hafi þrír einstaklingar í öðru sveitarfélagi í sambærilegri þjónustu og kærandi fengið samþykktar umsóknir um uppbót/styrk til bifreiðakaupa. Framangreint sé brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í rökstuðningi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. apríl 2018, byggir stofnunin á því að sú lagatúlkun sem beitt var í máli þessu ráði í öllum sambærilegum málum. Þá segir að hafi stofnunin aftur á móti gert mistök í öðru máli þá veiti það ekki öðrum umsækjendum rétt á grundvelli þeirra mistaka. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að afgreiðsla Tryggingastofnunar í máli þessu sé í samræmi við reglugerð nr. 170/2009. Jafnræðisreglan veitir almennt ekki tilkall til neins sem ekki samrýmist lögum. Hafi Tryggingastofnun tekið ákvörðun sem ekki samrýmist lögum í öðru máli leiðir jafnræðisreglan ekki til þess að stofnuninni beri að taka sambærilega ákvörðun í þessu máli. Því er ekki fallist á að Tryggingastofnun ríkisins hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.

Kemur þá til skoðunar hvort ákvæði 2. málsl. 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 2. málsl. 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé í samræmi við grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins um jafnrétti borgaranna. Tilgangurinn með framangreindum skilyrðum um að hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður, nema um sé að ræða einstakling sem er með persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag, er að tryggja að bifreiðin sem veittur er styrkur til kaupa á verði einungis nýtt í þágu bótaþegans. Að mati úrskurðarnefndar er einstaklingur, sem er með persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag, ekki í sambærilegri stöðu við einstaklinga sem þiggja þjónustu beint frá sveitarfélagi. Einstaklingur með samning um notendastýrða persónulega aðstoð, eða sambærilegan samning, er í mjög góðri aðstöðu til að skipuleggja aðstoðina sem hann fær þannig að persónulegir aðstoðarmenn keyri hann til atvinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu og/eða læknismeðferð, sbr. markmið sem tilgreind eru í 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009.  Því er vel tryggt að bifreiðin sem sá einstaklingur fær sé nýtt í hans þágu. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að framangreind ákvæði séu í samræmi við grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins um jafnrétti borgaranna.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um uppbætur/styrk til kaupa á bifreið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum