Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2025 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 17/2023-Úrskurður

Mál nr. 17/2023

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B

 

Ráðning í starf. Stofnun sveitarfélaga. Mismunun á grundvelli kyns. Bann við órétti. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun B um að ráða konu án auglýsingar í starf hjúkrunardeildarstjóra. Undir rekstri málsins byggði kærandi á því að hann hefði verið beittur órétti fyrir að hafa lagt fram kæru til kærunefndar jafnréttismála. Að mati kærunefndar hafði hvorki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið né að hann hefði verið beittur órétti fyrir að kæra ráðninguna. Var því ekki fallist á að B hefði gerst brotlegt við lög nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 27. febrúar 2025 er tekið fyrir mál nr. 17/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

2. Með kæru sem barst 15. nóvember 2023 kærði A ákvörðun B um að ráða konu í starf hjúkrunardeildarstjóra án auglýsingar. Kærandi telur að kærði hafi með ráðningunni brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Í athugasemdum undir rekstri málsins byggði kærandi jafnframt á því að kærði hefði beitt hann órétti vegna þess að hann hefði lagt fram kæru í málinu í andstöðu við lög nr. 150/2020.

3. Kæran ásamt fylgigögnum var send kærða með bréfi, dags. 17. nóvember 2023, þar sem óskað var eftir afstöðu hans til kærunnar. Greinargerð kærða, dags. 11. desember s.á., var send kæranda til athugasemda. Kærunefndinni bárust athugasemdir kæranda 8. janúar 2024. Viðbótarathugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 31. janúar 2024. Kærandi gerði frekari athugasemdir með bréfi, dags. 10. febrúar 2024. Kærði upplýsti hinn 8. mars 2024 í tilefni athugasemda kæranda að þótt full ástæða væri til þess að gera frekari athugasemdir þjónaði það ekki tilgangi þar sem kærandi væri að mati kærða kominn langt út fyrir efni kæru.

MÁLAVEXTIR

 

4. Í júní 2022 auglýsti kærði lausa stöðu hjúkrunardeildarstjóra í 90% starfshlutfalli. Kærði lýsir því svo að auglýsingin hafi varðað tvær lausar stöður deildarstjóra, aðra á deildinni […] og hina á deildinni […]. Í auglýsingu voru hæfniskröfur tilgreindar íslenskt hjúkrunarleyfi, góð íslenskukunnátta, a.m.k. fimm ára starfsreynsla í hjúkrun, góð leiðtoga­hæfni, áhugi á þjónustu við aldraða og geta til að takast á við krefjandi verkefni. Lögð var áhersla á faglegan metnað, frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð. Reynsla og/eða menntun á sviði stjórnunar og framhaldsmenntun á sviði hjúkrunar var æskileg.

5. Fjöldi umsókna barst en kærandi var ekki meðal umsækjenda. Kærði lýsir því að einungis þrír einstaklingar hafi verið taldir uppfylla hæfniskröfur, en einn þeirra hafi dregið umsókn sína til baka, þannig að eftir stóðu tveir. Að loknu ráðningarferli var einn þeirra ráðinn í stöðu deildarstjóra á […]. Á […] samdist hins vegar um milli kærða og starfandi deildarstjóra að hún myndi gegna stöðunni tímabundið eitthvað áfram. Í janúar 2023 réð kærði deildarstjóra tímabundið til eins árs á […]. Kærði kveður ástæður þess að starfið hafi ekki verið auglýst hafa verið reynslu sína af ráðningarferli sumarið 2022.

6. Kærði lýsir því svo að á árinu 2023 hafi verið ræddar hugmyndir um að skipta […] í tvær deildir. Mun kærði hafa ákveðið áður en af því varð að prófa sem verkefni að ráða annan hjúkrunardeildarstjóra á deildina til reynslu í eitt ár. Kærði auglýsti ekki starfið laust til umsóknar en leitaði þess í stað að starfskrafti sem uppfyllti skilyrði fyrrnefndrar auglýsing­ar um deildarstjóra frá júní 2022.

7. Kærði leitaði til konu sem er hjúkrunarfræðingur um að taka að sér starf deildarstjórans. Með ráðningarsamningi, dags. 12. október 2023, var konan ráðin tímabundið til eins árs í starfið.

 

 

SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 

8. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu í starf hjúkrunardeildarstjóra í október 2023 án auglýsingar, og að hann telji líkur á að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna. Kærandi byggir á því að kærði hafi hvorki sýnt fram á né lagt fram gögn sem gefi til kynna að jöfn tækifæri hafi legið að baki ákvörðun um ráðningu deildarstjóra.

9. Kærandi bendir á að ráðningin hafi falið í sér fjórðu ráðningu deildarstjóra af hálfu kærða án formlegrar tilkynningar eða auglýsingar. Kærandi telur möguleika á því að jafnréttislög hafi verið brotin í ljósi þess að ekki hafi verið hugað að jöfnun kynja í stjórnunarstöðum hjá kærða. Starfandi hafi verið fjórir hjúkrunarfræðingar í stjórnunarstöðum hjá kærða sem allar séu konur. Með konunni sem var ráðin hafi konur í stjórnunarstöðum hjá kærða orðið fimm talsins. Kærandi hafi verið eini karlkyns hjúkrunarfræðingurinn hjá kærða sem hefði átt að sjá tækifæri í að bjóða honum stöðu hjúkrunardeildarstjóra.

10. Kærandi bendir á að staðan hafi ekki verið auglýst og kærði hafi ekki haft fyrir því að bjóða starfandi hjúkrunarfræðingum hjá kærða stöðuna. Kærandi telur að við ráðninguna hafi kærði upphaflega auglýst eftir almennum hjúkrunarfræðingi en hann hafi breytt stöðunni eftir á í stöðu deildarstjóra. Kærandi bendir til stuðnings því til vaktaskrár fyrir október og nóvember 2023 þar sem konan sem var ráðin var titluð hjúkrunarfræðingur en ekki deildarstjóri.

11. Kærandi byggir á því að hann hafi verið vel hæfur til að gegna stöðunni. Hann hafi leyst af deildarstjóra í orlofi og fengið greidd laun sem staðgengill samkvæmt ákvæðum kjara­samnings. Kærandi bendir á að hann hafi fjórum árum áður sótt um starf deildarstjóra á […] en ekki fengið. Kærandi hafi hins vegar ekki sótt um auglýsta stöðu deildarstjóra á […] sumarið 2022 sökum samstarfserfiðleika við stjórnanda annarrar deildar kærða sem hann hefði þurft að eiga í samskiptum við. Kærandi hafi áður kvartað yfir því að sá deildar­stjóri hefði lagt sig í einelti og sagði kærandi að leitað hefði verið til stéttarfélags til þess að leysa úr því. Ekki hefði farið fram formlegt ferli af hálfu kærða vegna kvörtunarinnar eins og hefði átt að gera samkvæmt starfsmannastefnu kærða. Framkoma viðkomandi deildar­stjóra hafi hins vegar breyst að vissu leyti þar á eftir. Kærandi vísar til skriflegrar staðfesting­ar fyrrverandi hjúkrunarforstjóra kærða um að deildarstjórinn hafi frá upphafi sýnt það og talað um að henni finnist karlmenn ekki eiga að vera í hjúkrun. Deildarstjórinn hafi reynt að tala niður störf kæranda þannig að starfsfólk hafi tekið eftir því og fundist ómaklega að honum vegið. Fyrrverandi hjúkrunarforstjóri hafi látið framkvæmdastjóra kærða vita af þessu sem skilgreiningu á einelti samkvæmt mannauðsstefnu kærða en hann hafi ekki viljað aðhafast neitt í málinu.

12. Kærandi telur sig hafa uppfyllt öll hæfnisskilyrði fyrir því að vera ráðinn í tímabundna stöðu deildarstjóra. Kærandi bendir á að þótt konan sem hafi verið ráðin hafi verið með lengri starfsreynslu sé starfsreynsla hans hins vegar öll við öldrunarhjúkrun hjá kærða. Starfs­reynsla konunnar hafi öll verið á sjúkrahúsi og enda þótt sú reynsla sé góð byggir kærandi á því að hún sé einfaldlega ekki sú sama og á heimili fyrir aldraða. Kærandi vísar til þess að samkvæmt hæfniskröfum kærða hafi framhaldsmenntun verið æskileg en ekki skilyrði. Kærandi hafi haft hug á því að bæta við sig viðbótarmenntun.

13. Kærandi byggir á því að sökum vaktabyrði sem kærði hafi lagt á hann hafi hann ekki séð sér fært að sinna endurmenntun sem skyldi. Kærandi bendir á að af upplýsingum kærða um endurmenntun konunnar sem var ráðin megi sjá að þau hafi lokið sama endurmenntun­ar­námskeiði í sérhæfðri endurlífgun. Kærandi hafi lokið námskeiðinu árið 2016. Hins vegar hafi kærandi aldrei þurft í starfi sínu hjá kærða að beita sérhæfðri endurlífgun.

14. Kærandi bendir á að hann hafi átt í farsælu og góðu samstarfi við samstarfsfólk hjá kærða. Kærandi telji sig hafa verið mjög vel liðinn hjá aðstandendum, skjólstæðingum og sam­starfsfólki. Hann hafi oft notið mikils stuðnings hjá samstarfsfólki og verið spurður hvort hann vildi ekki verða deildarstjóri. Kærandi hafnar staðhæfingum kærða um skort á samstarfs- og samskiptahæfileikum sem rangfærslum. Kærandi vísar hér til umsagna samstarfsfólks síns sem hann leggur fram og sérstaklega til umsagnar fyrrverandi hjúkrunarforstjóra kærða um hæfni og samstarfshæfileika sína.

15. Kærandi telur viðbrögð stjórnenda kærða í svörum vegna málsins lýsandi fyrir samskipta­hæfni þeirra. Kærandi byggir á því að kærði hafi brugðist við kæru hans með dylgjum, rang­færslum og meiðandi hætti vegna þeirrar ákvörðunar hans að kæra málið. Kærandi bendir á að tilgangur hans með kærunni hafi ekki verið sá að munnhöggvast við framkvæmdastjóra kærða. Kærandi telur sig hafa verið sniðgenginn og að trúnaðarbrestur hafi orðið vegna ákvörðunar kærða um að ráða konuna án auglýsingar. Hann hafi því sagt starfi sínu lausu hjá kærða. Kærandi tekur þó fram að hann hafi fengið mjög góð meðmæli frá hjúkrunar­forstjóra kærða sem sé annar þeirra sem skrifi undir greinargerð kærða í málinu.

16. Kærandi bendir á að hann hafi ekki átt í miklum daglegum samskiptum við stjórnendur kærða. Hann hafi hins vegar bent á hluti sem hann hafi ekki verið sáttur með vegna hags­muna skjólstæðinga en samkvæmt siðareglum hjúkrunarfræðinga sé eitt af hlutverkum þeirra að vera málsvarar skjólstæðinga varðandi aðbúnað þeirra, þ.m.t. staðsetningarbúnað fyrir heilabilaða sem kærandi taldi óviðeigandi og niðurlægjandi. Kærandi hafnar lýsingum kærða á samskiptum vegna umsóknar um viðbótarlaun. Bendir hann á að umsókn hans um viðbótarlaun hafi verið málefnaleg tilraun hans til að nýta sér kjarasamningsbundinn rétt sem átti að nýtast öllum starfandi hjúkrunarfræðingum hjá kærða.

17. Kærandi hafnar því að hann hafi ekki mætt til starfa eftir að hann sagði upp starfi sínu. Hann hafi verið með læknisvottorð vegna veikinda. Kærandi hafi upprunalega gengið út frá því að fara í ársleyfi frá störfum en eftir að hafa íhugað málið vegna breytinga á viðmóti stjórnenda eftir að hann lagði fram kæru hafi hann ákveðið að segja upp starfi sínu. Kærandi hafi upp­lifað það þannig að hann hafi verið tilneyddur að fara þá leið. Hann hafi upplifað að sér hafi verið refsað fyrir að hafa farið fram með kæru í máli þessu. Þannig hafi hann verið útilokaður frá Facebook-hópi starfsmanna kærða hálfum mánuði áður en starfstíma hans lauk. Kærandi bendir á að hann skilji lögin þannig að það sé einnig brot í vissum skilningi.

SJÓNARMIÐ KÆRÐA

18. Kærði telur að ekki hafi verið leiddar að því líkur að kæranda hafi verið mismunað á grund­velli kyns eða annarra þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu í starf hjúkrunardeildarstjóra. Kærði byggir á því að ráðning í stöðuna hafi byggt á málefnalegum sjónarmiðum og að konan sem ráðin hafi verið í starfið hafi verið hæfari en kærandi til að sinna því. Með vísan til þess telur kærði að hann hafi ekki brotið gegn lögum nr. 150/2020 og þá komi forgangsregla um kynjahlutföll einungis til skoðunar ef aðilar að starfi eru metnir jafnhæfir.

19. Kærði bendir á að ráðið hafi verið í starf deildarstjóra sem málið lýtur að til reynslu til eins árs. Grundvöllur þess hafi verið þær hugmyndir að skipta viðkomandi deild í tvær deildir sökum fjölda íbúa og álags. Ákveðið hafi verið að breyta skipulagi til reynslu til eins árs með því að ráða tvo deildarstjóra á sömu deild sem sinntu helmingi deildarinnar hvor. Þá hefðu þeir jafnvel sinnt hluta af verkefnum hjúkrunarforstjóra kærða. Í ljósi reynslu af ráðningarferli samkvæmt auglýsingu árið 2022 sem skilaði ekki fullnægjandi árangri hefði kærði hafið leit að hjúkrunarfræðingi sem uppfyllti sömu hæfnisskilyrði og sett voru fram í auglýsingu um hjúkrunardeildarstjóra hjá kærða án þess að auglýsa starfið. Um hafi verið að ræða óhefð­bundið ferli til þess að leita að hæfum einstaklingi í starfið. Kærði vekur athygli á því að kærandi hafi hvorki sótt um lausar stöður deildarstjóra sumarið 2022 né hafi hann aflað sér upplýsinga um starfið hjá hjúkrunarforstjóra kærða. Kærði bendir á að sumarið 2022 hafi hann ekki auglýst eina stöðu deildarstjóra, eins og kærandi byggi á, heldur tvær stöður.

20. Kærði rekur að leit hans hafi loks skilað árangri á haustmánuðum 2023 þegar kona var ráðin í tímabundna stöðu deildarstjóra. Kærði segir kæranda fara með rangt mál þar sem hann staðhæfi að konan hafi verið ráðin eftir auglýsingu eftir almennum hjúkrunarfræðingi. Hún hafi aldrei sótt um starf hjúkrunarfræðings hjá kærða sem auglýst hafi verið laust til umsóknar.

21. Kærði bendir á að samkvæmt gr. 11.1.2.1. í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitar­félaga og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga beri kærða ekki fortakslaust að auglýsa laus störf til umsóknar og þá sérstaklega þegar um skipulagsbreytingar sé um að ræða.

22. Kærði byggir á því að konan sem ráðin var í tímabundna stöðu deildarstjóra hafi uppfyllt allar þær hæfniskröfur sem kærði hafi lagt til grundvallar. Hafi þær hæfniskröfur verið þær sömu og þegar hann hafi auglýst laus störf deildarstjóra til umsóknar árin 2017, 2019 og 2022. Konan sem var ráðin tímabundið í starf deildarstjóra hafi haft rúmlega 17 ára starfsreynslu sem hjúkrunarfræðingur á lyflækningadeild […]. Meginþorri sjúklinga sem leggist þar inn sé aldraðir einstaklingar og stór hluti nýrra íbúa á […] komi frá […]. Í störfum sínum þar hafi henni farnast vel og átt farsælt samstarf við samstarfsfólk, sjúklinga og aðstandendur. Konan hafi haft mikla reynslu af hjúkrun, þ.m.t. flókinni fjöl­skylduhjúkrun. Að mati kærða hafi hún haft til að bera framúrskarandi samskipta- og sam­starfshæfileika. Hún hafi sinnt virkri endurmenntun og hafi skráð sig í nám í stjórnun á háskólastigi með áherslu á mannauðsstjórnun. Þá hafi umsagnaraðilar konunnar gefið henni góðar umsagnir.

23. Kærði bendir á að kærandi hafi starfað sem almennur hjúkrunarfræðingur hjá kærða í rúm­lega sex ár frá útskrift. Kærandi hafi ekki skilað til kærða staðfestingu á endurmenntun þann tíma sem hann hafi starfað hjá kærða. Að mati kærða hafi konan haft mikla reynslu af hjúkrun aldraðra og dýpri þekkingu en kærandi. Þá hafi hún haft til að bera mun betri samskipta- og samstarfshæfileika en kærandi. Kærði bendir hér á að reynsla stjórnenda af kæranda hafi verið sú að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði um framúrskarandi samskipta- og samstarfshæfileika. Kærði bendir m.a. í þessu sambandi á að kærandi hafi áður tekið ákaflega illa fyrirmælum og ákvörðunum frá yfirmönnum og stjórnendum, að samskipti við kæranda hafi einkennst af einstrengingslegri afstöðu til mála og að fyrir hafi komið að hann hafi ekki farið eftir fyrirmælum yfirmanna. Þá hafi samskipti við hann ein­kennst á köflum af óraunsæi, m.a. með því að kærandi hafi gefið lítið fyrir að fara þurfi eftir samþykktum fjárhagsáætlunum. Þá hafi einstaka tilsvör kæranda í samskipt­um við starfsmenn kærða ekki verið við hæfi eða lýst góðum samskipta- og samstarfs­hæfileikum. Vísar kærandi þessu til stuðnings til samskipta við kæranda vegna umsóknar um tímabundin viðbótarlaun. Kærði hafnar því að hann hafi lagt vaktabyrði á kæranda þannig að hann hafi ekki getað sinnt endurmenntun. Þvert á móti hafi kærandi ráðið sig inn á sínum forsendum og sótt stíft eftir að vinna frekar meira en minna og þá sérstaklega á álagsvöktum. Þá hafi kærandi lítið sótt starfsmannafundi og þá fræðslu sem hafi verið í boði hjá kærða.

24. Varðandi staðhæfingar kæranda um að hann hafi verið beittur einelti í starfi bendir kærði á að málið hafi verið sett í sáttafarveg undir leiðsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga með samþykki aðila. Kærði hafnar því að þáverandi hjúkrunarforstjóri hafi upplýst framkvæmda­stjóra kærða um að hún hafi talið að kærandi hafi verið beittur einelti. Hjúkrunarforstjórinn hafi ekki verið að störfum þegar málið kom upp. Mál kæranda hafi aldrei komið á borð fram­kvæmdastjóra kærða eða nefndar um forvarnir og viðbrögð við ofbeldi sem var farvegur slíkra mála samkvæmt þágildandi eineltisstefnu kærða. Kærandi hafi í fyrrgreindu sáttaferli aldrei upplýst um eða óskað eftir því að farið yrði með málið í farveg eineltismáls. Þvert á móti hafi verið skráð hjá kærða að málið væri að leysast í sátt beggja aðila.

25. Þá hafnar kærði réttmæti umsagnar fyrrverandi hjúkrunarforstjóra kærða sem kærandi leggur fram um að deildarstjóri hafi sýnt það og talað um að karlmenn ættu ekki að vera í hjúkrun. Málið hafi snúið að stjórnun og ákvörðunum sem kærandi hafi verið ósáttur við, þ.m.t. þegar kæranda var neitað um að hafa lykil að lyfjaskáp en slíkt aðgengi hafi verið í andstöðu við vinnureglur kærða. Um órökstuddar dylgjur sé að ræða sem kærði hafnar alfarið. Kærði bendir á að fyrrverandi hjúkrunarforstjóri hafi einungis verið að störfum með kærða í tæpa tíu mánuði. Niðurlag umsagnar hennar beri þess merki með hvaða hætti starfslok hennar hafi verið hjá kærða og beri að túlka umsögnina í því ljósi með hliðsjón af því sem kærði rekur um þá erfiðleika sem hafi verið í samskiptum við kæranda á starfstíma hans hjá kærða.

26. Þá tekur kærði fram að kærandi hafi frá því að hann lagði fram kæru í málinu og fram til starfsloka hjá kærða í lok desember 2023 ekki sinnt starfi sínu sem skyldi þegar hann mætti til vinnu. Samstarfsfólk hafi kvartað yfir því að hann hafi ekki sinnt starfi sínu. Eitt sé að deila við stjórnendur en það að láta það koma niður á samstarfsfólki sé alvarlegt mál. Kærði tekur fram að kvartanir hefðu farið í farveg starfsmannamála ef ekki hefði verið svo stutt í starfslok kæranda.

 

NIÐURSTAÐA

27. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með ráðningu konu í starf hjúkrunardeildarstjóra. Í málatilbúnaði fyrir nefndinni byggir kærandi jafnframt á því að kærði hafi brotið gegn 2. mgr. 20. gr. laganna um bann við því að beita kæranda órétti á grundvelli þess að hann lagði fram kæru í máli þessu og fram til starfsloka hans í lok desember 2023. Hafi órétti falist í því að kærandi hafi upplifað að sér væri refsað vegna kærunnar og þá að hann hafi verið útilokaður frá Facebook-hópi starfsmanna tveimur vikum fyrir starfslok.

28. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórn­sýslu jafn­réttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafn­réttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kæru­nefnd jafnréttismála til meðferð­ar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framan­sögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.

29. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 150/2020 skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kvenna og karla innan fyrirtækis síns eða stofnunar. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna hlut kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum.

30. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Sama gildir um stöðuhækkun eða stöðu­breytingar. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut þess sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í það starf sem um ræðir í málinu hjá kærða.

31. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hver hafi fallið best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.

32. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekanda óheimilt að beita starfsfólk órétti í starfi á grundvelli þess að hafa kært eða veitt upplýsingar um kynbundna eða kynferðislega áreitni eða kynjamismunun. Samkvæmt sönnunarreglu 3. mgr. 20. gr. kemur það í hlut einstaklings sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að gengið hafi verið gegn ákvæðinu. Takist sú sönnun skal atvinnurekandi sýna fram á að ætlað órétti grundvallist ekki á kæru til nefndarinnar. Er því um sams konar sönnunarreglu að ræða og í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kær­anda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kæra hans hafi haft það í för með sér að hann hafi verið beittur órétti í starfi vegna kæru.

33. Kærði hefur lýst því að ákvörðun um að ráða í starf hjúkrunardeildarstjóra hafi grundvallast á skipulagsbreytingum vegna umfangs viðkomandi hjúkrunardeildar. Upphaflega hafi þær hugmyndir komið fram að skipta viðkomandi hjúkrunardeild í tvær deildir. Þess í stað hafi verið ákveðið að ráða tvo deildarstjóra fyrir viðkomandi hjúkrunardeild til reynslu í eitt ár sem gætu jafnvel sinnt hluta af verkefnum hjúkrunarforstjóra. Ef markmið tilraunaverkefnis­ins gengi eftir yrði starfið auglýst laust til umsóknar að ári liðnu. Þá hefur kærði lýst því að sökum reynslu af fyrra ráðningarferli hjúkrunardeildarstjóra í júnímánuði 2022 hafi hann farið þá óvenjulegu leið að leita að hjúkrunarfræðingi sem uppfyllti sömu hæfniskröfur og hann hafi lagt til grundvallar við ráðningu í starf deildarstjóra. Sú leit hafi borið árangur og konan sem hlaut starfið hafi verið ráðin tímabundið í eitt ár sem hjúkrunardeildarstjóri. Kærði bendir sérstaklega á að samkvæmt ákvæði gr. 11.1.2.1. í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hafi honum ekki borið fortakslaust að auglýsa laus störf til umsóknar og þá einkum þegar um skipulagsbreytingar er að ræða.

34. Kærunefnd bendir á að ákvæði laga nr. 150/2020 hafa ekki að geyma sérstaka reglu um að auglýsa beri laus störf opinberlega eða innan fyrirtækis eða stofnunar. Þegar ákvæði laga eða annarra réttarheimilda, svo sem ákvæði kjarasamninga, mæla ekki fyrir um skyldu til að auglýsa laus störf hafi atvinnurekandi því svigrúm til þess að ákveða ráðningar­fyrirkomu­lag og hvaða sjónarmið hann leggur til grundvallar. Á það sérstaklega við þegar um tíma­bundna ráðningu eða tilraunaverkefni er um að ræða. Slíkt svigrúm takmarkast hins vegar við þær reglur sem lög nr. 150/2020 hafa að geyma, þ.m.t. að ákvörðun og kröfur sem gerðar eru séu málefnalegar og byggist á forsvaranlegu mati.

35. Að mati kærða uppfyllti konan allar þær kröfur sem hann lagði til grundvallar við tímabundna ráðningu deildarstjóra. Kærði hefur lýst því að hún hafi átt farsælan starfsferil sem hjúkrunar­fræðingur á lyflækningadeild heilbrigðisstofnunar í rúmlega 17 ár, hún hafi verið í virkri endurmenntun á starfsferli sínum og hafi mikla reynslu af hjúkrun, þ.m.t. flókinni fjölskylduhjúkrun. Hún hafi skráð sig í viðbótarnám í stjórnun og þá hafi konan sem var ráðin yfir að búa framúrskarandi samskipta- og samstarfshæfileikum.

36. Af þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja í málinu verður ekki annað séð, eins og hér stendur á, en að ákvörðun kærða um að ráða í tímabundið starf deildarstjóra sem lið í tilraunaverkefni hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Í því sambandi hefur kærði lagt áherslu á að um tímabundna ráðningu hafi verið að ræða til eins árs, að starfið yrði auglýst ef tilraunaverkefni það sem var markmið ráðningarinnar gengi eftir og að fyrri ráðningarferli deildarstjóra hafi ekki skilað ákjósanlegum árangri.

37. Með vísan til framangreinds og þeirra gagna og upplýsinga sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. gagna um starfsferil og reynslu konunnar sem var ráðin, verður ekki betur séð en að þær hæfniskröfur sem kærði hafi lagt til grundvallar ráðningu hafi verið málefnalegar og byggðar á forsvaranlegu mati.

38. Það breytir ekki þessari niðurstöðu að kærandi hafi áður leyst af deildarstjóra í orlofi. Kærði hefur enn fremur í málatilbúnaði sínum byggt á því að konan sem var ráðin hafi verið mun hæfari en kærandi til þess að gegna starfinu og hefur nefnt dæmi því til stuðnings varðandi hæfnisþætti sem lagðir voru til grundvallar. Þá liggur fyrir í málinu ráðningarsamningur við konuna þar sem fram kemur að hún hafi verið ráðin sem hjúkrunar­deildarstjóri tímabundið til eins árs. Með vísan til þess verður ekki fallist á staðhæfingar kæranda um að konan hafi upphaflega verið ráðin sem hjúkrunarfræðingur en starfi hennar hafi síðar verið breytt í starf deildarstjóra.

39. Að öllu framangreindu virtu verður að mati kærunefndar að telja að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við ákvörðun um að ráða konuna tímabundið í starf deildarstjóra hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við ráðninguna hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020. Telur kærunefnd því að ákvörðun kærða um ráðningu á konunni, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði ekki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.

40. Í athugasemdum sínum undir rekstri málsins tók kærandi fram að hann upplifði að sér hefði verið refsað af stjórnendum kærða fyrir að leggja fram kæru í málinu. Nefndi kærandi í því sambandi að hann hefði verið útilokaður frá Facebook-hópi starfsmanna kærða tveimur vikum fyrir starfslok sín. Tiltók kærandi í því sambandi að tilgangur kæru hans í málinu hefði ekki verið að munnhöggvast við framkvæmdastjóra kærða en málatilbúnaður kærða í málinu hefði einkennst af dylgjum í hans garð, rangfærslum og verið meiðandi. Vegna breytinga á viðmóti stjórnenda hefði kærandi ákveðið að segja starfi sínu lausu.

41. Kærandi hefur ekki tiltekið eða bent á tilvik sem varpað gætu frekara ljósi á þá upplifun hans að honum hafi verið refsað að því undanskildu að hann hafi verið útilokaður frá Facebook-hópi starfsmanna. Kærandi hefur ekki lagt fram nánari gögn um síðast talið tilvik, þ.m.t. hvort Facebook-hópurinn starfi á vegum kærða eða starfsfólks hans eða hver hafi tekið ákvörðun um að fjarlægja hann úr hópnum skömmu fyrir starfslok hans. Þá hefur kærandi jafnframt upplýst að hjúkrunarforstjóri kærða sem jafnframt ritar undir greinargerðina hafi gefið honum mjög góð meðmæli við starfslok sín vegna umsóknar hans um annað starf.

42. Þótt fallast megi á með kæranda að einstaka ummæli í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni séu sett fram með beinskeyttum hætti verður ekki fram hjá því litið að í málinu liggja einnig fyrir ummæli kæranda við framkvæmdastjóra kærða vegna viðbótarlauna sem lýsa áþekkum sam­skiptaháttum kæranda. Að mati nefndarinnar verður ráðið af gögnum málsins að stirð samskipti hafi verið milli kæranda og stjórnenda kærða áður en kæra í máli þessu var lögð fram. Kærunefndin tekur þó sérstaklega fram að hún tekur enga afstöðu til þess hvar orsök hér liggur. Þá tekur kærunefndin fram að í ljósi sönnunarreglu 3. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 verði að ljá atvinnurekanda svigrúm til þess að bregðast við kæru, þ.m.t. hvernig hann kýs að setja fram athugasemdir sínar og röksemdir. Að þessu athuguðu telur kærunefndin að þótt kærði hefði mátt vanda betur orðalag í einstaka ummælum um starfshæfni kæranda í svörum vegna málsins hafi hann með því ekki farið umfram þetta svigrúm í málatilbúnaði sínum.

43. Að þessu athuguðu verður ekki talið á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja í málinu, og þá einkum með hliðsjón af því að kærði veitti kæranda góð meðmæli við starfslokin, að kærði hafi beitt kæranda órétti vegna þess að hann lagði fram kæru í málinu. Telur kærunefnd því að kærandi hafi ekki leitt líkum að því sama í skilningi 2. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020.

44. Með vísan til alls framangreinds verður hvorki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starf hjúkrunardeildarstjóra né að kærði hafi beitt kæranda órétti vegna kæru í máli þessu. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.

45. Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur tafist umfram þann tveggja mánaða frest sem nefndin hefur til að úrskurða í máli eftir að gagnaöflun í því er lokið samkvæmt 5. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála. Er ástæða þess einkum mikill fjöldi mála sem er til meðferðar hjá nefndinni auk breytinga á skipan og vistun hennar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, B, braut ekki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu í starf hjúkrunardeildarstjóra.

Kærði beitti ekki kæranda órétti í skilningi 2. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020 á þeim grundvelli að kærandi lagði fram kæru í máli þessu til kærunefndar jafnréttismála.

 

Ari Karlsson

Andri Árnason

Maren Albertsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta