Hoppa yfir valmynd
13. mars 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 106/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 13. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 106/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010018

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. janúar 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. janúar 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 7. ágúst 2018. Þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun í Portúgal var beiðni um viðtöku hans send til portúgalskra yfirvalda þann 9. ágúst 2018, sbr. 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá portúgölskum yfirvöldum, dags. 12. september 2018, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 2. eða 3. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 9. janúar 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 15. janúar 2019 og kærði kærandi ákvörðunina samdægurs til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 24. janúar 2019, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn í máli kæranda þann 21. febrúar sl. Í greinargerð lagði kærandi fram beiðni um öflun sérfræðimats á andlegu og líkamlegu heilsufari hans en að mati kærunefndar gáfu gögn málsins ekki til kynna að tilefni væri til að afla slíks mats í máli kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að portúgölsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Portúgals ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Portúgals.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi flúið heimaríki sitt vegna [...] þar sem hann sé [...]. Þá hafi niðurstaða skimunarprófs sem kærandi hafi gengist undir hjá Útlendingastofnun gefið til kynna jákvæða skimun fyrir andlegum bágindum. Kærandi kveður að hann glími við mikið þunglyndi og svefnleysi, þá sé handleggur hans brotinn og [...] hans [...] eftir árás sem hann hafi orðið fyrir af hendi fjölskyldu sinnar í heimaríki sínu. Fjölskylda hans hafi hótað honum lífláti og hann hafi verið [...] og [...] í heimaríki vegna [...]. Þá hafi hann dvalið um hríð í Sádi-Arabíu og Suður-Kóreu en þurft að yfirgefa Suður-Kóreu eftir að hafa orðið fyrir áreitni þar vegna [...]. Um framangreint vísar kærandi til framlagðra gagna. Kærandi kveður að hann vilji ekki fara til Portúgal vegna frænku sinnar sem sé búsett þar. Hún hafi hótað honum og hafi ímugust á honum vegna [...]. Um það vísar kærandi til framlagðra gagna um samskipti kæranda við félaga sinn sem hafi varað hann við því að koma til Portúgal. Kveður kærandi að það sé sambærilegt fyrir hann að fara til Portúgal og [...], þar sem hann þurfi að flýja fjölskyldu sína í báðum ríkjunum.

Í ljósi [...] kæranda, handleggsbrots og þunglyndis kveður kærandi að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi í því sambandi m.a. til 2. mgr. 36. gr. sömu laga, framlagðs bréfs sálmeðferðarfræðings, athugasemda læknis frá Göngudeild sóttvarna og læknisvottorðs frá Heilsugæslu Keflavíkur. Mikilvægt sé að kærunefnd horfi ekki of mikið til þess hversu vel kærandi hafi reynt að bera sig í viðtali hjá Útlendingastofnun. Þá vísar kærandi til 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og skyldu stjórnvalda til að tryggja að fram fari einstaklingsbundin greining á stöðu kæranda með aðstoð viðeigandi sérfræðinga. Að mati kæranda sé óvarlegt að ákvarða stöðu einstaklinga, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, út frá takmörkuðum og óljósum gögnum á borð við samskiptaseðla frá Göngudeild sóttvarna. Þá telji kærandi ómálefnalegt að meta það aðila í óhag komi ákveðnar upplýsingar ekki fram í gögnum máls, enda sé stjórnvöldum með beinum hætti falið í lögum að afla ákveðinna gagna, sbr. ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Þegar kærandi hafi sýnt fram á þörf á sérfræðiaðstoð sé stjórnvöldum með öllu óheimilt að færa ábyrgð á aðkomu sérfræðinga yfir á kæranda. Vísar kærandi í þessu sambandi jafnframt til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Fer kærandi því fram á að framkvæmt verði sálfræðilegt mat á andlegu ástandi hans og getu og að mats bæklunarskurðlæknis verði jafnframt aflað. Að öðrum kosti geri kærandi þá kröfu að hann verði metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu, enda hafi hann sérþarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.

Kærandi kveður að ótækt sé að beita heimild í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, heldur skuli taka mál hans til efnislegrar meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Kveður kærandi að reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, sem sett sé á grundvelli almennrar reglugerðarheimildar í 4. mgr. 36. gr. laganna, brjóti gegn lagaáskilnaðarreglu 2. málsl. 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Í reglugerðarbreytingunni megi finna skilyrði vegna sérstakra ástæðna sem hafi ekki stoð í settum lögum og gangi gegn ákvæðum laga um útlendinga. Þá fjallar kærandi í greinargerð sinni nánar um lögskýringargögn að baki ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga en samkvæmt þeim hafi íslenskum stjórnvöldum með sérstökum ástæðum verið eftirlátið mat og þau haft heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiði af sérstökum reglum. Þá verði stjórnvöld að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Að mati kæranda hafi stjórnvöld, við mat á sérstökum ástæðum, sett of ríkar kröfur um alvarleika aðstæðna umsækjenda og ástand í viðtökuríki. Vísar kærandi enn fremur til laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga, og lögskýringargagna að baki breytingarlögunum. Í ljósi markmiða laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna, beri að tryggja mannúðlega meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi en kærandi hafni því að sjónarmið um skilvirkni umsóknarferlisins og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins hafi nokkurt vægi við mat á sérstökum ástæðum. Við matið skuli litið til viðkvæmrar stöðu og þess hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki. Í lögskýringargögnunum komi skýrt fram að mat á sérstökum ástæðum sé ekki jafn strangt og t.d. mat Mannréttindadómstóls Evrópu við túlkun á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Þá rekur kærandi í greinargerð sinni aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Portúgal. Kveður kærandi að fjöldi umsækjenda í Portúgal hafi aukist undanfarin ár, álagið á hæliskerfið sé mikið og búsetuúrræði yfirfull. Kærandi sé í viðkvæmri stöðu vegna [...] og heilsufars og muni eiga erfitt uppdráttar í Portúgal, m.a. því þar búi fjölskyldumeðlimir hans sem hafi hótað honum. Því skuli taka umsókn kæranda til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Meðal framlagðra gagna eru skjöl frá Mannréttindanefnd [...] (e. [...] Human Rights Commission), [...] lögreglunni og dómstólum, læknisvottorð frá [...] spítala í [...] og heilsugæslu Reykjanesbæjar, niðurstaða röntgenrannsóknar, komunótur frá Göngudeild sóttvarna, niðurstöður skimunarprófs og stuðningsbréf frá [...] í ráðgjafateymi [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Portúgals á umsókn kæranda er byggð á 2. eða 3. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, þar sem kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja portúgölsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi einstæður og barnlaus karlmaður á [...]. Í framlögðum heilsufarsgögnum kæranda frá heilsugæslu Reykjanesbæjar og Göngudeild sóttvarna kemur m.a. fram að hann sé með minnkaða skyn- og hreyfigetu í vinstri framhandlegg vegna beinbrots sem ekki hafi verið gengið almennilega frá. Þá sýni hann einkenni vægs en langvarandi þunglyndis og hafi fengið lyf vegna þeirra. Samkvæmt niðurstöðu röntgenrannsóknar, dags. 9. janúar sl., greri úlnliðsbrot á vinstri handlegg kæranda með sveigju en ferskir beináverkar greindust ekki. Í ofangreindu bréfi [...] hjá [...] kemur m.a. fram að kærandi [...]. Samkvæmt bréfinu glími kærandi við tilfinningaleg og líkamleg áföll, áfallastreituröskun og óuppgerða sorg og missi, m.a. vegna félagslegrar höfnunar og ofbeldis. Hann glími þó ekki við sjálfsskaðandi hugsanir eða sjálfsmorðshugleiðingar. Kærandi hafi þá kveðið, í viðtölum hjá ofangreindum [...], að ættingjar hans í [...] og Portúgal vilji ráða hann af dögum.

Í viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun kemur m.a. fram að kærandi glími við svefnleysi og þunglyndi. Þá hafi hann verið [...] og sætt [...] í heimaríki á grundvelli [...] hans og meintra [...] á [...]. Hann hafi ekki komið til Portúgal en óttist að fara þangað vegna fjölskyldu sinnar sem hafi hótað honum vegna [...] hans.

Af framangreindu er ljóst að kærandi glímir m.a. við minnkaða skyn- og hreyfigetu í handlegg og andlega vanlíðan, m.a. vegna [...]. Með vísan til gagna málsins, þ. á m. framburðar kæranda og fyrirliggjandi heilsufarsgagna, er það þó mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að hann hafi slíkar sérþarfir að hann teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Portúgal

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Portúgal, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • ECRI Report on Portugal (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 2. október 2018);
  • Freedom in the World 2018 – Portugal (Freedom House, 28. maí 2018);
  • Portugal 2017 Human Rights Report (United States Department of State, 20. apríl 2018);
  • Asylum Information Database, Country Report: Portugal (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018);
  • Amnesty International Report 2017/18 - Portugal (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • [...];
  • Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal): https://e-justice.europa.eu.

Í gagnagrunni Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga, Asylum Information Database, kemur m.a. fram að portúgalska útlendingastofnunin og eftir atvikum innanríkisráðuneyti (p. Serviço de Estrangeiros e Fronteiras og Secretaria de Estado da Administração Interna) taki ákvarðanir varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd í Portúgal. Sé umsókn synjað eiga umsækjendur þess kost að bera synjunina undir stjórnsýsludómstóla (p. Tribunal Administrativo de Círculo de Lisboa eða Tribunais Administrativos e Fiscais) og verður niðurstöðum þeirra áfrýjað til æðri stjórnsýsludómstóla (p. Tribunais Centrais Administrativos eða Supremo Tribunal Administrativo) í samræmi við gildandi reglur þar um. Þá geta umsækjendur lagt fram viðbótarumsókn til portúgölsku útlendingastofnunarinnar eða eftir atvikum innanríkisráðuneytis séu nýjar ástæður eða breyttar aðstæður fyrir hendi í málum þeirra. Þá er Portúgal aðildarríki Evrópuráðsins og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Eiga umsækjandur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans. Umsækjendur njóta túlkaþjónustu við málsmeðferðina og er endurgjaldslaus lögfræðiaðstoð veitt á fyrsta stjórnsýslustigi sem og á kærustigi.

Portúgal er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir 2013/32/ESB og 2013/33/ESB vegna málsmeðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Meðan á hefðbundinni málsmeðferð stendur ber portúgölsku almannatryggingastofnuninni (p. Instituto da Segurana Social („ISS“)) að sjá umsækjendum fyrir viðhlítandi móttökuskilyrðum, þ. á m. húsnæði, fæði og mánaðarlegri framfærslu, s.s. vegna fatakaupa, samgangna og hreinlætisvara. Umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa aðgang að portúgalska atvinnumarkaðnum um 7-30 dögum eftir að umsókn hefur verið lögð fram. Þá eiga umsækjendur rétt á heilbrigðisþjónustu allt frá því að umsókn er lögð fram. Í þjónustunni felst m.a. bráðaþjónusta, nauðsynleg lyfjagjöf og önnur grunnheilbrigðisþjónusta, þ. á m. geðheilbrigðisþjónusta.

[...] Á vefsíðu Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu), kemur þó fram að alls hafi 48 hatursglæpir verið skráðir af portúgölsku lögreglunni árið 2017 en tölurnar eru ekki sundurliðaðar eftir grundvelli árása, s.s. [...] eða [...]. Þá liggur ekki fyrir hversu margir voru ákærðir eða sakfelldir á árinu vegna hatursglæpa. Í skýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttahyggju og umburðarleysi (e. European Commission Against Racism and Intolerance) um Portúgal kemur m.a. fram að í portúgalskri löggjöf sé lagt bann við hatursglæpum og mismunun á grundvelli kynþáttar.

Þá kemur fram á vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal) að tilkynningar til lögreglu vegna afbrota geti verið hvort sem er munnlegar eða skriflegar. Þá eigi vitni rétt á lögfræðiaðstoð hafi þau ekki næg fjárráð og útlendingar eigi rétt á túlkaþjónustu tali þeir ekki portúgölsku.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Með vísan til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda og umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Portúgal er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Portúgal, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda. Kveður hann m.a. að hann sé í viðkvæmri stöðu vegna [...] og líkamlegra og andlegra kvilla sem hann glími við. Þá óttist hann fjölskyldumeðlimi í Portúgal sem hafi hótað honum.

Af ofangreindum gögnum um aðstæður í Portúgal verður ráðið að kærandi eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi, bæði vegna andlegra og líkamlegra kvilla, þ.m.t. geðheilbrigðisþjónustu. Það er því mat kærunefndar að gögn málsins gefi ekki til kynna að kærandi glími við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð sé aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá er það mat nefndarinnar að ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varði heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Þá bera ofangreind gögn með sér að Portúgal uppfylli lágmarkskröfur um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd og málsmeðferð umsókna sem fram koma í tilskipunum 2013/32/ESB og 2013/33/ESB, þ. á m. um lögfræði- og túlkaþjónustu, húsnæði, fæði og framfærslu. Má jafnframt ráða af ofangreindum gögnum að óttist kærandi um öryggi sitt í Portúgal, s.s. vegna [...] eða [...], geti hann leitað til lögreglu eða annarra þar til bærra stjórnvalda sökum þess. Að mati kærunefndar bera fyrirliggjandi gögn því ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 21. nóvember 2018 ekki hafa tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 7. ágúst 2018.

Athugasemdir kæranda

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. mat stofnunarinnar á stöðu hans. Vísar kærandi í því sambandi til 6. tölul. 3. gr., 2. mgr. 23. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Óskar kærandi m.a. eftir því að stjórnvöld afli sérfræðimats á andlegri og líkamlegri heilsu hans.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. janúar sl., og viðtali stofnunarinnar við kæranda, dags. 21. nóvember sl., kemur fram að kærandi hafi verið upplýstur um rétt sinn til að hitta sálfræðing og/eða lækni og verið leiðbeint um framlagningu heilsufarsupplýsinga sem gætu haft þýðingu í máli hans. Í rökstuðningi Útlendingastofnunar kemur þá fram að framlögð heilsufarsgögn gæfu til kynna að kærandi glímdi m.a. við vægt þunglyndi og handleggsbrot sem ekki hefði verið meðhöndlað til fulls og var á því byggt við meðferð málsins. Þá kemur fram í vottorði læknis frá Göngudeild sóttvarna, dags. þann 17. ágúst 2018, að kærandi hafi gengist undir skyldubundna læknisskoðun skömmu eftir komu hans til landsins, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Í málinu liggur þá fyrir fjöldi gagna um líkamlegt og andlegt heilsufar kæranda og líðan, þ. á m. niðurstaða skimunarlista (e. Refugee Health Screener) sem kærandi gekkst undir hjá Útlendingastofnun. Í ljósi fyrirliggjandi gagna er það mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Með reglugerð nr. 276/2018, sem tók gildi 14. mars 2018, voru gerðar breytingar á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Líkt og áður segir kveður kærandi m.a. að framangreindar reglugerðarbreytingar gangi gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og því skuli litið fram hjá þeim við meðferð málsins.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við hana. Þá hefur kærunefnd endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands þann 4. ágúst 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann 7. ágúst 2018, sem fyrr segir. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Portúgals eigi síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa portúgölsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Portúgals með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Erna Kristín Blöndal                                               Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum