Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 446/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. nóvember 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 446/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16030004

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 2. mars 2016 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], fd. [...], og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar um hæli á Íslandi og endursenda hana til Svíþjóðar. Dóttir kæranda, [...], fd. [...], sótti einnig um hæli á sama tíma.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka hælisbeiðni hennar til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 30. ágúst 2015. Leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 31. ágúst 2015, skilaði engum niðurstöðum en fingraför dóttur kæranda höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 16. október 2015 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um hæli beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 26. október 2015 barst svar frá sænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 19. febrúar 2016 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hún skyldi endursend til Svíþjóðar. Kærandi tók sér 15 daga frest til að kæra ákvörðunina, sem hún síðan gerði 2. mars sl. Auk þess óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hennar væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 1. mars 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 25. apríl sl. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 17. maí 2016 og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga auk þess sem hún lagði fram skírnarvottorð frá Laugarneskirkju, dags. 16. maí 2016. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur. Þann 31. maí 2016 bárust kærunefnd útlendingamála viðbótarathugasemdir frá kæranda auk vottorðs frá [...] sálfræðingi, dags. 30. maí 2016. Þá bárust kærunefnd útlendingamála viðbótarathugasemdir og læknisfræðileg gögn frá kæranda þann 23. ágúst 2016 og gögn um meðferð máls hennar í Svíþjóð þann 5. október 2016. Kærandi kom aftur í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 3. nóvember 2016 og gerði grein fyrir máli sínu á grundvelli hinna nýju gagna sem borist höfðu kærunefnd, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hún skyldi endursend til Svíþjóðar. Lagt var til grundvallar að Svíþjóð virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu.

Varðandi andmæli kæranda þá kom fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að ekkert í gögnum málsins gæfi tilefni til að álykta að kærandi hafi hlotið ósanngjarna málsmeðferð í Svíþjóð. Þá taldi Útlendingastofnun öruggt að kærandi gæti fengið fullnægjandi læknis- og/eða sálfræðiþjónustu í Svíþjóð. Þá var einnig tekið fram að Útlendingastofnun teldi ljóst að kærandi ætti raunhæfa möguleika á að leita réttar síns fyrir stjórnvöldum í Svíþjóð og eftir atvikum fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi sótt um hæli í Svíþjóð árið 2012. Þar hafi kæranda og dóttur hennar verið synjað um hæli sem flóttamenn, viðbótarvernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum á þeim forsendum að þær hafi verið efnahagslegir flóttamenn. Kærandi hafi farið með mál sitt fyrir dóm en yfirréttur innflytjendamála hafi synjað um kæruheimild og staðfest ákvörðun sænsku Útlendingastofnunarinnar. Lokaákvörðun sé því komin í mál kæranda og nú liggi fyrir að þær verði fluttar með valdi til [...].

Kærandi vísar í alþjóðlegar skýrslur um aðstæður kvenna í [...] og um [...] og afleiðingar þess að neita slíkri ráðstöfun. Vísað er í umfjöllun skýrslnanna um konur á flótta, aðgerðir stjórnvalda til að sporna gegn kynbundnu ofbeldi gegn konum, tilraunir kvenna til að komast undan [...] og öðru ofbeldi, kvennaathvörf og kvenréttindasamtök, aðgengi kvenna að dómstólum og raunhæf úrræði þeirra til að leita réttar síns. Þá kemur einnig fram í greinargerð að [...] og að samkvæmt óstaðfestum heimildum séu um [...].

Kærandi byggir á því að þær mæðgur hafi ekki fengið fullnægjandi lögfræðiaðstoð í Svíþjóð. Dóttur kæranda hafi aldrei verið gefin kostur á að tjá sig eða gera grein fyrir umsókn þeirra fyrir sænskum stjórnvöldum, heldur hafi kæranda, sem sé ólæs og óskrifandi kona á miðjum aldri við [...], verið ætlað að fylgja umsóknum þeirra beggja eftir, án viðeigandi leiðbeininga eða aðstoðar. Þá sé dóttir kæranda ung og ógift kona. Kærandi telji nær öruggt að dóttir hennar verði [...] og að báðar muni þær þurfa að þola ofbeldi í heimalandinu vegna kyns síns. Opinber gögn sýni það að staða kvenna í [...] sé slæm en þrátt fyrir það hafi sænsk stjórnvöld synjað þeim um hæli á þeim forsendum að þær hafi sagst vera að leita betra lífs í Svíþjóð.

Þá er í greinargerð kæranda einnig vísað til þess að fordæmalaus fjöldi hafi sótt um hæli í Svíþjóð og mikið álag sé á sænska hæliskerfinu, enda taki Svíþjóð hlutfallslega við flestum hælisleitendum af öllum Evrópuríkjum. Í nóvember sl. hafi verið tekið upp tímabundið eftirlit á landamærum landsins vegna hins mikla álags. Þá er einnig vísað til samþykktra tillagna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) um aðgerðir til að takast á við innstreymi flóttamanna til Evrópu og á það minnt að sænsk stjórnvöld hafi lagt fram beiðni til framkvæmdastjórnar ESB um að önnur ríki sambandsins létti af þeim byrðum líkt og fallist hafi verið á í tilvikum Grikklands og Ítalíu. Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að útlendingahatur hafi gert vart við sig í meira mæli en áður í Svíðþjóð, undanfarið hafi til að mynda verið kveikt ítrekað í húsnæði hælisleitenda víðs vegar um landið.

Kærandi vísar einnig til nýlegrar skýrslu „Women‘s Refugee Commission“, dags. í mars 2016, um rannsókn og úttekt á stöðu kvenna og stúlkna í hæliskerfum Svíþjóðar og Þýskalands. Í greinargerðinni er tekið fram að niðurstaða rannsóknarinnar hafi í grófum dráttum verið sú að aðbúnaður kvenna sem orðið hafi fyrir ofbeldi sé óviðunandi, auk þess sem stefna og framkvæmd ríkjanna, eins og staðan sé nú, setji konur og stúlkur sem þangað leiti í aukna hættu. Meginniðurstaða skýrslunnar sé sú að viðkvæmar konur og stúlkur fari óséðar og án nauðsynlegs stuðnings í gegnum kerfið. Þá sé sérstökum áhyggjum lýst í skýrslunni af því að torvelt sé að halda uppi kröfu um hæli á grundvelli kynbundinna ofsókna, þrátt fyrir að bæði ríkin viðurkenni möguleikann á hæli á grundvelli slíkra ofsókna.

Í greinargerðinni er því einnig haldið fram að rangfærsla sé í niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar þar sem fram komi að dóttir kæranda hafi fengið tækifæri til að tjá sig hjá útlendingayfirvöldum í Svíþjóð en í hælisviðtali hennar hjá Útlendingastofnun hafi hún sagt að svo hafi ekki verið. Vísað er í 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að barni skuli veitt tækifæri til að tjá sig við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar.

Kærandi lýsir því í greinargerð að áhrifamikill [...]. Eiginmaður kæranda hafi horfið einn daginn fyrir um fjórum árum síðan og telji mæðgurnar að hann sé látinn. Eftir hvarf eiginmanns síns kveðst kærandi ekki hafa nein tök á því að vernda dóttur sína gegn ofbeldi eða [...]. Fjölskyldan hafi flúið [...] þegar dóttir kæranda var kornabarn og hafi þau haft stöðu flóttamanna í [...] svo árum skipti.

Að lokum er vikið að heilsufarsástandi kæranda í greinargerðinni. Læknisfræðileg gögn sýni fram á að kærandi þjáist meðal annars af [...]. [...]. Hún fái [...] ef dóttir hennar sé lengi fjarverandi. Samkvæmt niðurstöðu læknis [...] Landspítalans hafi ekki verið unnt að staðfesta [...] eða annan sjúkdóm er valdi [...], en hins vegar séu merki um [...]. Í greinargerð kæranda er ályktað að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna heilsufars síns.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 31. maí sl., byggir kærandi kröfu sína annars vegar á því að við endurkomu til Svíþjóðar muni þeim mæðgum verða vísað aftur til [...] án raunhæfra úrræða til þess að fá lokaúrskurð í máli sínu endurskoðaðan í Svíþjóð. Hins vegar byggir kærandi á því að vegna alvarlegs heilsufarsástands kæranda, líkamlegs og andlegs, mæli sérstakar ástæður með því að umsóknir þeirra verði afgreiddar hér á landi, sbr. fyrrnefnt vottorð sálfræðings kæranda, dags. 30. maí sl. Í viðbótarathugasemdunum er jafnframt dregin sú ályktun að kærandi sé ekki í neinu ástandi til þess að þola endursendingu til Svíþjóðar og að halda uppi umsókn sinni þar í landi, með eða án aðstoðar.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 23. ágúst sl., kemur fram að ný gögn í málinu renni stoðum undir þá málsástæðu kæranda að vegna alvarlegs heilsufarsástands þeirra mæðgna, þó einkum kæranda [...], mæli sérstakar ástæður með því að umsóknir þeirra verði afgreiddar hér á landi. Með viðbótarathugasemdum kæranda fylgi gögn er sýni fram á læknisfræðilegt ástand kæranda. Gögnin bendi til þess að andlegt ástand kæranda sé [...] . Staðfest sé að hún sé með [...] og hafi ítrekað fundið fyrir einkennum [...]. Þá hafi hún leitað til læknis vegna [...] . Af hálfu kæranda er því haldið fram að kærandi sé ekki í neinu ástandi til þess að þola endursendingu til Svíþjóðar og halda uppi umsókn sinni þar í landi. Kærandi telji ljóst að sérstakar ástæður mæli óumdeilanlega með því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar hér á landi í ljósi andlegs og líkamlegs ástands kæranda.

Þann 5. október sl. lagði kærandi fram frekari viðbótarathugasemdir ásamt gögnum frá Svíþjóð um málsmeðferð í málum mæðgnanna þar í landi. Í viðbótarathugasemdum kæranda kemur fram að grundvöllur synjunar máls þeirra í Svíþjóð sé m.a. sá að kærendur eigi fjölskyldunet í [...] sem þær geti leitað til varðandi vernd í stöðu sinni sem einstæðar konur þar í landi. Sú fullyrðing sé ekki studd neinum frekari rökum eða tilvísunum og verði að telja hana algjörlega úr lausi lofti gripna í ljósi framburða mæðgnanna. Eftir sem áður sé því byggt á því að mistök hafi átt sér stað við vinnslu máls mæðgnanna í Svíþjóð.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka ekki umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar og vísa henni til Svíþjóðar.

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má heldur ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu getur sú staða komið upp að óheimilt sé að endursenda hælisleitendur til einstakra ríkja vegna ástands í viðkomandi móttökuríki. Aðildarríki mannréttindasáttmálans verða að vera meðvituð um alvarlega galla sem kunna að vera á meðferð hælisumsókna eða móttöku hælisleitenda í því aðildarríki sem endursenda skal til á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Verður því að skoða aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð í Svíþjóð.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir skýrslur og gögn um aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð, sbr. m.a.

  • Asylum Information Database, Country Report: Sweden (European Council on Refugees and Exiles, desember 2015);

  • Sweden 2015 Human Rights Report (United States Department of State, 13. apríl 2016);

  • Observations by the United Nations High Commissioner for Refugees Regional Representation for Northern Europe on the draft law proposal on restrictions of the possibility to obtain a residence permit in Sweden ("Begränsningar av möjligheten att få uppehållstillstånd i Sverige – utkast till lagrådsremiss") (UN High Commissioner for Refugees, 10. mars 2016);

  • Amnesty International Report 2015/16 - Sweden (Amnesty International, 24. febrúar 2016);

  • Falling through the Cracks: Refugee women and girls in Germany and Sweden (Women‘s Refugee Commission, mars 2016);

  • dóm Mannréttindadómstóls Evrópu F.G. gegn Svíþjóð (mál nr. 43611/11) frá 23. mars 2016 og

  • dóm Mannréttindadómstóls Evrópu J.K. gegn Svíþjóð (mál nr. 59166/12) frá 23. ágúst 2016.

Þá hefur kærunefnd yfirfarið upplýsingar og tölfræði af vefsíðu sænsku Útlendingastofnunarinnar (www.migrationsverket.se).

Athugun kærunefndar á aðstæðum hælisleitenda í Svíþjóð hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði hælisleitenda þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda til Svíþjóðar brjóti í bága við 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði hún send þangað.

Í ofangreindum gögnum um aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð kemur fram að umsækjendur um hæli í Svíþjóð sem fengið hafa endanlega synjun á hælismáli sínu hjá sænsku útlendingastofnuninni (s. Migrationsverket) og dómstólum í þessum málaflokki eiga þess kost að leggja fram viðbótarumsókn (e. subsequent application) hjá sænsku útlendingastofnuninni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ef nýjar upplýsingar eða ný gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafi breyst verulega eða verulegir annmarkar hafi verið á fyrri málsmeðferð geta skilyrði fyrir viðbótarumsókn verið uppfyllt. Synjun sænsku útlendingastofnunarinnar um að taka viðbótarumsókn til skoðunar má bera undir stjórnsýsludómstól (s. Migrationsdomstolen) og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (s. Migrationsöverdomstolen). Þá eiga hælisleitendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á hæli og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Hælisleitendur eiga ekki rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds við að leggja fram viðbótarumsókn en geta hins vegar átt rétt á lögfræðiþjónustu ef sænska útlendingastofnunin samþykkir að taka viðbótarumsóknina til skoðunar. Þá geta hælisleitendur einnig leitað til frjálsra félagasamtaka eins og ráðgjafarmiðstöðvar fyrir hælisleitendur og flóttamenn (s. Rådgivningsbyrån) en þau veita lögfræðiaðstoð og ráðgjöf. Frí túlkaþjónusta er ekki í boði við framangreinda málsmeðferð en hælisleitendur geta leitað til frjálsra félagasamtaka eftir aðstoð.

Ekkert bendir til þess að umsóknum [...] hælisleitenda í Svíþjóð sé synjað sjálfkrafa eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Svíþjóð bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu hælisleitenda til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að 45. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar í þessu máli.

Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga skal taka umsókn um hæli til efnismeðferðar hafi útlendingurinn slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því.

Kærandi hefur við málsmeðferð hjá kærunefnd útlendingamála skilað inn margvíslegum gögnum er varða heilsufar hennar. Þar á meðal eru þrjú læknisvottorð frá Svíþjóð, dags. 7. og 8. apríl 2014 og 3. júlí 2015, en umrædd læknisvottorð eru dagsett eftir að niðurstaða áfrýjunardómstóls (s. Migrationsöverdomstolen) í máli kæranda lá fyrir. Sænsku læknisvottorðin staðfesta að kærandi hefur verið greind með [...]. Fram kemur að um sé að ræða konu sem þurfi [...]. Hún sé ekki fær um [...]. Fram kemur að kærandi [...]. Frá því að kærandi kom hingað til lands í ágúst 2015 hefur hún margoft leitað sér læknisaðstoðar. Samkvæmt greiningum íslenskra lækna þjáist kærandi m.a. af [...]. Þá var kærandi greind með [...] , sbr. sálfræðiskýrsla [...], dags. 30. maí 2016. Þann 23. ágúst 2016 bárust kærunefnd viðbótargögn í máli kæranda, þar á meðal læknisvottorð [...], dags. 25. júlí 2016 þar sem hún metur kæranda með [...]. Þá telur læknirinn að kærandi sé komin með ýmis [...]. Kærandi kveðst vera ólæs og óskrifandi.

Kærunefnd útlendingamála sendi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fyrirspurn varðandi mál kæranda og dóttur hennar, sbr. 4. mgr. 50. gr. laga um útlendinga, þann 26. september 2016. Í svari Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, dags. 4. nóvember 2016, kemur fram að stofnunin hafi farið yfir gögn kæranda og dóttur hennar er lúta að meðferð mála þeirra í Svíþjóð og læknisfræðileg gögn um kæranda frá Íslandi. Flóttamannastofnun bendir á að við úrlausn hælisumsóknar kæranda hafi sænsk stjórnvöld ekki fjallað um heilbrigðisástand hennar. Umsókn mæðgnanna um hæli í Svíþjóð hafi að hluta til verið synjað á grundvelli niðurstöðu trúverðugleikamats og það sé mat stofnunarinnar að mál kæranda og dóttur hennar gæti haft hag af því að fá endurmat með tilliti til heilsufars kæranda, þ.e. [...], og með vísan til skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um trúverðugleikamat (e. Beyond Proof, Credibility Assessment in EU Asylum Systems: Full Report, maí 2013). Í svari Flóttamannastofnunar kemur jafnframt fram að ef málinu yrði vísað aftur til Svíþjóðar myndi heilsufar kæranda geta orðið til þess að málið yrði endurupptekið en það sé ekki tryggt. Ef til endurupptöku kæmi, myndu mæðgurnar standa frammi fyrir langri málsmeðferð þar sem óvíst væri hver niðurstaðan yrði. Í ljósi framangreinds væri það mat Flóttamannastofnunar að tilefni gæti verið til að taka mál kæranda til efnismeðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum á grundvelli 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Fyrir liggur að frá því að áfrýjunardómstóll (s. Migrationsöverdomstolen) komst að niðurstöðu í máli kæranda hafa umfangsmikil gögn um heilsufar hennar orðið til. Kærunefnd telur að gögnin gefi tilefni til þess að tekið sé til sérstakrar skoðunar hvort rétt sé að endurskoða efnislegt mat á hælisumsókn hennar þar sem tekið sé viðhlítandi tillit til heilsufars kæranda og áhrif þess á trúverðugleikamat frásagnar hennar. Eins og að framan greinir eiga hælisleitendur sem hafa fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Svíþjóð þess almennt kost að leggja fram viðbótarumsókn um hæli hjá sænsku útlendingastofnuninni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þ.m.t. ef nýjar upplýsingar liggja fyrir eða ef aðstæður hafa breyst verulega. Samkvæmt framangreindu svari frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gæti heilbrigðisástand kæranda leitt til þess að mál hennar yrði endurupptekið þar í landi en það er jafnframt mat stofnunarinnar að það sé ekki tryggt. Yrði málið endurupptekið þar í landi myndu kærandi og dóttir hennar standa frammi fyrir langri málsmeðferð auk óvissu um niðurstöðu í máli sínu. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur undir höndum dregur nefndin þá ályktun að heilsufar kæranda sé með þeim hætti að hún þurfi [...], en fyrir liggja greiningar frá læknum um að hún þjáist m.a. af [...]. Þar sem hælisleitendur í Svíþjóð njóta ekki ókeypis lögfræðiaðstoðar við að leggja fram viðbótarumsókn jafnframt sem aðstoð ókeypis túlks stendur ekki til boða þar í landi við slíka málsmeðferð yrði kærandi fyrst í stað að reka mál sitt sjálf, ásamt dóttur sinni, fyrir sænsku Útlendingastofnuninni. Líkur eru á því að kærandi muni eiga í verulegum erfiðleikum með slíkan málsrekstur í ljósi versnandi heilsufars hennar og viðkvæmrar stöðu almennt.

Í ljósi alls framangreinds og sérstaklega með vísan til bréfs Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að kærandi hafi þann kost að leggja fram viðbótarumsókn um hæli í Svíþjóð séu einstaklingsbundnar aðstæður hennar svo sérstakar að í þessu tilviki sé rétt að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

Að öllu ofangreindu virtu er það því mat kærunefndar að þrátt fyrir að staðfesting sænskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og hælisumsókn hennar liggi fyrir þá beri eins og hér háttar sérstaklega til að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð hælisumsóknar kæranda yfir á íslensk stjórnvöld, sbr. 1. mgr. 17. gr. Dyflinarreglugerðarinnar, enda séu fyrir hendi sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á sérstökum aðstæðum kæranda.

Í niðurstöðum ákvörðunar Útlendingastofnunar er tekið fram að Útlendingastofnun hafi óskað eftir sálfræðimati fyrir kæranda og dóttur hennar. Af gögnum málsins verður ekki séð að beðið hafi verið eftir niðurstöðum sálfræðimatsins og þá er hvergi í hinni kærðu ákvörðun útskýrt af hverju stofnunin taldi ekki þörf á að bíða eftir niðurstöðu sálfræðimatsins áður en ákvörðunin var tekin. Kærunefnd telur að Útlendingastofnun hafi átt að bíða eftir niðurstöðu þess sálfræðimats sem stofnunin óskaði eftir áður en ákvörðun var tekin í máli þeirra. Í ljósi ofangreindrar niðurstöðu kærunefndar telur kærunefnd þann ágalla á málsmeðferð Útlendingastofnunar ekki hafa áhrif í máli þessu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um hæli til efnislegrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum