Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 339/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 339/2020

Fimmtudaginn 19. nóvember 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. júlí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni hennar um greiðslu atvinnuleysisbóta frá 15. mars 2020 og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 15. apríl 2020. Með ákvörðun, dags. 9. júní 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 59%. Með erindi 22. júní 2020 óskaði kærandi eftir greiðslum atvinnuleysisbóta frá 15. mars 2020 vegna rekstrarstöðvunar þann dag. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. júlí 2020, var beiðni kæranda synjað með vísan til 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. júní 2020, var kæranda tilkynnt að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 21.556 kr., án álags.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. júlí 2020. Með bréfi, dags. 9. júlí 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 30. september 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. október 2020, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur frá 15. mars 2020. Hún hafi fengið 9% bætur frá 15. apríl 2020. Daginn sem umsóknin hafi farið inn hafi komið fram á vef Vinnumálastofnunar að bætur yrðu afturvirkar til 15. mars 2020. Kærandi óski eftir því að skuld hennar við Vinnumálastofnun þurrkist út og að bætur verði miðaðar frá 15. mars 2020 þegar henni hafi verið bannað að fara í vinnu vegna Covid.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til 1. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem fram komi að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Þá segi í 1. mgr. 29. gr. laganna að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 komi fram að miðað sé við að tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur. Samkvæmt umsóknarkerfi stofnunarinnar og samskiptasögu kæranda hafi hún fyrst skilað umsókn sinni um atvinnuleysisbætur þann 15. apríl og jafnframt óskað þar eftir greiðslum frá og með þeim degi.

Vinnumálastofnun bendir á að það sé grundvallarskilyrði fyrir því að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga að hinn tryggði sæki um slíkt til stofnunarinnar. Stofnunin telji sér ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur aftur fyrir umsókn atvinnuleitanda um atvinnuleysisbætur. Ljóst sé af gögnum málsins að kærandi hafi fyrst lokið umsókn um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 15. apríl 2020. Stofnunin hafi því ekki getað vitað að hún væri án atvinnu fyrr en á þeim tíma sem umsókn hafi borist. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006.

Í kæru til nefndarinnar vísi kærandi til þess að stofnunin hafi tilkynnt um að greiðslur bóta yrðu afturvirkar til 15. mars 2020. Sú tilkynning eigi ekki við í tilviki kæranda. Vinnumálastofnun hafi í lok mars tekið ákvörðun um að umsóknir sem hafi borist á tímabilinu 15. mars til 1. apríl á grundvelli bráðabirgðaákvæða XIII. og XIV. laga um atvinnuleysistryggingar skyldu miðast við 15. mars, í samræmi við upphafsdag þeirra ákvæða. Í ljósi sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði hafi verið lagt til í frumvarpi því er varð að lögum nr. 23/2020 að gildistími yrði aftur fyrir dagsetningu lagasetningar. Sérstaklega hafi verið tilgreint í bráðabirgðaákvæðinu að það ætti við um greiðslur til launamanna sem hafi tekið á sig kjaraskerðingu í formi minnkaðs starfshlutfalls frá og með 15. mars 2020 vegna samdráttar í rekstri vinnuveitanda. Lögin hafi verið samþykkt á Alþingi 20. mars 2020. Sú heimild hafi þó einungis átt við um umsóknir á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VIII. með lögum um atvinnuleysistryggingar en ekki almennar umsóknir. Þar sem kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 15. apríl 2020 skuli greiðslur því miðast við þá dagsetningu, enda hafi kærandi ekki sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Kærandi hafi starfað í hlutastarfi samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Tekjuáætlun kæranda hafi verið skilað 28. maí 2020 og hún hafi numið 257.500 kr. á mánuði. Ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun af hálfu kæranda vegna aprílmánaðar. Þær upplýsingar sem kærandi hafi veitt stofnuninni um tekjur af hlutastarfi sínu hafi verið lagðar til grundvallar greiðslum til hennar. Rauntekjur kæranda vegna hlutastarfs hennar hafi hins vegar reynst hærri en tekjuáætlun og það hafi leitt til ofgreiðslu atvinnuleysisbóta í greiðslu til kæranda þann 10. júní. Tekjur kæranda af hlutastarfi hennar hafi verið 370.280 kr. fyrir aprílmánuð og 298.118 kr. fyrir maímánuð. Meginregluna um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna sé að finna í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í samræmi við ákvæðið séu atvinnuleysistryggingar einstaklinga í hlutastörfum skertar með þeim hætti að fyrst sé starfshlutfall viðkomandi dregið frá bótarétti hans. Atvinnuleitandi með 100% bótarétt í 40% hlutastarfi fái því aðeins greitt 60% af þeim bótum sem hann eigi rétt til, sbr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í tilviki kæranda leiði það til þess að hún eigi eingöngu rétt til 9% greiðslu af þeim bótum sem hún eigi rétt á, auk hlutfallslegrar tekjutengingar. Skerðing vegna tekna sé framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt á. Helmingur þeirrar upphæðar sem nái umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndi skerðingu atvinnuleitanda.

Fjárhæð skuldar kæranda nemi nú samtals 21.556 kr. sem kæranda beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem hafi verið ofgreiddar. Það hafi verið mat stofnunarinnar að ekki skyldi innheimta álag vegna ofgreiðslna til kæranda. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga frá 15. apríl og að henni beri enn fremur að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. 

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar annars vegar ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta afturvirkt frá 15. mars 2020 og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Í 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

„Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur.

Ljóst er að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með umsókn, dags. 15. apríl 2020. Kærandi á því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006, þrátt fyrir að hafa verið atvinnulaus frá 15. mars 2020. Ákvæði 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laganna eru fortakslaus að þessu leyti.

Verður þá vikið að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Kærandi starfaði í hlutastarfi samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta en rauntekjur hennar voru hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Það leiddi til þess að kærandi fékk hærri atvinnuleysisbætur en hún átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta afturvirkt frá 15. mars 2020 og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni A, um greiðslu atvinnuleysisbóta frá 15. mars 2020 og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                                Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum