Hoppa yfir valmynd
27. júní 2017 Forsætisráðuneytið

Norrænt samstarf: Skýrsla um hótanir og hatursorðræðu á netinu

Mynd af forsíðu skýrslunnar - myndNIKK

Norræna þekkingarmiðstöðin í kynjafræði; NIKK, hefur birt skýrslu með greiningu á núgildandi löggjöf um hótanir og hatursorðræðu á Netinu út frá sjónarmiðum kynjajafnréttis. Skýrslan var unnin að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar. Höfundur er Moa Bladini, sérfræðingur í refsirétti við lagastofnun Gautaborgarháskóla.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að þótt hatursorðræða á netinu beinist í álíka miklum mæli að konum og körlum sé birtingarmyndin ólík eftir því hvort kynið á í hlut. Þegar netníð beinist að körlum felist það einkum í niðrandi ummæli um færni þeirra í starfi eða hótanir um ofbeldi. Konur sæti aftur á móti frekar árásum þar sem orðræðan einkennist af kynjafordómum og kynferðislegum hótunum og beinist að persónunni sjálfri frekar en störfum hennar. Þá kemur einnig fram að karlar eru í miklum meirihluta þeirra sem hafa í frammi hótanir og hatursorðræðu á netinu.

Lagalega vernd skortir ef netníð beinist að kynferði

Greiningin leiðir í ljós að lítill munur er á refsilöggjöf Norðurlandaþjóðanna. Til að mynda er hatursorðræða sem beinist að tilteknum hópum alls staðar ólögleg. Kyn fellur alls staðar utan þess ramma sem veitir einstökum hópum réttarvernd í löggjöf þjóðanna, þótt í Finnlandi sé fræðilega heimilt að líta til kynferðis. Í þessu felst að einstaklingar sem verða fyrir hatursorðræðu vegna kynferðis síns njóta ekki sömu réttarverndar og ef um væri að ræða hatursorðræðu sem beindist að hörundslit, uppruna, kynþætti, trúarbrögðum eða kynhneigðar en það eru allt þættir sem tilgreindir eru í löggjöf um hatursglæpi.

Skýrsluhöfundur segir alls staðar ríkja óvissu um hvernig skuli beita löggjöf gegn hatursorðræðu og hvar eigi að draga mörkin milli tjáningarfrelsis og hatursorðræðu. Vegna þessarar óvissu sé löggjöfinni beitt í mun minna mæli en fræðilega væri mögulegt. Raunveruleikinn er því sá að lagaleg vernd minnihlutahópa gegn hatursorðræðu er afar takmarkaður og þeir sem sæta henni vegna kynferðis njóta engrar verndar. Í ljósi þess hvað hatursumræða á netinu sem konur sæta er að miklu leyti tengd kynferði er ástæða til að bæta löggjöfina hvað þetta varðar segir höfundur skýrslunnar meðal annars.

Netníð er ógn við tjáningarfrelsið

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra segir efni skýrslunnar mikilvægt og nauðsynlegt að bregðast við niðurstöðunum með aðgerðum: „Tjáningarfrelsið er grundvallarréttur og vandmeðfarið að setja því skorður. Aftur á móti verðum við að horfast í augu við þann veruleika að ef við látum netníð óátalið getur það falið í sér alvarlega ógn við tjáningarfrelsið og við önnur grundvallarréttindi sem er friðhelgi einkalífs. Því verðum við að reyna að greina þarna á milli og bregðast við því að hatur og hótanir á netinu eru raunverulegt vandamál sem við stöndum frammi fyrir.“

Í skýrslunni er bent á ýmsar leiðir og aðgerðir til að sporna við kynbundinni hatursorðræðu og hótunum á Netinu, bæði varðandi lagabreytingar, verklag við meðferð slíkra mála, mögulegt samstarf milli þjóða og einnig eru gerðar tillögur að rannsóknum sem áhugavert væri að gera á þessu sviði.

Moa Bladini, höfundur skýrslunnar leggur mikla áherslu á að könnuð verði frekar tengsl milli netníðs og þátttöku fólks í opinberri umræðu. Ljóst sé af gögnum að þolendur netníðs eru sérstaklega fólk sem lætur sig réttindabaráttu ýmissa hópa varða og því verði viðbrögð löggjafa Norðurlandanna að leitast við að tryggja fólki næga réttarvernd.

Á vef Norrænu ráðherranefndarinnar er vísað á tengiliði ef áhugi er á nánari upplýsingum eða viðtölum varðandi efni skýrslunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum