Hoppa yfir valmynd
30. október 2009 Innviðaráðuneytið

Hlutverk eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga

Vegna umfjöllunar um fjárhagsstöðu sveitarfélaga og aðkomu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga þykir rétt að draga hér saman helstu atriði um hlutverk og skipan nefndarinnar.

Skipan nefndarinnar

Nefndin starfar samkvæmt VII. kafla sveitarstjórnarlaga, og reglugerð nr. 374/2001 um eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Nefndin er skipuð af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveir án tilnefningar. Nefndina skipa nú Ólafur Nilsson endurskoðandi, formaður, Hafdís Þóra Karlsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Veðurstofu Íslands og Þórður Skúlason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Starfsmaður nefndarinnar er Jóhannes Finnur Halldórsson, hagfræðingur, sérfræðingur á sveitarstjórnarskrifstofu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Aðalhlutverk nefndarinnar

Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með reikningsskilum og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og að hafa eftirlit með því að fjárstjórn sveitarfélaga sé í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Leiði athugun nefndarinnar í ljós að afkoma sveitarfélags sé ekki í samræmi við ákvæði laganna eða fjármál sveitarfélagsins stefni að öðru leyti í óefni skal nefndin aðvara viðkomandi sveitarstjórn og kalla eftir skýringum. Sveitarstjórn er skylt í slíkum tilvikum að gera eftirlitsnefndinni, innan tveggja mánaða, grein fyrir hvernig hún hyggst bregðast við aðvörun nefndarinnar.

Helstu viðfangsefni nefndarinnar um þessar mundir

Nefndin hefur unnið að því að undanförnu að greina ársreikninga sveitarfélaga fyrir árið 2008 og bera niðurstöður þeirra saman við viðmiðanir og lykiltölur sem nefndin notar við greiningu sína. Í tengslum við þesssa skoðun, er einnig athugaðar fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna fyrir yfirstandandi ár og þriggja ára áætlun þeirra fyrir árin 2010 – 2012. Fyrir liggur að afkoma og fjárhagsstaða margra sveitarfélaga versnaði verulega á síðasta ári, einkum vegna gengisþróunar, og var fjöldi sveitarfélaga rekinn með halla. Eftir greiningu ársreikninga hefur nefndin óskað eftir frekari upplýsingum frá nokkrum sveitarfélögum.

Aðgerðir eftirlitsnefndar og skyldur sveitarfélaga

Ef sveitarfélag kemst í fjárþröng og sveitarstjórn telur ekki unnt að standa í skilum skal hún tilkynna það eftirlitsnefndinni. Nefndin lætur þá rannsaka fjárreiður og rekstur sveitarfélagsins og leggur síðan fyrir sveitarstjórn að bæta það sem áfátt kann að reynast. Hafi sveitarfélag ekki brugðist við fjárhagsvanda sínum innan þriggja mánaða eða beri aðgerðir til lausnar fjárhagsvanda ekki tilætlaðan árangur, getur eftirlitsnefndin gripið til frekari aðgerða.

Telji eftirlitsnefndin að fjárhagur sveitarfélags sé það slæmur að það geti ekki með eðlilegum rekstri staðið undir lögboðnum útgjöldum eða öðrum skuldbindingum sínum eða það hafi ekki burði til að leysa vandann án utanaðkomandi fjárhagslegrar aðstoðar, er nefndinni heimilt að kanna möguleika á fjölþættum fjárhags- og stjórnunarlegum aðgerðum til lausnar fjárhagsvanda sveitarfélagsins með þátttöku ríkisvalds, sveitarfélags, Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, Lánasjóðs sveitarfélaga og annarra lánadrottna. Getur ráðuneytið, að tillögu eftirlitsnefndar, heimilað eða lagt fyrir sveitarstjórn í slíkum tilvikum að leggja álag á ústsvar og faseignaskatt sem nemi allt að 25%.

Þegar greiðslubyrði sveitarfélags umfram greiðslugetu er svo mikil að ljóst er að eigi mun úr rætast í bráð getur ráðherra að tillögu eftirlitsnefndar svipt sveitarstjórn fjárforráðum og skipað sveitarfélaginu fjárhaldsstjórn enda hafi sveitarstjórn vanrækt skyldur sínar samkvæmt sveitarstjórnarlögum og fjármál sveitarfélagsins verið í ólestri. Áður en til slíks kemur skal þó skora á sveitarstjórn að koma fjármálum sveitarfélagsins á réttan kjöl innan tiltekins frests. 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum