Hoppa yfir valmynd
21. júní 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 200/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 21. júní 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 200/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16010022

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 19. janúar 2016, kærði [...], fd. 9. desember 1977, ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. desember 2015, að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi vegna aðstæðna hans í [...], synja honum um hæli vegna aðstæðna hans í Ungverjalandi og endursenda hann þangað auk þess að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að viðurkenna stöðu hans sem flóttamaður og veita honum hæli á Íslandi með vísan til 46. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi eftir hæli hér á landi þann 7. september 2015. Framvísaði hann ferðaskilríki útlendings sem gefur sérstaklega til kynna að hann njóti verndar í Ungverjalandi. Þann 10. desember tók Útlendingastofnun ákvörðun um að taka umsókn kæranda um hæli vegna aðstæðna hans í [...]ekki til efnismeðferðar hér á landi, auk þess að komast að þeirri niðurstöðu að kærandi væri ekki flóttamaður vegna aðstæðna hans í Ungverjalandi og var honum synjað um hæli á Íslandi. Jafnframt var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Kærandi kærði þá ákvörðun við birtingu þann 19. janúar 2016. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til meðferðar. Með bréfi kærunefndar, dags. 22. janúar 2016, var fallist á beiðni um frestun réttaráhrifa. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 5. febrúar 2015.

Hinn 22. mars 2016 kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b útlendingalaga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að í 1. mgr. 46. gr. útlendingalaga segir að flóttamaður skv. 44. gr. sem er hér á landi eða kemur hér að landi á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli. Þá segi í b-lið 1. mgr. 46. gr. a, að með fyrirvara um ákvæði 45. gr., geti stjórnvöld synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn skv. 1. mgr. 46. gr. ef umsækjandi hefur komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hafi verið veitt viðbótarvernd í Ungverjalandi og hafi því hlotið vernd í öðru ríki í samræmi við b-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Með vísan til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 27725/10, Samsam Mohammed Hussein og fl. gegn Hollandi og Ítalíu frá 2. apríl 2013 taldi Útlendingastofnun að ekki verði séð að aðstæður kæranda varðandi húsnæði, atvinnu og félagslega þjónustu séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 45. gr. útlendingalaga. Þá taldi Útlendingastofnun að 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga stæði ekki endursendingu í vegi. Útlendingastofnun ákvað því að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um hæli vegna aðstæðna í heimaríki hans.

Þá synjaði Útlendingastofnun kæranda um hæli á Íslandi vegna aðstæðna hans í Ungverjalandi á þeim grundvelli að kærandi sé ekki með ríkisfang þar í landi. Stofnunin taldi ennfremur að endursending kæranda til Ungverjalands fæli ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. útlendingalaga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var jafnframt tekið til skoðunar hvort aðstæður kæranda féllu undir ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga, í samræmi við 8. mgr. 46. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða Útlendingastofnunar var að synja bæri kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 12. gr. f laga um útlendinga enda taki ákvæðið ekki til neyðar af efnahagslegum rótum eða vegna húsnæðisskorts. Þá var kæranda jafnframt synjað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland skv. 12. gr. f laga um útlendinga.

Kæranda var vísað frá landi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um útlendinga, og var réttaráhrifum ekki frestað með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir mál sitt á því að þrátt fyrir að hann njóti verndar í Ungverjalandi séu aðstæður hans þar í landi afar bágbornar. Auk þess feli ákvæði 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga í sér heimild en ekki skyldu til þess að synja hælisumsókn um efnismeðferð. Jafnframt skuli, skv. 2. mgr. 46. gr. a sömu laga, taka umsókn um hæli til efnismeðferðar hér á landi þrátt fyrir ákvæði b-d-liða 1. mgr. ákvæðisins hafi útlendingur slík tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd, eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Hér sé um að ræða skyldu stjórnvalda til þess að taka umsókn um hæli til efnismeðferðar þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. við tilteknar aðstæður.

Kærandi byggir á því að hann sé ekki að óska eftir alþjóðlegri vernd gagnvart Ungverjalandi, enda uppfylli hann ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. Sterkar vísbendingar séu hins vegar um að aðstæður þær sem hann eigi von á í Ungverjalandi jafnist á við vanvirðandi meðferð skv. 45. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi ekki gert svokallaðan aðlögunarsamning við ungversk yfivöld en samkvæmt heimasíðu ungversku útlendingastofnunarinnar feli slíkt í sér aðstoð við að finna hentugt heimili, skoða menntunar- og atvinnumöguleika og tungumála námskeið. Slíkur samningur sé aðeins gerður að frumkvæði þess sem njóti verndar. Kæranda hafi ekki verið kynntur slíkur samningur eða hvaða réttindi felist í honum. Hann hafi því ekki haft tækifæri til að gera slíkan samning og muni ekki geta gert hann síðar meir þar sem að slík beiðni þurfi að koma fram innan fjögurra mánaða frá því að viðkomandi hafi hlotið vernd. Þá sé ekki útilokað að ungversk stjórnvöld muni líta svo á að kærandi hafi afsalað sér viðbótarverndinni með því að sækja um hæli á Íslandi.

Þá byggir kærandi einnig á skýrslu mannréttindastjóra Evrópuráðsins er fjallar um heimsókn hans til Ungverjalands í júlí 2014 ásamt skýrslu frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna frá apríl 2012. Verulegir annmarkar séu á aðlögun flóttamanna og annarra með alþjóðlega vernd að ungversku samfélagi. Atvinnuleysi sé hátt í Ungverjalandi og erfitt sé fyrir flóttafólk að fá atvinnu. Algengt sé að flóttafólk verði fyrir mismunun, kynþáttahatri og áreiti. Þá séu í gildi lög í landinu sem geri það refsivert að sofa utandyra að nóttu til á opnum svæðum og eru refsingarnar fangelsi eða sektir. Enn fremur hafi þýsk stjórnvöld stöðvað tímabundið fjölda endursendinga einstaklinga með viðbótarvernd í Ungverjalandi sem höfðu sótt um hæli í Þýskalandi með vísan til kerfisbundinna galla í ungverska kerfinu. Þá hafi talsmaður kæranda heimildir fyrir því að ungversk yfirvöld taki ekki við neinum flóttamönnum, þ.e. hvorki hælisleitendum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinna né einstaklingum með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi sem sendir séu aftur til landsins.

Einnig vísar kærandi til þess að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi í maí á síðasta ári séð ástæðu til þess að senda frá sér fréttatilkynningu þar sem stofnunin hvetji ungversk stjórnvöld til þess að vernda flóttafólk í stað þess að ofsækja það. Aðrar skýrslur alþjóðlegra aðila hafi tekið undir þetta og bent á að flóttamenn í Ungverjalandi sem séu heimilislausir búi í raun við ómannúðlegar aðstæður og hljóti þar að auki ekki einungis ófullnægjandi stuðning frá stjórnvöldum heldur sé þeim einnig hótað refsingu fyrir að vera heimilislausir.

Aðstæður og aðbúnaður sem kærandi megi eiga von á séu því svo slæmar að jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Endursending hans brjóti því gegn 1. mgr. 45. gr. útlendingalaga, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Í greinargerð sinni bendir kærandi á umræðudrög frá ECRE (e. European Council on Refugees and Exiles) þar sem lagt sé til að tekin verði upp gagnkvæm viðurkenning á jákvæðum niðurstöðum hælismála á meðal aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins. Með slíkri gagnkvæmri viðurkenningu á jákvæðir niðurstöðu í hælismálum sé unn að leysa vanda flóttamann í Evrópu og greiða fyrir flutningi þeirra til annarra ríkja þar sem þeir eigi t.d. ættingja eða hafi önnur tengsl. Ekkert í núgildandi löggjöf komi í veg fyrir slíka gagnkvæma viðurkenningu en slíkar heimildi séu hins vegar vannýttar í framkvæmd.

Varakröfu sína byggir kærandi á því að ekki sé unnt að útiloka dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f í þeim tilvikum þar sem um efnahagslegar þrengingar er að ræða svo sem húsnæðisskort eða fátækt. Kærandi vísar til ákvörðunar mannréttindadómstóls Evrópu í máli Naima Mohammed Hassan o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu, nr. 40524/10 frá ágúst 2013. Í ákvörðunnin sé að finna dýpri rökstuðning fyrir því hvers vegna staða hælisleitanda annars vegar og einstaklinga með alþjóðlega vernd hins vegar sé ekki sú sama og hvers vegna aðildarríki mannréttindasáttmálans beri ólíkar skyldur gagnvart þessum hópum. Kærandi bendir á að það séu ekki eingöngu hælisleitendur sem séu sérstaklega viðkvæmur þjóðfélagshópur vegna stöðu sinnar. Einstaklingar með alþjóðlega vernd séu það oft á tíðum einnig. Þrátt fyrir að einstaklingur með alþjóðlega vernd njóti í orði kveðnu sömu réttinda og almennir borgarar viðkomandi lands séu þeir í annarri og mun viðkvæmari stöðu. Aðstæður þær sem kærandi hafi þurft að búa við og sem hann mun eiga von á í Ungverjalandi séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Afmörkun úrlausnarefnis

Kærunefnd telur að kærandi sé fyrst og fremst að sækja um hæli frá heimaríki sínu [...]. Málsástæður hans gefi þó einnig til kynna að hann sé að sækja um hæli frá Ungverjalandi, því ríki sem þegar hefur veitt honum vernd. Tekur neðangreind umfjöllun mið af því.

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951 ásamt viðauka við samninginn frá 1967 og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við komuna til landsins hafi kærandi framvísað vegabréfi útlendings, útgefnu af ungverskum yfirvöldum. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi hafi sannað hver hann sé með fullnægjandi hætti.

Mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Við meðferð máls er litið til þess hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem geti haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Með því getur verið átt við hvort kærandi hafi mátt þola pyndingar, hvort kærandi sé barn eða hvort umsókn hans varði börn hans, hvort kynhneigð eða kynferði kæranda geti haft áhrif eða hvort kærandi geti verið ríkisfangslaus. Mat á stöðu kæranda fer ávallt fram og eru þau atriði sem koma til skoðunar ekki tæmandi.

Kærunefndin telur ekkert í gögnum málsins benda til þess að kærandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Umsókn um hæli frá heimaríki. Ákvæði 45. og 46. gr. a útlendingalaga

Í 1. mgr. 46. gr. útlendingalaga kemur fram að flóttamaður skv. 44. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli frá heimalandi sínu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 46. gr. a, og með fyrirvara um ákvæði 45. gr., synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 46. gr. laganna ef umsækjanda hefur verið veitt hæli í öðru ríki.

Með sama fyrirvara geta stjórnvöld einnig synjað um efnismeðferð á grundvelli b-liðar 1. mgr. 46. gr. a, ef umsækjandi hefur komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir skýrslur um Ungverjaland, sbr. m.a. Hungary as a country of asylum: Observations on the situation of asylum-seekers and refugees in Hungary (UNHCR, apríl 2012); 2015 – Country Reports on Human Rights Practices –Hungary (United States Department of State, 13. apríl 2016); Asylum Information Database National Country Report: Hungary (European Council on Refugees and Exiles, nóvember 2015); Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his Visit to Hungary from 1 to 4 July 2014 (Council of Europe, 16. desember 2014); Description of the Hungarian Asylum System (European Asylum Support Office, 2015); Case Law Fact Sheet: Prevention of Dublin Transfers to Hungary (European Council on Refugees and Exiles, janúar 2016); ECRI Report on Hungary (European Commission against Racism and Intolerance, 9. júní 2015) og WHO/Europe and the Ministry of Health of Hungary conduct a joint assessment of refugee and migrant health in Hungary (http://www.euro.who.int, heimasíða World Health Organization, sótt 10. febrúar 2016).

Við mat á því hvort 45. gr. laga um útlendinga eigi við verður m.a. að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þann 2. apríl 2013 lýsti Mannréttindadómstóll Evrópu kæru í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) ótæka á þeim grundvelli að sú meðferð sem kærandi hlaut bæði sem hælisleitandi og einstaklingur sem hlotið hefur vernd gæti ekki talist brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmálans. Taldi dómstóllinn að ekki sé hægt að gera þá kröfu til aðildarríkja að veita öllum flóttamönnum húsaskjól eða fjárhagslega aðstoð til þess að viðhalda ákveðnum lífsskilyrðum.

Ljóst er að mikil aukning hefur orðið á hælisumsóknum í Austur-Evrópu. Verður af framangreindu ráðið að ungversk yfirvöld hafa átt við margvíslegan vanda að etja. Hins vegar hefur athugun kærunefndarinnar á aðstæðum viðurkenndra flóttamanna í Ungverjalandi ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður þeirra í Ungverjalandi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda brjóti í bága við 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði hann sendur þangað. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Ungverjalandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu viðurkenndra flóttamanna til Ungverjalands.

Þegar metið er hvort synja skuli umsóknum um hæli um efnismeðferð á grundvelli b-liðar 1. mgr. 46. gr. útlendingalaga skulu stjórnvöld kanna hvort skilyrði séu til þess að beita undanþáguheimildinni í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. október 2015 kom ekkert fram sem gaf til kynna að kærandi hefði nein sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Þá benda gögn ekki til þess að aðstæður hans séu að öðru leyti svo sérstakar að ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við. Verður því ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annarra sérstakra ástæðna.

Kærandi er með viðbótarvernd í Ungverjalandi. Kæranda hefur því verið veitt vernd í öðru ríki en heimaríki sínu sbr. A. lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, og viðauka við samninginn frá 1967. Með hliðsjón af 45. gr. útlendingalaga og í ljósi ofangreindra upplýsinga telur kærunefndin að Útlendingastofnun hafi verið heimilt að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um hæli frá heimaríki sínu, [...], með vísan til b-liðar 1. mgr. 46. gr. a útlendingalaga.

Umsókn um hæli frá dvalarríki. Ákvæði 44. gr. útlendingalaga

Í ljósi þess að kærandi ber fyrir sig aðstæður í Ungverjalandi telur kærunefndin rétt að fjalla einnig um umsókn kæranda eins og hann væri að sækja um hæli þaðan.

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Kærandi byggir kröfu sína á að hann þurfi vernd hér á landi á grundvelli þess að þær aðstæður sem bíði hans í Ungverjalandi séu ómannúðlegar og vanvirðandi.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Í lögskýringargögnum með þessari skilgreiningu kemur fram að heimaland sé það land þar sem viðkomandi eigi ríkisfang. Í máli kæranda er ljóst að hann hefur hlotið alþjóðlega vernd í Ungverjalandi og er með gilt dvalarleyfi þar í landi. Kærandi, sem er ríkisborgari [...], getur ekki átt rétt á hæli sem flóttamaður hér á landi vegna aðstæðna sinna í Ungverjalandi, því ríki sem veitt hefur honum vernd. Verður honum synjað um stöðu flóttamanns hér á landi á þeim grundvelli. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar þá telur kærunefndin heldur ekki að endursending kæranda til Ungverjalands brjóti gegn 45. gr. útlendingalaga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvæði 12. gr. f útlendingalaga.

Samkvæmt 8. mgr. 46. gr. útlendingalaga skal stjórnvald taka til skoðunar hvort aðstæður kæranda falli undir ákvæði 12. gr. f ef hann er ekki talinn flóttamaður.

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga á grundvelli aðstæðna í Ungverjalandi. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða eins og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga. Er því fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í Ungverjalandi séu ekki með þeim hætti að rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.

Þá tekur kærunefndin jafnframt undir niðurstöðu Útlendingastofnunar um að kærandi uppfylli ekki skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á landinu í tengslum við umsókn sína um hæli og aðeins í skamman tíma.

Samantekt

Með vísan til forsendna ákvörðunar Útlendingastofnunar og alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson Vigdís Þóra Sigfúsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum