Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Blómlegt samstarf opinberu háskólanna

Samstarf opinberu háskólanna á Íslandi hófst formlega árið 2010 og er því ætlað að efla háskólana, kennslu og rannsóknir þeirra, auka hagkvæmni í rekstri og að tryggja háskólastarfsemi víða á landinu. Samstarfið er margþætt. Má þar nefna sem dæmi Ugluna en hún er sameiginlegt nemendakerfi opinberu háskólanna. Skólarnir eiga einnig í fjölbreyttu samstarfi á sviði kennslu-, gæða- og upplýsingatæknimála og akademísku mati. Þá standa skólarnir saman að nemendakönnunum, sem tengist gæðastarfi háskólanna, og Kennsluakademíu opinberu háskólanna og deila starfi persónuverndarfulltrúa og námsráðgjafa. Loks eiga nemendur skólanna kost á gestanámi með því að taka námskeið við aðra opinbera háskóla.

Verkefnisstjórn um samstarfsnet opinberu háskólanna fundaði á Hvanneyri í maí síðastliðnum. Samstarfið hefur aukist á undanförnum árum og var frekari efling þess m.a. rædd á fundinum. Fundurinn var haldinn í Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem rektor tók á móti verkefnisstjórninni og kynnti áherslur í starfi skólans. Að fundi loknum var boðið til kynnisferðar um háskólasvæðið og einstaka náttúru þess, en Hvanneyri er innan eins af sex Ramsarsvæðum á Íslandi. Slík svæði eru alþjóðleg friðlönd fugla og votlendis. Á dagskrá fundarins var, auk umræðu um frekari eflingu samstarfsins, staða og framtíðarþróun Uglunnar, samstarf um nemendakannanir og fjárhagur samstarfsins.

Í verkefnisstjórninni sitja Jón Atli Benediktsson, formaður, rektor Háskóla Íslands, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar í HÍ, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu í HÍ, Hólmar Erlu Svansson, framkvæmdastjóri HA, og Sigríður Geirsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu stefnumörkunar í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Verkefnisstjórar samstarfsnetsins eru Halldór Jónsson, sviðsstjóri Vísinda- og nýsköpunarsviðs HÍ, og Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknarsetra HÍ. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum