Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2020 Matvælaráðuneytið

Kórónaveira fannst ekki í minkum

Í rannsóknum sýnataka úr minkum á íslenskum minkabúum greindist enginn með SARS-CoV-2 veiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Skimunum Matvælastofnunar á öllum minkabúum er nú lokið. 

Upplýsingar hafa borist um stökkbreytt afbrigði kórónaveiru [SARS-CoV-2] úr minkum í fólk sem gæti ógnað öryggi bóluefna gegn veirunni. Með vísan til alvarleika málsins hóf Matvælastofnun undirbúning sýnatöku án tafar og beindi þeim tilmælum til íslenskra minkabænda að herða sóttvarnir á búunum og fylgjast með að einstaklingar með sjúkdómseinkenni væru ekki í návígi þeirra. Á Íslandi eru starfrækt níu minkabú sem eru staðsett á Suðurlandi, Suðvesturlandi og á Norðurlandi vestra með alls 15.000 eldislæðum. 

Skimunum hluta minka á öllum minkabúum er nú lokið. Matvælastofnun annaðist sýnatökur en Íslensk erfðagreining annaðist hraðgreiningu sýnanna en sýni voru einnig greind á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum. Rannsóknirnar leiddu í ljós neikvæðar niðurstöður sýna úr öllum minkabúum.

Mikilvægt er að verja minkabúin gegn smiti og því hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrirskipað tímabundnar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að SARS-CoV-2 berist í aliminka, skv. tillögu Matvælastofnunar. Auglýsing um aðgerðirnar var birt í Stjórnartíðindum13. nóvember síðastliðinn en þær eru taldar nauðsynlegar til þess að hindra útbreiðslu og til að afstýra hættu og tjóni af völdum sjúkdómsins. Í þeim felast m.a. hertar kröfur um persónulegar sóttvarnir starfsmanna, flutningur lifandi minka verður óheimill og ónauðsynlegar heimsóknir í minkahús bannaðar. Einnig verður sýningahald með minka bannað og því verða minkarnir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík ekki til sýnis á opnunartíma garðsins.  

Matvælastofnun og ráðuneytið munu áfram fylgjast grannt með þróun mála á minkabúum hérlendis og halda reglulegum vöktunum áfram á íslenskum minkabúum á meðan hættu- eða neyðarstig almannavarna er í gildi. Þá mun sóttvarnarlæknir boða starfsmenn minkabúa í skimanir í samstarfi við heilbrigðisstofnanir. 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum