Hoppa yfir valmynd
10. maí 2004 Utanríkisráðuneytið

Útgáfa Genfarsamninganna á íslensku

Afhending Genfarsamninganna 10. maí 2004
Afhending Genfarsamninganna 10. maí 2004 við Espihól í Eyjafirði.

Í dag kynntu Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Úlfar Hauksson formaður Rauða kross Íslands útgáfu Genfarsamninganna á íslensku með athöfn við Espihól í Eyjafirði. Við sama tækifæri kynnti Þorsteinn Gunnarsson rektor háskólans á Akureyri nýstofnaða Félagsvísinda- og lagadeild háskólans, sem ætlar að leggja áherslu á kennslu í mannréttindum og mannúðarlögum.

Genfarsamningarnir eru hornsteinn alþjóðlegra mannúðarlaga. Þeir hafa það hlutverk að draga úr eyðileggingaráhrifum stríðs og veita fórnarlömbum þess vernd. Í þeim kristallast hugmyndin um að jafnvel stríð sé takmörkunum háð. Samningarnir vernda þá sem ekki taka þátt í ófriði, eða hafa lagt niður vopn, og reisa skorður við því valdi sem stríðsaðilar geta beitt.

Í bókinni er að finna samningana fjóra frá 1949 og bókanirnar við þá frá 1977.

Grundvallarhugtök samninganna eru virðing og vernd. Með þessari útgáfu samninganna vilja utanríkisráðuneytið og Rauði kross Íslands hvetja til meiri fræðslu um alþjóðleg mannúðarlög. Þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi fylgir aukin ábyrgð sem krefst þekkingar á alþjóðalögum. Á endanum er tilgangurinn hinn sami og með Genfarsamningunum sjálfum, að vernda saklaus fórnarlömb stríðs.

Kynningin fór fram í Eyjafirði til að minna á atburð sem sagt er frá í Víga-Glúms sögu. Þar segir frá því að Halldóra kona Víga-Glúms gengur út á vígvöllinn með griðkonum sínum og gerir að sárum bæði vina og óvina án þess að fara í manngreinarálit. Sagan minnir óneitanlega á atburðina við Solferino árið 1859 sem teljast fæðingarstund bæði Genfarsamninganna og Rauða krossins.

Unnið hefur verið að þýðingu á samningunum í fjölda ára og hafa margir komið að verkinu. Umsjón með útgáfu og þýðingu höfðu Gestur Hrólfsson, Hjörtur Bragi Sverrisson og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir. Málfarsyfirlestur var í höndum Marðar Árnasonar og prófarkalestur annaðist Ólafur Þ. Jónsson. Bókaútgáfan Hólar gaf bókina út fyrir ráðuneytið og Rauða krossinn.


Hjálagt fylgir ávarp utanríkisráðherra flutt í tilefni af útgáfunni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum