Hoppa yfir valmynd
10. september 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 10. september 2021

Heil og sæl.

Við byrjum þessa yfirferð á níundu skýrslunni sem kemur út á vegum utanríkisráðuneytisins á þessu ári. Í þetta sinn voru tvíhliða samskipti Færeyja og Íslands kortlögð. Í skýrslunni er að finna fjölmargar tillögur um áþreifanlegar aðgerðir eða verkefni til að efla enn frekar tengsl þjóðanna, til dæmis á sviði viðskipta, heilbrigðismála og menntamála.



„Markmið okkar er að hrinda þessum tillögum í framkvæmd á næstu árum og renna þannig sterkari stoðum undir samband þjóðanna og á sama tíma skapa forsendur fyrir nýjum og spennandi tækifærum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um skýrsluna í innslagi í tengslum við útgáfuna.

Ráðherra hóf vikuna á fjarfundi með norrænum kollegum sínum þar sem framkvæmd tillagna Björns Bjarnasonar um eflingu norræns utanríkismálasamstarfs, ástandið í Afganistan og samstarf á vettvangi alþjóðastofnana voru efst á baugi. 

Guðlaugur Þór lagði í máli sínu áherslu á eftirfylgni við skýrslu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra, um þróun samstarfs Norðurlandanna á sviði utanríkis- og öryggismála. „Við höfum nú í sameiningu skilgreint og forgangsraðað málum sem við erum sammála um að vinna að með virkum hætti. Nú þurfum við að bretta upp ermar og stíga næstu skref í framkvæmd þessara tillagna,“ sagði Guðlaugur Þór

Ráðherra lauk svo vikunni á því að heimsækja öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli.

Ráðherra stakk einnig niður penna í vikunni í tilefni af því að þrjú ár eru liðin frá því að Samstarfssjóður við atvinnulífið um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna var settur á fót en nú í vikunni auglýsti sjóðurinn eftir umsóknum í sjötta sinn.

„Ég hvet íslensk fyrirtæki til að afla sér upplýsinga hjá Heimstorgi Íslandsstofu, upplýsinga- og samskiptagátt fyrirtækja sem horfa til sóknar á nýjum og spennandi mörkuðum. Ávinningur allra af slíku samstarfi er ótvíræður,“ sagði Guðlaugur Þór.

Á þriðjudag birti ráðuneytið frétt um mælaborð sem á myndrænan hátt gerir grein fyrir stöðu Íslands gagnvart öllum 169 undirmarkmiðum heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Staðan byggir á mati sérfræðinga í ráðuneytunum og stöðu Íslands gagnvart þeim mælikvörðum sem fylgja undirmarkmiðunum og Hagstofa Íslands heldur utan um. Tilgangur mælaborðsins er að veita yfirsýn yfir yfirgripsmikla vinnu stjórnvalda að framgangi heimsmarkmiðanna. 

Nóg var um að vera hjá sendiskrifstofum okkar í vikunni.

Á Indlandi flutti Guðni Bragason sendiherra ávarp á samkomu í Nýju-Delí sem haldin var á vegum Oorja-stofnunarinnar, en frumkvöðull hennar er Deepti Rawat Bhardwaj, fyrrverandi aðstoðarráðherra fyrir menntamál og formaður í kvenna- og jafnréttisstarfi stjórnarflokksins (BJP). 



Í Genf eru nú til sýnis verk tveggja íslenskra listakvenna á Rath-listasafninu. „Óþekkti pólitíski fanginn“ eftir Gerði Helgadóttur sem er í eigu Sameinuðu þjóðanna er til sýnis auk tveggja ljósmynda Kristínar Bogadóttur sem er hluti af innsetningunni .



María Erla Marelsdóttir sendiherra Íslands í Þýskalandi afhenti trúnaðarbréf sitt sem sendiherra gagnvart Serbíu með aðsetur í Þýskalandi.

Sendiskrifstofa okkar í Malaví sagði frá verkefnum UN Women í Malaví sem eru fjármögnuð af Íslandi.


Í Stokkhólmi átti Hannes Heimisson sendiherra fund með Maria Söderberg, formanni stjórnar Torsten Söderbergs Stiftelse. Sjóðurinn hefur undanfarin ár veitt styrki til margvíslegra menningarmála og þar á meðal til fjölmargra íslensk-sænskra menningarverkefna. Nú síðast styrkti sjóðurinn útgáfu á Sturlungu í sænskri þýðingu sem kemur út í Svíþjóð á vegum bókaforlagsins Anthropos síðar á þessu ári. 

Þórir Ibsen hefur hafið störf sem sendiherra Íslands í Kína.


Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra Íslands í Tókýó þakkaði Japönum fyrir að hafa staðið vel að Ólympíumóti fatlaðra sem haldið var í Tókýó.


Okkar fólk í Bandaríkjunum tók svo vel á móti nýjum fulltrúa Bandaríkjanna í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins.


Í New York hitar fólk upp fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem hefst 14. september næstkomandi.



Auðunn Atlason sendiherra í Finnlandi fundaði með varnarmálaráðherra Finnlands.


Unnur Orradóttir sendiherra Íslands í París smakkaði svo íslenskan fisk þar í borg!

 

Við segjum þetta gott í bili. Njótið helgarinnar! 

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum