Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2006 Innviðaráðuneytið

Stýrihópur skipaður vegna Bakkafjöruhafnar

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur skipað stýrihóp til að vinna að forathugun og eftir atvikum forhönnun og hönnun hafnar í Bakkafjöru.

Skipan stýrihópsins er í samræmi við niðurstöðu skýrslu starfshóps um samgöngur við Vestmannaeyjar þar sem lagt er til að skoðuð verði nánar sú lausn að byggja ferjuhöfn í Bakkafjöru og að meginsamgönguæð milli lands og Eyja verði með ferju milli Heimaeyjar og Bakkafjöru. Stýrihópinn skipa Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður hafnasviðs Siglingastofnunar, og Eiríkur Bjarnason, verkfræðingur í samgönguráðuneytinu, en hann er jafnframt formaður hópsins.

Í skipunarbréfi segir meðal annars að stýrihópurinn skuli taka mið af tillögum starfshóps um samgöngur til Vestmannaeyja og eru nefnd sjö atriði sem hugað skuli að:

  1. Siglingastofnun verði falið að ljúka nauðsynlegum frumrannsóknum í Bakkafjöru.
  2. Niðurstöður Siglingastofnunar verði yfirfarnar af þar til bærum erlendum aðilum.
  3. Fram fari áhættumat á siglingum milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru.
  4. Fram fari þarfagreining á nýrri ferju, sem sigla skal milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru, þannig að tryggt verði að hún anni flutningsþörf.
  5. Kannað verði hvort hagkvæmt sé að byggja stærri höfn í Bakkafjöru en Siglingastofnun gerir ráð fyrir í athugunum sínum.
  6. Metin verði áhrif Bakkafjöruhafnar á þróun byggðar í Vestmannaeyjum og byggðar í landi.
  7. Auk þessara atriða sem tilgreind eru í niðurstöðum starfshópsins skal stýrihópurinn láta fara fram mat á því hvers konar skip hentar til siglinga á þessari leið og skal þá tekið mið af 4. lið hér að framan auk annarra atriða sem fram koma við forhönnun hafnarinnar.

Stýrihópnum er falið að taka strax til starfa og skal hann í upphafi gera tímaáætlun um verkefnið. Miðað er við að hin nýja ferja hefji siglingar milli lands og eyja árið 2010 ef niðurstöður forathugunar verða jákvæðar á þá lund að mögulegt sé að gera ferjuhöfnina í Bakkafjöru.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum