Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Sameining á ekki að leiða til að þjónustan skerðist

Megintilgangur sameiningar heilbrigðisstofnana er að til verði öflugar heilbrigðisstofnanir í hverju heilbrigðisumdæmi sem stjórna heilbrigðisþjónustunni í heilbrigðisumdæmunum og þannig verði aukið vald fært frá höfuðborgarsvæðinu til stofnananna. Er þetta ein megin hugsunin í heilbrigðisþjónustulögunum sem nýverið tóku gildi.

Í umræðu um fyrirhugaða sameiningu heilbrigðisstofnana hefur borið talsvert á því að gengið hefur verið út frá því að sameining sem slík leiði til skerðingar heilbrigðisþjónustu og sjúklingar þurfi að sækja þjónustu um lengri veg.

Sú hefur þó alls ekki verið raunin þar sem heilbrigðisstofnanir hafa verið sameinaðar, eins og á Austurlandi og Suðurlandi.  Sameiningin leiddi ekki til neinnar skerðingar á þjónustu og engin sjúkrahús eða heilsugæslustöðvar voru lagðar niður.  Hagræði sem varð af sameiningunni var notað til að efla heilbrigðisþjónustu.

Við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu er ljóst að grípa þarf til sparnaðarráðstafana í heilbrigðisþjónustu eins og á öðrum sviðum. Með sameiningu heilbrigðisstofnana ætti hinsvegar að vera mögulegt að ná umtalsverðum sparnaði án skerðingar á heilbrigðisþjónustu. 

Það sem vinnst með sameiningunni

Á Vesturlandi er t.d. gert ráð fyrir sameiningu átta heilbrigðisstofnana undir nafninu Heilbrigðisstofnun Vesturlands.   Á svæðinu eru tvö sjúkrahús með heilsugæslusviði; á Akranesi og í Stykkishólmi, fjórar heilsugæslustöðvar (Búðardal, Borgarnesi, Grundarfirði og Ólafsvík) og tvær heilbrigðisstofnanir þar sem er heilsugæsla og legurými (Hólmavík og Hvammstanga).

Stöður forstjóra lagðar niður. Við sameiningu á Vesturlandi verða stöður forstjóra fyrrgreindra átta stofnana lagðar niður og í stað þeirra kemur einn forstjóri.

Nýtt skipurit.  Þar verður gert ráð fyrir einum framkvæmdastjóra lækninga og einum framkvæmdastjóra hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Vesturlands.  Ekki yrði þó um að ræða fækkun lækna eða hjúkrunarfræðinga heldur breytingu á stöðum þeirra sem nú gegna stöðum framkvæmdastjóra lækninga og hjúkrunar á stofnununum.

Stoðþjónusta.  Tækifæri gefst til að endurskipuleggja ýmsa stoðþjónustu, svo sem stjórn fjármála, starfsmannahald, símaþjónustu, bókhald o.fl.  fækka starfsmönnum við slíka stoðþjónustu og ná þannig sparnaði án skerðingar á þjónustu.  Einnig ætti að vera hægt að ná hagræðingu á fleiri sviðum svo sem á sviði rannsókna og með samræmdri rafrænni sjúkraskrá.

Vaktir.  Tækifæri gefst til að endurskipuleggja ýmsa vaktþjónustu, t.d. þar sem stutt er á milli heilsugæslustöðva.  Þannig má spara án skerðingar þjónustu.

Umsagnir sveitarfélaga

Allmörg sveitarfélög hafa mótmælt áformum um sameiningu.  Dæmi um algengar umsagnir eru;

  • “Sameining leiðir til skerðingar heilbrigðisþjónustu.” 

Eins og fram kemur hér á undan leiðir sameining ekki til skerðingar heilbrigðisþjónustu, en gefur hins vegar möguleika á sparnaði án skerðingar á þjónustu.

  • “Sjúklingar þurfi að sækja þjónustu um lengri veg.”

Í fyrri sameiningum hafa engin sjúkrahús eða heilsugæslustöðvar verið lagðar niður.  Sjúklingar hafa því áfram sótt heilbrigðisþjónustu á sama stað þó yfirstjórn væri sameinuð.  Þær hafa því ekki leitt til þess að sjúklingar þurfi að sækja þjónustu um lengri veg.

Það er því afar mikilvægt að áform um sameiningu heilbrigðisstofnana gangi eftir, þannig að unnt verði að ná nauðsynlegum sparnaði án skerðingar á heilbrigðisþjónustu. 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum