Hoppa yfir valmynd
29. febrúar 2024 Forsætisráðuneytið

1177/2024. Úrskurður frá 29. febrúar 2024

Hinn 29. febrúar 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1177/2024 í máli ÚNU 24010002.
 

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 22. desember 2023, kærði A tafir á afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni hans um gögn. Með kærunni fylgdi handritað afrit af bréfi kæranda til bæjarráðs Vest­manna­eyja­bæjar, dags. 6. nóvember 2023, þar sem hann óskar eftir skýrslu Minjastofnunar Íslands varðandi kröfur um mótvægisaðgerðir sem metnar eru út frá niðurstöðum fornleifarannsóknar í Mið­gerði auk draga að kostnaðarmati. Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með erindi, dags. 17. janúar 2024, og upp­lýsinga óskað um það hvort beiðni kæranda hefði verið afgreidd. Í svari Vestmanna­eyja­bæjar, dags. 24. janúar 2024, kom fram að beiðni kæranda fyndist ekki og að því yrði að ætla að beiðnin hefði ekki borist sveitarfélaginu.
 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er heimilt að bera synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefndina. Hið sama gildir um synjun á beiðni um að af­henda gögn á því formi sem óskað er. Þá er heimilt að vísa máli til úrskurðarnefndar um upp­lýs­inga­mál ef beiðni um aðgang að gögnum ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku henn­ar samkvæmt 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Af kæru er ljóst að kærandi telur að Vestmanna­eyja­bær hafi dreg­ið óhæfilega að afgreiða beiðni hans um skýrslu Minjastofnunar o.fl. Af hálfu Vest­manna­eyja­bæjar hefur hins vegar komið fram að beiðnin finnist ekki í vörslum sveitarfélagsins. Úr­skurð­ar­nefnd­in hefur ekki forsendur til að draga þá staðhæfingu í efa. Af því leiðir að ekki getur verið um óhæfilegan drátt á meðferð málsins að ræða, þar sem sveitarfélagið hefur ekki móttekið beiðni kær­anda og þannig ekki haft tækifæri til afgreiða hana, sbr. 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Verður kær­unni því vísað frá úr­skurðarnefnd um upplýsingamál.
 

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 22. desember 2023, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum