Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 328/2022-Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 328/2022

Miðvikudaginn 19. apríl 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 26. júní 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. maí 2022 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2021 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 44.671 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. maí 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. júní 2022. Með bréfi, dags. 27. júní 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 11. júlí 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í málinu, dags. 21. desember 2022, þar sem kæranda var tilkynnt um að krafa sem hafi myndast í uppgjöri hafi verið felld niður á þeim forsendum að hún hafi ekki verið réttmæt. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. janúar 2023, var óskað eftir afstöðu kæranda til þeirrar ákvörðunar stofnunarinnar. Í símtali kæranda við úrskurðarnefndina 4. janúar 2023 lýsti kærandi því yfir að hann vildi halda áfram með málið hjá nefndinni. Með bréfi, dags. 1. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna ákvörðunar 21. desember 2022. Með bréfi, dags. 15. mars 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. mars 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi haft samband við Tryggingastofnun og þjónustuaðilinn hafi ekki getað séð eða útskýrt sundurliðun á þessari skuld sem sé haldið fram að hann skuldi. Niðurstaðan hafi átt að vera 153.000 kr. endurgreiðsla en af einhverjum ástæðum þá skuldi kærandi stofnuninni 44.000 kr. Útskýringin á sundurliðunarblaðinu segi ekkert um hvað sé verið að draga af endurgreiðslunni eða hvaðan þessi skuld komi og til að gera þetta verra þá sé bætt skatti á skuldina. Eini mismunur sem hafi verið á tekjuáætlun og skattskýrslu hafi verið sá að kærandi hafi fengið 11.000 kr. meira frá lífeyrissjóði. Ef eitthvað þá hafi kærandi átt að fá miklu meira endurgreitt því að stofnunin sé hætt að reikna búsetuhlutfall sem hafi gefið honum 10% minni bætur frá 2009. Þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem kærandi eigi að fá endurgreitt en því hafi verið snúið yfir í skuld. Í hinum tilfellunum hafi upphæðin og mismunurinn ekki verið svona mikill og hafi kærandi fengið útskýringu á því en kannski hefði hann átt að athuga það betur.

Kærandi geti ekki sætt sig við svona óútskýranlega skuld. Hann sé á lágmarks örorkubótum. Kærandi sé ekki að taka allar aukagreiðslur sem hann geti fengið eða hafi rétt á þar sem hann hafi ekki áhuga á að vera meiri byrði á kerfinu en hann þurfi. Kærandi sé ekki sjálfviljugur á örorku heldur vegna vinnuslyss. Það sé ekki þar með sagt að kærandi vilji láta taka af því litla sem hann hafi, án nokkurra útskýringa.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2021.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Í 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé fjallað um sérstaka uppbót til framfærslu. Þar segi meðal annars að heimilt sé að greiða örorkulífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án sérstakrar uppbótar. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fái greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar, skuli á árinu 2021 miða við að heildartekjur séu undir 333.258 kr. á mánuði. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fái ekki greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar, skuli miða við að heildartekjur séu undir 265.044 kr. á mánuði.

Til tekna samkvæmt framangreindu ákvæði teljast allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki séu taldar fram hér á landi. Við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu skuli telja til tekna 65% af tekjum lífeyrisþega. Bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um almannatryggingar skuli þó teljast að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar, að því undanskildu að einungis skuli telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar samkvæmt 21. gr. laga um almannatryggingar og 95% af fjárhæð tekjutryggingar samkvæmt 22. gr. sömu laga.

Í 9. gr. laga um félagslega aðstoð sé einnig fjallað um uppbætur vegna kostnaðar sem fáist ekki greiddur eða bættur með öðrum hætti. Heimilt sé að greiða uppbætur, til dæmis vegna lyfjakostnaðar, ef sýnt þyki að umsækjandi geti ekki framfleytt sér án þeirra en við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skuli taka tillit til eigna og tekna. Á árinu 2021 hafi ekki verið heimilt að greiða uppbætur ef eign í peningum/verðbréfum væri hærri en 4.000.000 kr. og mánaðarlegar tekjur að meðtöldum bótum almannatrygginga væru ekki hærri en 261.773 kr.

Á árinu 2021 hafi kærandi verið með örorkulífeyri, tekjutryggingu, aldurstengda örorkuuppbót og sérstaka uppbót til framfærslu allt árið. Frá 1. júlí 2021 hafi kærandi einnig verið með sérstaka uppbót vegna lyfjakostnaðar.

Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 44.671 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2022 vegna tekjuársins 2021, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun þann 26. janúar 2021. Samkvæmt henni hafi verið gert ráð fyrir að árið 2021 væru lífeyrissjóðstekjur hans 816.794 kr. og vextir og verðbætur 96 kr. Kæranda hafi verið greitt samkvæmt þessari tekjuáætlun allt árið 2021.

Við bótauppgjör ársins 2021 hafi komið í ljós að kærandi hafði verið með 827.891 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 40 kr. í vexti og verðbætur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2021 hafi verið sú að kærandi hafi fengið vangreitt í bótaflokkunum tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbótum en ofgreitt í bótaflokkunum sérstakri uppbót til framfærslu og öðrum uppbótum.

Við endurreikning og uppgjör hvers árs sé í samræmi við bráðabirgðaákvæði nr. 16 og 18 í lögum um almannatryggingar gerður samanburður á útreikningi tekjutryggingar hjá örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem fái greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Sá samanburður sé annars vegar samkvæmt gildandi reglum hvers árs og hins vegar þeim reglum sem hafi verið í gildi á árinu 2013, að teknu tilliti til uppreiknings á fjárhæð greiðslna og tekjumarks sem myndaðist við samskonar útreikning á árunum 2011-2013. Þessi samanburður og útreikningur hafi haft í för með sér að tekjutrygging kæranda hafi hækkað í uppgjörinu.

Þegar þessi útreikningur hafi í för með sér að tekjutrygging ársins hækki hjá einstaklingi sem hafi fengið greidda sérstaka uppbót vegna framfærslu verði það til þess að viðmiðunartekjur hækka vegna útreiknings sérstakrar uppbótar vegna framfærslu. Þess vegna hafi uppgjör ársins leitt til lækkunar á þeirri fjárhæð sem kærandi hafi fengið greidda í sérstaka uppbót til framfærslu. Það sama geti átt við varðandi sérstaka uppbót vegna lyfjakostnaðar hjá kæranda ef hækkun á greiðslum hafi í för með sér að greidd uppbót hafi reynst að hluta til yfir tekjumörkum vegna uppbótarinnar sem hafi verið 261.773 kr. á mánuði á árinu 2021.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2021 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu 2.865.666 kr. en hefði átt að fá greitt 2.826.496 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 44.671 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2021.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. mars 2023, er greint frá því að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi óskað eftir greinargerð stofnunarinnar vegna þeirrar ákvörðunar að fella niður ofgreiðslukröfu á hendur kæranda vegna endurreiknings tekjutengdra greiðslna ársins 2021 að fjárhæð 44.671 kr. Ákveðið hafi verið að taka endurreikning á tekjutengdum greiðslum til kæranda á árinu 2021 til endurskoðunar við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að farsælast væri fyrir kæranda að fella niður kröfu sem hefði myndast á hendur honum í uppgjöri greiðslna ársins 2021 á grundvelli þess að krafan, eða hluti hennar, hafi ekki verið réttmæt.

Við endurreikning á tekjutengdum greiðslum til kæranda á árinu 2021, dags. 19. maí 2022, hafi verið framkvæmdir tveir útreikningar. Annars vegar útreikningur á grundvelli þeirra reglna sem hafi verið í gildi á árinu 2021 og hins vegar svokallaður samanburðarútreikningur í samræmi við þágildandi 18. tölulið bráðabirgðaákvæðis í lögum um almannatryggingar.

Í framangreindu lagaákvæði sé kveðið á um að við útreikning tekjutryggingar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fái greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skuli á tímabilinu 1. janúar 2021 til og með 31. desember 2021 vera gerður samanburður á útreikningi tekjutryggingar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2021 og hins vegar þeim reglum sem hafi verið í gildi á árinu 2013, auk 46,36% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem hafi myndast við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða. Beita skuli þeirri reglu sem leiði til hærri greiðslna.

Við endurreikninginn hafi uppbót vegna lyfjakostnaðar ekki verið tekin með við ákvörðun um það hvor reiknireglan kæmi betur út fyrir kæranda. Greiðsluréttur kæranda fyrir utan uppbót vegna lyfjakostnaðar samkvæmt samanburðarútreikningi hafi verið 2.795.966 kr. á árinu 2021. Greiðsluréttur kæranda fyrir utan uppbót vegna lyfjakostnaðar samkvæmt útreikningi í samræmi við reglur ársins 2021 hafi hins vegar verið 2.771.780 kr. Því hafi reiknireglan samkvæmt samanburðarútreikningi verið valin.

Það hefði hins vegar átt að taka tillit til uppbótar vegna lyfjakostnaðar við ákvörðun um það hvor reiknireglan kæmi betur út fyrir kæranda. Hefði það verið gert hefði útreikningur í samræmi við reglur ársins 2021 orðið fyrir valinu. Greiðsluréttur kæranda með uppbót vegna lyfjakostnaðar samkvæmt endurreikningi í samræmi við reglur ársins 2021 hafi verið 2.858.504 kr. en greiðsluréttur hans með uppbót vegna lyfjakostnaðar í samanburðarútreikningi hafi verið 2.826.500 kr. Heildarréttindi kæranda hefðu því átt að vera 32.004 kr. hærri í endurreikningi en raun bar vitni. Uppbót vegna lyfjakostnaðar hefði þannig staðið í stað frá fyrri útreikningi á grundvelli tekjuáætlunar og verið 86.724 kr., en liðirnir tekjutrygging, orlofs- og desemberuppbætur og sérstök uppbót á lífeyri vegna framfærslu hefðu lækkað frá útreikningi samkvæmt tekjuáætlun sem nemur um samtals 7.166 kr. (2.778.942 kr. greitt samkvæmt síðustu tekjuáætlun - 2.771.776 kr.) vegna annarra tekjuforsendna í uppgjöri. Sú fjárhæð, eða 7.166 kr., hefði því átt að vera krafa til innheimtu í uppgjöri.

Ástæðu þess að krafa hafi myndast á uppbót vegna lyfjakostnaðar í samanburðarútreikningi endurreiknings megi rekja til þess að tekjutrygging, sem hafi áhrif til lækkunar á uppbótina, hækki en sérstök uppbót til framfærslu lækki á móti.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað í nánari útreikninga.

Umsókn kæranda um uppbót á lífeyri vegna lyfjakostnaðar hafi verið samþykkt með bréfi, dags. 3. september 2021, á grundvelli upplýsinga um lyfjakostnað frá Sjúkratryggingum Íslands. Greiðslur hafi verið ákveðnar frá 1. júlí 2021 til 30. júní 2022.

Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands hafi lyfjakostnaður kæranda fyrir tiltekinn mánuð, sem hafi verið viðmiðunarmánuður ákvörðunar, verið 12.900 kr. Samt sem áður hafi mánaðarleg fjárhæð, að því er virðist fyrir mistök, verið ákveðin 14.454 kr. á mánuði mánuðina júlí til desember 2021. Gott sé að það komi fram að heildargreiðsluréttur kæranda miðað við uppgefinn kostnað hefði því samtals átt að vera 9.324 kr. lægri en kærandi hafi fengið greiddar, eða samtals 77.400 kr. Sé tekið mið af því hefðu réttindi kæranda við endurreikning í raun átt að vera 22.686 kr. hærri en raun bar vitni. Ekki þyki þó rétt að láta kæranda bera hallann af þeirri afgreiðslu Tryggingastofnunar.

Ljóst þyki að breyta þurfi reikniverki Tryggingastofnunar til þess að tryggt sé hjá þeim, sem fái greiddar uppbætur á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007, að ávallt sé valinn sá útreikningur sem komi í heild best út fyrir lífeyrisþega þegar samanburðarútreikningur á grundvelli 18. töluliðar bráðabirgðaákvæðis samkvæmt lögum um almannatryggingar eigi við.

Hins vegar hafi ekki þótt forsvaranlegt að láta kæranda bíða þar til búið væri að gera nauðsynlegar úrbætur á reikniverki Tryggingastofnunar og því hafi verið ákveðið að fella í heild niður ofgreiðslukröfu á hendur honum sem hafi myndast í uppgjöri ársins 2021. Eins og sjá megi hér að framan sé sú ákvörðun ívilnandi fyrir kæranda.

Tryggingastofnun standi við þá ákvörðun sína að fella niður ofgreiðslukröfu á hendur kæranda að fjárhæð 44.671 kr. og telji að með þeim hætti sé endurreikningi tekjutengdra greiðslna ársins 2021 hjá kæranda lokið.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2021.

Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Á grundvelli þágildandi 7. mgr. 16. gr. þeirra laga ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt þágildandi 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Á árinu 2021 var kærandi með örorkulífeyri og tengdar greiðslur allt árið og auk þess sérstaka lyfjauppbót á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð frá 1. júlí 2021.

Samkvæmt gögnum málsins útbjó Tryggingastofnun tekjuáætlun, dags. 26. janúar 2021, vegna ársins 2021 þar sem gert var ráð fyrir 816.794 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 96 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi gerði engar athugasemdir við þá áætlun. Bótaréttindi voru því reiknuð og bætur greiddar miðað við þær forsendur út árið 2021. Búsetuhlutfall kæranda var 90,45% á tímabilinu 1. janúar 2021 til 1. september 2021 þegar búsetuhlutfallinu var breytt í 90,6%.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2021 reyndust tekjur kæranda á árinu vera 827.891 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 40 kr. í fjármagnstekjur. Lífeyrissjóðstekjur eru tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2021 leiddi í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 44.671 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Samkvæmt endurreikningnum fékk kærandi ofgreitt í sérstakri uppbót til framfærslu og uppbót vegna lyfjakostnaðar.

Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er sú að lífeyrissjóðstekjur ársins 2021 voru hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun. Lífeyrissjóðstekjur hafa hvorki áhrif á útreikning grunnlífeyris né aldurstengdrar örorkuuppbótar, sbr. þágildandi 3. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, en hafa aftur á móti áhrif á tekjutryggingu, sbr. þágildandi 22. gr. laga um almannatryggingar og orlofs- og desemberuppbætur, sbr. þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Lífeyrissjóðstekjur hafa einnig áhrif á sérstaka uppbót til framfærslu og uppbót á lífeyri, sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Undir rekstri málsins kom í ljós að framangreindur endurreikningur var ekki rétt framkvæmdur. Í samræmi við þágildandi 18. tölulið bráðabirgðaákvæðis í lögum um almannatryggingar gerði stofnunin samanburðarútreikning við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta. Í ákvæðinu kemur fram að við útreikning tekjutryggingar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skuli Tryggingastofnun gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar, annars vegar samkvæmt reglum sem giltu á árinu 2021 og hins vegar á þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013, auk 46,36% hækkunar, að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða. Þá segir að beita skuli þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna. Þessi samanburður var framkvæmdur en ekki var tekið með í útreikninginn að kærandi fékk greidda uppbót hluta ársins vegna lyfjakostnaðar. Þessi mistök leiddu til þess að ekki var valin hagstæðasta niðurstaðan fyrir kæranda. Tryggingastofnun hefur upplýst að breyta þurfi reikniverki Tryggingastofnunar til þess að tryggja að ávallt sé valinn sá útreikningur sem komi í heild best út fyrir lífeyrisþega við samanburðarútreikning, í þeim tilvikum þegar bótaþegar fá greiddar uppbætur á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð.

Samkvæmt gögnum málsins var greiðsluréttur kæranda, að frátalinni uppbót vegna lyfjakostnaðar, samkvæmt samanburðarútreikningi 2.795.966 kr. á árinu 2021. Greiðsluréttur kæranda fyrir utan uppbót vegna lyfjakostnaðar samkvæmt útreikningi í samræmi við reglur ársins 2021 var 2.771.780 kr. Var því sú reikniregla samkvæmt samanburðarútreikningi valin. Ef uppbót vegna lyfjakostnaðar hefði verið tekin með í framangreindan samanburð hefði útreikningur í samræmi við reglur 2021 verið valinn. Greiðsluréttur kæranda með uppbót vegna lyfjakostnaðar samkvæmt endurreikningi í samræmi við reglur ársins 2021 hafi verið 2.858.504 kr. en greiðsluréttur hans með uppbót vegna lyfjakostnaðar í samanburðarútreikningi hafi verið 2.826.500 kr. Ef endurreikningurinn hefði verið framkvæmdur lögum samkvæmt hefðu réttindi kæranda átt að vera 32.004 kr. hærri í endurreikningi. Uppbót vegna lyfjakostnaðar hefði staðið í stað frá fyrri útreikningi og verið 86.724 kr., en tekjutrygging, orlofs- og desemberuppbætur og sérstök uppbót á lífeyri vegna framfærslu hefðu lækkað frá útreikningi samkvæmt tekjuáætlun um 7.166 kr. vegna annarra tekjuforsendna í uppgjöri. Niðurstaðan hefði því átt að vera krafa að fjárhæð 7.166 kr.

Auk framangreindra mistaka hefur Tryggingastofnun upplýst að stofnunin hafi ekki afgreitt umsókn kæranda um uppbót vegna lyfjakostnaðar rétt og að samþykktar hefðu verið mánaðarlegar greiðslur að fjárhæð 14.454 kr. í stað 12.900 kr. á mánuði.

Eins og greint hefur verið frá hér að framan liggur fyrir að kærður endurreikningur var ekki rétt framkvæmdur og krafa sú sem myndaðist við endurreikninginn var að mestu ekki réttmæt. Auk þess hafði Tryggingastofnun ekki afgreitt umsókn kæranda um uppbót vegna lyfjakostnaðar rétt. Tryggingastofnun tók þá ákvörðun undir rekstri málsins að fella niður framangreinda kröfu og endurgreiða kæranda þá fjárhæð sem hafði verið greidd inn á kröfu sem myndaðist við endurreikning og uppgjör þar sem að það væri farsælast fyrir kæranda. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af gögnum málsins að sú ákvörðun Tryggingastofnunar að fella niður ofgreiðslukröfu á hendur kæranda að fullu hafi verið ívilnandi. Úrskurðarnefndin telur því ekki tilefni til að gera athugasemd við þá niðurstöðu.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að fella niður ofgreiðslukröfu sem myndaðist vegna endurreiknings tekjutengdra bóta ásins 2021.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að fella niður ofgreiddar bætur sem mynduðust við endurreikning tekjutengdra bóta A, á árinu 2021, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum