Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2011 Innviðaráðuneytið

Afstaða sveitarstjórnarmanna til sameininga sveitarfélaga könnuð

Til stendur að kanna viðhorf sveitarstjórnarmanna og þingmanna til sameiningar sveitarfélaga en slík könnun fór fram árið 2006. Þetta kom fram í ávarpi  Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á ársþingi Samtaka sveitarfélaga í Norðurlandi vestra sem nú stendur og lýkur á morgun.

Ögmundur Jónasson ávarpaði ársþing Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í dag.
Ögmundur Jónasson ávarpaði ársþing Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í dag.

Meðal umfjöllunarefna ársþingsins var efling sveitarstjórnarstigsins, sóknaráætlun landshluta, almenningssamgöngur og verðmætasköpun á landsbyggðinni. Tveir aðrir ráðherrar ávörpuðu þingið auk Ögmundar, þeir Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga kostar könnunina sem ráðherra segir mikilvæga bæði til að fá fram viðhorf sveitarstjórnarmanna í kjölfar síðustu kosninga og ekki síður að örva umræðu. Tengdi hann það umfjöllun ráðstefnu um aukið lýðræði meðal ríkis og sveitarfélaga sem halda á í Reykjavík 14. september en innanríkisráðuneytið stendur fyrir henni í samráði við lagastofnun HÍ og Reykjavíkurborg.

Frá ársþingi SSNV sem haldið var í Reykjaskóla.

Innanríkisráðherra sagði í upphafi máls síns að erfið fjárhagsstaða sveitarfélaga hefði verið eitt umfangsmesta og erfiðasta verkefni sveitarstjórnarmanna og ríkisvaldsins síðustu árin. Minnkandi tekjum og vaxandi kostnaði verði að mæta með niðurskurði og/eða hækkun gjalda. Nýir kjarasamningar hjá ríki og sveitarfélögum síðustu vikur og misseri hafi enn aukinn kostnað í för með sér og hefði því verið varpað fram að sveitarfélög verði að mæta þeim kostnaði að einhverju leyti með uppsögnum. Sagði ráðherra þetta slæma þróun.

Þá minntist innanríkisráðherra á frumvarp til nýrra sveitarstjórnarlaga sem nú liggur fyrir Alþingi. Sagði hann fulltrúa ráðuneytisins hafa komið á fund samgöngunefndar Alþingis og átt náið samstarf með henni. Brýnt væri að afgreiða frumvarpið nú á septemberþinginu ekki síst vegna þeirra ákvæða frumvarpsins sem styrkja fjármálastjórn sveitarfélaga og eftirlit með henni og vegna nýrra ákvæða til að auka íbúalýðræði með því að greiða fyrir því að ákveðið hlutfall kjósenda geti óskað eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekin mál.

Breytt hugmyndafræði við skipulag almenningssamgangna

Innanríkissráðherra greindi einnig frá þeirri endurskipulagningu á embættum sýslumanna og lögreglustjóra sem nú stæði yfir og hann greindi frá breytingu á þeirri hugmyndafræði og ábyrgð á úthlutun styrkja til almenningssamgangna. Vegagerðin og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga skrifuðu nýlega undir samning um að samtökin tækju að sér að skipuleggja og tryggja almenningssamgöngur á sínu svæði og úthluta því fjármagni sem þeim væri ætlað. Sagði ráðherra þetta fyrirkomulag, að heimamenn tækju að sér ábyrgð á málaflokknum, til þess fallið að nýta betur fjármuni og samhæfa til dæmis almenningssamgöngur við akstur með skólabörn og þjónustu við fatlaða. Sagði hann fleiri slíka samninga við landshlutasamtök í bígerð.

Í lokin minntist ráðherra á vegaframkvæmdir sem hann sagði ekki miklar í þessum landshluta. Í því sambandi sagði hann brýnt að hlusta á vilja heimamanna þegar vegaframkvæmdir væru annars vegar um leið og tekið væri tillit til umhverfissjónarmiða svo og fjárráða ríkissjóðs. Hann kvaðst þannig myndu hlusta á sjónarmið íbúa Blönduóss varðandi hugmyndir um styttingu Hringvegarins við Svínavatn sem þýddi að hann lægi ekki um Blönduós.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum