Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 258/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. ágúst 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 258/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20050037

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. maí 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. maí 2020, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 19. nóvember 2019. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu m.a. verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Rúmeníu. Þann 29. nóvember 2019 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Rúmeníu, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá rúmenskum yfirvöldum, dags. 10. desember 2019, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 8. maí 2020 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 12. maí 2020 og kærði kærandi ákvörðunina þann 26. maí 2020 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 12. júní 2020 ásamt fylgigögnum. Viðbótarathugasemdir kæranda og viðbótargögn bárust þann 25. júní 2020. Frekari gögn og upplýsingar bárust frá kæranda 1. og 23. júlí og 14. ágúst 2020.

Kærandi óskaði eftir því að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins ef kærunefnd teldi upplýsingar hans ekki fullnægjandi. Taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Að mati nefndarinnar, í ljósi gagna málsins, eru málsatvik með þeim hætti að viðtal við kæranda hefði ekki verið til þess fallið að varpa frekara ljósi á málið. Kærandi nýtur aðstoðar löglærðs talsmanns og hefur fengið að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í gegnum hann, m.a. í greinargerð, viðbótarathugasemdum og með framlagningu gagna.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að rúmensk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Rúmeníu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Rúmeníu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Um málavexti vísar kærandi í greinargerð sína til Útlendingastofnunar, dags. 10. janúar 2020, en þar kemur m.a. fram að hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að hann hafi flúið frá Grikklandi, gengið yfir til Serbíu og þaðan farið til Rúmeníu þar sem fingrafar hans hafi verið tekið. Hann hafi greint fá því að hafa dvalið í Rúmeníu í fimm daga áður en hann hafi verið sendur aftur til Serbíu. Hann hafi í framhaldinu snúið aftur til Rúmeníu þar sem hann hafi dvalið í tuttugu daga við slæmar aðstæður úti í skógi. Kærandi hafi mótmælt endursendingu til Rúmeníu en hann hafi greint frá að ekkert flóttamannakerfi sé að finna þar í landi. Greindi hann frá því að flóttafólki stæði engin aðstoð til boða og aðstæður væru mjög slæmar og erfiðar. Honum hafi ekki verið veitt húsaskjól, matur, framfærsla eða lögfræðiþjónusta. Kvaðst kærandi ekki geta snúið aftur til Rúmeníu þar sem hann muni verða sendur til Serbíu þar sem ástandið sé verra en í Rúmeníu. Þá greindi kærandi frá því að hafa upplifað fordóma í Rúmeníu þar sem sígauni hafi stolið síma hans og lögreglan hafi ekki aðstoðað hann. Hann hafi ekki haft aðgang að heilbrigðiskerfinu í Rúmeníu þrátt fyrir að hafa þarfnast heilbrigðisþjónustu. Þá greindi kærandi frá því að hafa verið skotinn í fótinn í Afganistan og hann verki mikið í fótinn.

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar og telur kærandi rannsókn stofnunarinnar á stöðu hans í Rúmeníu vera ófullnægjandi. Kærandi gerir m.a. athugasemd við fullyrðingar Útlendingastofnunar um að honum standi til boða að leggja fram viðbótarumsókn hjá rúmenskum yfirvöldum eða fara með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Þá gerir kærandi jafnframt athugasemd við það mat stofnunarinnar að fram fari einstaklingsbundið mat á öllum umsóknum um alþjóðlega vernd í Rúmeníu og að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu veitt viðunandi úrræði til að leita réttar síns. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að allt bendi til þess að rúmensk yfirvöld veiti fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til ríkja þar sem einstaklingar kunni að eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra eða frelsi ógnað. Þá gerir kærandi athugasemd við það mat stofnunarinnar að rúmensk stjórnvöld uppfylli skyldur sínar varðandi veitingu lögfræðiþjónustu til handa umsækjendum um alþjóðlega vernd. Vísar kærandi til þess að fyrir liggi að hann sé kominn með lokaniðurstöðu í máli sínu í Rúmeníu og hans bíði endursending til Afganistan. Þá vísar kærandi til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd sem snúi aftur til Rúmeníu og neitað hafi verið um alþjóðlega vernd á stjórnsýslustigi og hafi ekki leitað réttar síns fyrir dómstólum, geti ekki haldið málsmeðferð sinni áfram. Þessir umsækjendur geti einungis lagt fram nýja umsókn. Umsækjanda um alþjóðlega vernd verði þó ekki heimiluð dvöl í Rúmeníu hafi hann gert framangreinda kröfu áður. Telur kærandi Útlendingastofnun hafa vanrækt rannsóknarskyldu sína með því að afla ekki upplýsinga frá stjórnvöldum í Rúmeníu og kanna stöðu kæranda með fullnægjandi hætti, en ekki liggi fyrir hvort kærandi hafi gert slíka kröfu áður. Vísar kærandi til þess að þeir umsækjendur sem ekki uppfylli skilyrði alþjóðlegrar verndar séu meðhöndlaðir sem útlendingar og séu án alls réttar til að búa í landinu. Yfirvöldum sé heimilt að færa þá í gæsluvarðahald og varðhaldsmiðstöðvar á meðan þeir bíða brottvísunar úr landinu. Vísar kærandi til þess að upp hafi komið tilfelli í varðhaldsmiðstöðvum þar sem umsækjendur hafi verið beittir ofbeldi og niðurlægðir. Skortur á túlka- og lögfræðiþjónustu í varðhaldsmiðstöðvum sé jafnframt viðvarandi vandamál. Þá gerir kærandi athugasemd við að umfjöllun Útlendingastofnunar um aðstæður í Rúmeníu byggist einungis á lagalegum réttindum og formlegu aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd að þjónustu og aðstoð, en ekki hinum raunverulegu réttindum og aðgengi að þjónustu sem sé miklum takmörkunum háð. Gerir kærandi athugasemd við þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að á meðan mál umsækjenda um alþjóðlega vernd sé til meðferðar í Rúmeníu sé umsækjendum veitt húsnæði, framfærsla og aðgengi að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu sé hennar þörf. Vísar kærandi til þess að framfærsla sem umsækjendur um alþjóðlega vernd fái frá rúmenskum yfirvöldum sé talin verulega lág miðað við framfærslukostnað þar í landi. Þá sé félags-, sálfræði- og heilbrigðisþjónusta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á vegum ríkisins ekki talin viðunandi en það hafi leitt til þess að margir hafi reitt sig á aðstoð frá frjálsum félagasamtökum. Umsækjendur búi í húsnæðisúrræðum á víð og dreif um Rúmeníu, þar sem aðstæður séu alla jafna slæmar. Að lokum gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun skuli vísa til þess að umsækjendur sem lagt hafi fram viðbótarumsókn geti leitað til félagasamtaka, hjálparsamtaka og trúarlegra aðila sem reyni eftir fremsta megni að aðstoða fólk þegar um sé að ræða aðgengi að grundvallarréttindum á borð við húsnæði og lágmarksframfærslu. Telur kærandi að stofnunin hafi ekki gengið úr skugga um að þessir tilteknu umsækjendur muni njóta nokkurrar aðstoðar.

Þá gerir kærandi athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að hann sé ekki einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Við mat á sérstaklega viðkvæmri stöðu telur kærandi að mikilvægt sé að tekið sé mið af frásögn hans af þeim erfiðleikum sem hann hafi gengið í gegnum síðustu ár, andlegum vandkvæðum hans sökum alls sem hann hafi upplifað og líkamlegum veikindum hans. Hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé í lífshættu í heimaríki sínu, þar sem hann hafi sætt hótunum og verið beittur ofbeldi. Þá hafi hann jafnframt greint frá því að þeir atburðir sem hafi valdið því að hann hafi flúið heimaríki sitt og bróðurmissir hans hafi haft svo mikil áhrif á andlega heilsu hans að hann geti ekki lýst því með orðum. Hann eigi í erfiðleikum með svefn, auk þess sem hann finni fyrir þunglyndi. Þá hefur hann greint frá því að hann hafi verið skotinn í fótinn með þeim afleiðingum að hann finni mikið til, eigi erfitt með gang, erfitt með að sitja og standa upp og geti ekki sofið á annarri hliðinni. Hér á landi hafi hann átt í erfiðleikum með að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu og nauðsynlega meðferð vegna verkja. Í ljósi þess gerir kærandi kröfu um að kærunefnd hlutist til um að mat verði lagt á það að hve miklu leyti byssukúlurnar í líkama hans skerði lífsgæði hans og að hve miklu leyti þær hindra hann í athöfnum hins daglega lífs.

Um aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks í Rúmeníu vísar kærandi í greinargerð sína til Útlendingastofnunar, dags. 10. janúar 2020, en þar kemur m.a. fram að túlkaþjónusta í umsóknarferlinu um alþjóðlega vernd hafi hingað til verið af mjög skornum skammti. Þá eigi umsækjendur lögum samkvæmt rétt á aðgengi að móttökumiðstöð um leið og þeir hafi lýst yfir vilja sínum um að leita verndar en raunin sé sú að umsækjendur fái ekki aðgang að móttökumiðstöð fyrr en umsókn hefur verið skráð. Sú staða hafi skapast að umsækjendur hafi ekki fengið framfærslu frá yfirvöldum fyrr en um viku eftir að umsókn um alþjóðlega vernd hafi verið skráð. Þá sé mikið um áreiti og glæpi gegn flótta- og farandfólki í Rúmeníu og yfirvöld neiti ítrekað að rannsaka atvik af þessu tagi sem hatursglæpi.

Kröfu sína um efnismeðferð byggir kærandi í fyrsta lagi á því að mál hans skuli tekið til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til þess að íslenskum stjórnvöldum beri að leggja heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður hans og þær afleiðingar sem endursending gæti haft í för með sér fyrir hann, líkamlegar og andlegar, auk þess að meta hvort kærandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, sbr. 25. gr. sömu laga. Þá fjallar kærandi almennt um og gerir grein fyrir inntaki og túlkun á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum. Kærandi gerir athugasemd við beitingu reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, en hann telji reglugerðina skorta lagastoð. Auk þess bendir kærandi á að þau viðmið sem sett séu fram í ákvæði 32. gr. a reglugerðarinnar séu nefnd í dæmaskyni og því sé þar ekki að finna tæmandi talningu á þeim þáttum sem taka beri tillit til við mat á því hvort sérstakar ástæður séu til staðar. Telur kærandi að verulegar líkur séu á að hann muni eiga mjög erfitt uppdráttar í Rúmeníu. Varðandi mat á því hvenær einstaklingur teljist eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vísar kærandi til úrskurða kærunefndar í málum nr. 550/2017, 552/2017, 583/2017 og 586/2017. Telur kærandi að með tilliti til ástands flóttamannamála í Rúmeníu, þeirrar mismununar sem hann muni mæta í Rúmeníu, skorts á heilbrigðisþjónustu, slæms húsakosts, skorts á atvinnu, líkinda á að verða gert að sæta varðhaldi og sérstaklega viðkvæmrar stöðu hans séu horfur hans svo slæmar að ekki sé unnt að endursenda hann í slíkar aðstæður. Telur kærandi að hann muni verða fyrir alvarlegri mismunun í Rúmeníu líkt og 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kveður á um.

Þá kemur fram í greinargerð að vegna þess síbreytilega ástands sem nú sé uppi vegna Covid-19 faraldursins telji kærandi rétt að kærunefnd leggi jafnframt, með hliðsjón af áhrifum og afleiðingum faraldursins, mat á hvort taka skuli umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Krafa kæranda er í öðru lagi reist á því að ótækt sé að beita heimild c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem kærandi njóti verndar 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til þess að íslenska ríkið sé bundið af grundvallarreglunni um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement) samkvæmt skuldbindingum í alþjóðlegum mannréttindasamningum og eftir viðurkenndum grundvallarreglum þjóðaréttar. Vísar kærandi til þess að það liggi fyrir að hann hafi fengið lokasynjun umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd í Rúmeníu og hann standi því að öllum líkindum frammi fyrir flutningi til Afganistan þar sem honum standi ógn af talibönum. Þá telur kærandi að sú framkvæmd rúmenskra stjórnvalda að setja umsækjendur um alþjóðlega vernd í varðhald þegar tekin hafi verið ákvörðun um að brottvísa þeim frá landinu sé ómannúðleg og vanvirðandi meðferð. Telur kærandi að íslensk stjórnvöld þurfi að fara fram á einstaklingsbundnar tryggingar fyrir því að hann verði ekki sendur áfram til Afganistan en að öðrum kosti taka mál hans til efnislegrar meðferðar hér á landi. Telur kærandi að endursending hans til Rúmeníu teljist vera brot á 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og brot gegn grundvallarreglu þjóðarréttar um non-refoulement. Þar að auki telur kærandi að ákvörðun um að senda hann til Rúmeníu brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Í viðbótarathugasemdum kæranda andmælir hann mati Útlendingastofnunar um að stofnunin telji ekkert koma fram í komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 18. desember 2019 til 15. janúar 2020, sem sé til þess fallið að breyta fyrri afstöðu stofnunarinnar um að hann teljist ekki vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu sbr. 6. tölul 3. gr. laga um útlendinga. Þá andmælir kærandi því mati stofnunarinnar að ekki séu forsendur til þess að afturkalla ákvörðun í máli hans. Telur kærandi mikilvægar upplýsingar um heilsufarslega stöðu hans hafi komið fram í umræddum komunótum sem nauðsynlegt hafi verið að skoða samhliða öðrum heilsufarsupplýsingum sem lagðar voru fram. Vísar kærandi til þess að stjórnvöldum beri, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að líta til allra gagna málsins í því skyni að upplýsa mál nægjanlega áður en ákvörðun sé tekin. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni á fullnægjandi hátt. Þá gerir kærandi athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á endursendingu hans til Rúmeníu í miðjum Covid-19 heimsfaraldri. Vísar kærandi til þess að í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu með vísan til Covid-19 faraldursins að rúmensk yfirvöld hafi gert nauðsynlegar ráðstafanir í ljósi aðstæðna og að óhætt væri að flytja kæranda til Rúmeníu. Þá hafi stofnunin vísað til þess að opnað yrði fyrir flutning á milli ríkja eftir 14. maí 2020 en samkvæmt upplýsingum frá rúmenskum yfirvöldum, dags. 10. júní 2020, sé ljóst að umsækjendur sem fengið hafi lokasynjun í Rúmeníu og bíði endursendingar til heimaríkis verði ekki fluttir til Rúmeníu eins og staðan sé núna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Rúmeníu á umsókn kæranda er byggð á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja rúmensk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Rúmeníu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Rúmeníu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2019 Human Rights Report – Romania (United States Department of State, 11. mars 2020);
  • Human Rights in Europe – Review of 2019 (Amnesty International, 16. apríl 2020);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Romania (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Asylum Information Database, Country Report: Romania (European Council on Refugees and Exiles, 29. apríl 2020);
  • Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2018 (European Asylum Support Office, 24. júní 2019);
  • UNHCR Submission on Romania: 29th UPR session (United Nations High Commissioner for Refugees, janúar 2018);
  • Concluding observations on the fifth periodic report of Romania (United Nations Human Rights Committee, 11. desember 2017);
  • Concluding observations on the second periodic report of Romania (United Nations Committee against Torture, 5. júní 2015);
  • ECRI Report on Romania (European Commission against Racism and Intolerance, 3. júní 2014);
  • Freedom in the World 2019 – Romania (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Information Sheet 8 April 2020: COVID19 Measures Related to Asylum and Migration Across Europe (European Council on Refugees and Exiles, 8. apríl 2020);
  • Upplýsingar af vefsíðu eftirlitsstofnunar útlendingamála í Rúmeníu (http://www.igi.mai.gov.ro, sótt 1. júlí 2020);
  • Upplýsingar af vefsíðu Flóttamannaráðs Rúmeníu (http://cnrr.ro, sótt 7. júlí 2020),
  • Upplýsingasíða vegna Covid-19 faraldursins í Rúmeníu (http://stirioficiale.ro, sótt 6. júlí 2020),
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 20. ágúst 2020) og
  • Upplýsingasíða Sóttvarnarstofnunar Evrópu (https://www.ecdc.europa.eu/en/cases-2019-ncov-eueea, sótt 20. ágúst 2020).

Samkvæmt framangreindri skýrslu European Council on Refugees and Exciles (ECRE) geta einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd á landamærum Rúmeníu eða á rúmensku yfirráðasvæði ef þeir eru þegar komnir inn í landið. Eftirlitsstofnun útlendingamála (r. Inspectoratul General pentru Imigrari) ber ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd í gegnum rúmensku útlendingastofnunina (r. Directia Azil si Integrare). Þessar tvær stofnanir sjá einnig um rekstur móttökumiðstöðva fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Það geta liðið nokkrir dagar frá því að umsókn um alþjóðlega vernd er lögð fram þar til hún er skráð en hægt er að leggja fram umsókn á fleiri stöðum en hjá rúmensku útlendingastofnuninni, m.a. hjá lögregluyfirvöldum. Þegar búið er að skrá umsóknina er umsækjandi boðaður í fyrsta viðtal hjá rúmensku útlendingastofnuninni þar sem fengnar eru ákveðnar grunnupplýsingar svo sem varðandi auðkenni, fjölskyldumeðlimi og ferðaleið til Rúmeníu. Að því loknu er málinu ákveðinn farvegur og málinu komið til fulltrúa sem tekur annað viðtal og ákvörðun tekin í framhaldi af því. Fái umsækjandi neikvæða niðurstöðu getur hann kært hana til héraðsdóms (r. Judecatorie Sectia Civila, materie: Contencios Administrativ si Fiscal) innan 10 daga frá birtingu ákvörðunar. Dómi héraðsdóms er hægt að áfrýja til stjórnsýsludómstóls (r. Tribunal Sectia de Contencios Administrativ si Fiscal).

Í framangreindri skýrslu ECRE kemur jafnframt fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem fengið hafa synjun á umsókn sinni hjá rúmensku útlendingastofnuninni eða dómstólum, geti lagt fram, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Þá kemur fram að ef umsækjandi yfirgefur Rúmeníu meðan umsókn hans er til meðferðar og fer til annarra ríkja innan Evrópusambandsins geti hann óskað eftir því að málinu verði haldið áfram ef hann gerir það innan 9 mánaða frá því að ákvörðun um að loka málinu var tekin. Ef 9 mánaða tímamarkinu er lokið er litið á umsóknina sem viðbótarumsókn. Þegar viðbótarumsókn hefur verið skráð er umsækjanda heimilt að dvelja í Rúmeníu í 5 daga en á því tímabili er ákvarðað um hvort að skilyrði séu uppfyllt til þess að ný málsmeðferð hefjist. Umsækjanda verður ekki heimiluð fyrrgreind dvöl í Rúmeníu ef hann hefur lagt fram viðbótarumsókn áður en engin takmörk eru þó á því hversu oft hægt er að leggja fram slíka umsókn. Þá verður umsækjanda ekki heimiluð dvöl ef gögn málsins sýna fram á að viðbótarumsóknin sé einvörðungu gerð til þess að koma í veg fyrir flutning umsækjanda frá Rúmeníu. Þrátt fyrir þessa framkvæmd er fyrirvari um að framkvæmdin gildi einvörðungu ef ekki sé um að ræða brot á meginreglunni um non-refoulement. Ef umsækjanda er neitað um nýja málsmeðferð getur hann kært ákvörðunina til héraðsdóms (r. Judecatorie Sectia Civila, materie: Contencios Administrativ si Fiscal) innan 10 daga frá því að hann fékk niðurstöðuna. Þá eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Rúmenía er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Af framangreindri skýrslu ECRE er ljóst að umsækjendum um alþjóðlega vernd er veitt húsaskjól í móttökumiðstöðvum. Þá kemur jafnframt fram að ekki hafi komið upp sú staða að umsækjendum um alþjóðlega vernd hafi verið neitað um húsaskjól vegna skorts á plássi í móttökumiðstöðvum. Í lok árs 2019 hafi 575 einstaklingar dvalið í móttökumiðstöðvum en pláss sé fyrir 900 einstaklinga þar. Þá geta umsækjendur um alþjóðlega vernd óskað eftir framfærslu. Í desember 2019 fengu einstæðir umsækjendur 480 RON sem jafngilti 104 evrum mánaðarlega. Sú upphæð eigi að nýtast í matarinnkaup, fatakaup og vasapening. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu ásamt bráðaþjónustu.

Af framangreindri skýrslu ECRE er ljóst að rúmensk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Umsækjendum um alþjóðlega vernd í Rúmeníu er tryggð endurgjaldslaus lögfræðiaðstoð þegar umsókn er til meðferðar hjá rúmensku útlendingastofnuninni. Þá stendur umsækjendum til boða endurgjaldslaus lögfræðiráðgjöf á kærustigum málsins og geta umsækjendur jafnframt átt rétt á að fá réttaraðstoð.

Samkvæmt framangreindri skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna geta umsækjendur um alþjóðlega vernd í Rúmeníu sætt ferðatakmörkunum og varðhaldi við sérstakar aðstæður. Umsækjendur sem ekki uppfylla skilyrði alþjóðlegrar verndar geta sætt varðhaldi á meðan þeir bíða brottvísunar úr landinu. Grundvöllur varðhalds er endurskoðaður reglulega og varðhald skal ekki standa lengur en í sex mánuði nema í sérstökum tilvikum þar sem heimilt er að halda umsækjanda í varðhaldi í allt að 18 mánuði. Samkvæmt framangreindri skýrslu ECRE hafa þeir einstaklingar sem sæta varðhaldi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Þær skýrslur sem kærunefnd hefur skoðað bera þó með sér að óhófleg beiting varðhalds gagnvart umsækjendum um alþjóðlega vernd hafi verið gagnrýnd og hefur nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (e. United Nations Committee against Torture) hvatt rúmensk yfirvöld til að hætta að beita þessu úrræði.

Í framangreindri skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna kemur fram að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi greint frá tilvikum þar sem flótta- og farandfólk í Rúmeníu hafi sætt áreiti og verið fórnarlömb glæpa. Ekki séu öll slík atvik tilkynnt sökum ótta fórnarlamba, skorts á upplýsingum, ófullnægjandi stuðningsþjónustu og lélegs bótakerfis. Rúmensk yfirvöld hafa unnið með Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og öðrum mannúðarsamtökum við að aðstoða og vernda flóttamenn, umsækjendur um alþjóðlega vernd, ríkisfangslausa einstaklinga og aðra einstaklinga sem mögulega þarfnast alþjóðlegrar verndar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] ára karlmaður. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi m.a. frá því að hann hafi orðið fyrir árás í heimaríki sínu þar sem hann hafi verið skotinn í fótinn. Hann glími við verki vegna þess og eigi erfitt með gang. Þá greindi kærandi frá því að andleg heilsa hans sé fín en hann eigi erfitt með svefn. Kærunefnd hefur borist nokkur fjöldi heilsufarsgagna við meðferð málsins, gögn bæði frá Göngudeild sóttvarna og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þá lagði kærandi jafnframt fram vottorð frá spítala í Afganistan ásamt enskri þýðingu þar sem fram kemur að hann hafi fengið meðhöndlun vegna skotáverka.

Í framlögðum gögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 18. desember 2019 til 15. janúar 2020, kemur m.a. fram að röntgenmyndataka hafi sýnt að kærandi sé með a.m.k. tvær byssukúlur á vinstra mjaðmagrindarsvæði. Þá kemur fram að kærandi fái verki vinstra megin í mjaðmagrind með geislun niður í vinstra læri einkum ef kalt sé. Þetta valdi ekki svo miklum óþægindum að það sjáist við gang en hann finni til við vissar hreyfingar. Í gögnum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 29. janúar 2020, kemur m.a. fram að mál kæranda hafi verið tekið fyrir á morgunfundi bæklunarlækna á Landspítala. Það sé mat lækna að líklegt sé að einkenni kæranda megi rekja til áverkans sjálfs, þ.e. vefjaskaða sem kúlan hafi valdið á leið sinni frekar en að kúlan sé að valda honum einkennum. Venjan sé að leyfa aðskotahlutum sem þessum að sitja og aðgerð sé líklegri til að valda honum meira tjóni en hugsanlegur ávinningur af meðferð. Ekki sé því mælt með skurðaðgerð. Í samskiptaseðli frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, dags. 2. júní 2020, kemur m.a. fram að kærandi sé með byssukúlu í vinstri rasskinn sem standi til að fjarlægja en Göngudeild sóttvarna fylgi málinu eftir. Þá kemur fram að kærandi hafi fengið ávísað verkjalyfjum. Í læknisvottorði frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, dags. 24. júní 2020, kemur fram að kærandi þurfi að fara í tölvusneiðmynd til þess að ákveða meðferðarvalmöguleika. Í framlögðum heilsufarsgögnum frá Röntgen Domus, dags. 10. júlí 2020, kemur fram að kærandi hafi farið í tölvusneiðmynd með skuggaefni í æð. Þar hafi sést málm aðskotahlutir vinstra megin í mjöðm og lítilsháttar þykknun í aðlægum vef. Að öðru leyti hafi lifur, bris, milta, nýrnahettur og nýru verið innan eðlilegra marka auk þess sem engar eitlastækkanir hafi greinst. Jafnframt kemur fram í samskiptaseðli Heilsugæslu Keflavíkur, dags. 11. ágúst 2020, að kæranda hafi verið ávísað krampastillandi lyfi og svefntöflum. Í gögnum frá Göngudeild sóttvarna má sjá að kærandi hefur hitt sálfræðing á göngudeildinni í tvígang, þann 6. apríl og 11. maí 2020. Í nótum sálfræðings, dags. 6. apríl 2020, kemur m.a. fram að kærandi hafi greint frá ótta og kvíða og hann eigi erfitt með að sofa.

Í greinargerð kæranda er óskað eftir því að kærunefnd hlutist til um að mat verði lagt á það að hve miklu leyti byssukúlurnar í líkama kæranda skerði lífsgæði hans og að hve miklu leyti þær hindra hann í athöfnum hins daglega lífs. Við meðferð málsins var kæranda leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 9. desember 2019 um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem kærandi telji hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun. Þá var kæranda jafnframt leiðbeint með tölvupósti kærunefndar þann 6. júlí 2020 um framlagningu frekari gagna í málinu. Við meðferð málsins hefur kærandi lagt fram gögn um heilsufar sitt frá Göngudeild sóttvarna og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Ekkert bendir til þess að kærandi sé í sérstökum áhættuhópi vegna Covid-19 faraldursins. Það er mat kærunefndar að mál kæranda sé nægjanlega upplýst er varðar heilsufar kæranda og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður hans og ekkert sem bendi til þess að frekari gögn um heilsufar hans geti haft áhrif á niðurstöðu í málinu, m.a. í ljósi þess aðbúnaðar og stuðnings sem kærandi má vænta í viðtökuríki.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Kærunefnd telur að þó að ljóst sé að kærandi glími við verki og eftirköst skotárásar benda gögn málsins ekki til þess að það jafnist á við mikil og alvarleg veikindi í skilningi 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Ennfremur, samkvæmt gögnum málsins, er engin meðferð í boði hér á landi önnur en verkjastillandi lyf en læknar töldu skurðaðgerð ekki koma til greina. Þá telur nefndin jafnframt að heilbrigðisaðstæður kæranda geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í viðtökuríki verður ráðið að þeir eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Kærandi hefur m.a. borið fyrir sig að hann hafi upplifað fordóma í Rúmeníu þar sem sé mikið um glæpi og hann hafi verið rændur. Þá sé líklegt að honum verði gert að sæta varðhaldi við komuna til Rúmeníu. Það er mat kærunefndar að þau viðmið sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga eigi ekki við í málinu. Það er mat kærunefndar að framangreindar landaupplýsingar beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þótt framangreindar skýrslur um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Rúmeníu beri með sér að varðhaldi geti verið beitt á meðan umsækjendur bíða eftir brottvísun þá lítur kærunefnd til þess að Rúmenía hefur fullgilt og tekið upp í landslög móttökutilskipun Evrópusambandsins nr. 2013/33EU. Þá er Rúmenía bundin af ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, þ.m.t. 5. gr. sáttmálans þar sem skorður eru settar við því í hvaða tilvikum heimilt er að svipta menn frelsi. Eins og áður hefur komið fram er grundvöllur varðhalds skoðaður reglulega og hafa þeir einstaklingar sem sæta varðhaldi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Þá er það mat kærunefndar að kærandi geti leitað ásjár rúmenskra yfirvalda, verði hann fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar þar í landi.

Við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda hljóti efnismeðferð hér á landi hefur kærunefnd litið til þeirra aðstæðna sem hafa verið og eru uppi vegna Covid-19 faraldursins. Fjölmörg ríki hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða til þess að sporna gegn útbreiðslu veirunnar. Hafa aðgerðirnar m.a. falist í ferðatakmörkunum og ferðabönnum. Í því sambandi hafa mörg aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins á einhverjum tímapunkti lokað fyrir endursendingar einstaklinga á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Var það m.a. gert hér á landi yfir ákveðið tímabil en óvissa ríkir um það hvenær framkvæmd endursendinga verði komin í sama horf og áður en Covid-19 faraldurinn skall á. Þá gætu íslensk stjórnvöld lokað landamærum hér á landi með skömmum fyrirvara ef ske kynni að faraldurinn taki uppsveiflu. Sömu sögu er að segja um önnur aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins. Í gögnum málsins er tölvupóstur frá rúmenskum yfirvöldum, dags. 10. júní 2020, þar sem fram kemur m.a. að enn sé lokað fyrir endursendingar einstaklinga er fengið hafa lokasynjun í Rúmeníu og bíði endursending til heimaríkis. Yfirvöld í Rúmeníu hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða til þess að sporna við útbreiðslu veirunnar, m.a. með lokun landamæra, einangrun og sóttkví vissra einstaklinga, samkomubanni auk þess sem skólahald lagðist af. Á vefsíðu eftirlitsstofnunar útlendingamála í Rúmeníu kemur fram að ýmsar takmarkanir séu á starfsemi stofnunarinnar tímabundið en umsóknir um alþjóðlega vernd og viðbótarumsóknir séu í afgreiðslu. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að líta svo á að þær takmarkanir sem við líði eru vegna Covid-19 faraldursins séu tímabundnar. Aflétting vissra takmarkana er hafin í Rúmeníu og hafa rúmensk yfirvöld t.a.m. gefið út lista ríkja þaðan sem einstaklingar, svo lengi sem þeir sýna engin einkenni Covid-19, geta komið til Rúmeníu án þess að þurfa sæta einangrun eða sóttkví. Ísland er meðal þeirra ríkja.

Af upplýsingasíðu Johns Hopkins háskólans í Bandaríkjunum og vefsíðu Sóttvarnarstofnunar Evrópu má ráða að viðtökuríkið glími nú við nokkurn vanda við að ná niðurlögum Covid-19 faraldursins. Af skýrslum er þó ljóst að fyrir tilkomu faraldursins hafi móttaka umsækjenda um alþjóðlega vernd og málsmeðferð þeirra uppfyllt þau skilyrði sem gerð eru. Að mati kærunefndar bendir ekkert til þess að það ástand sem nú ríki, sem kærunefnd hefur ekki forsendur til að telja annað en tímabundið, komi til með að hafa teljandi áhrif á getu eða vilja viðtökuríkisins til að taka á móti og afgreiða mál kæranda þar í landi þegar takmörkunum verður aflétt og veita honum nauðsynlegan stuðning og viðeigandi aðbúnað á meðan mál hans er þar til meðferðar.

Í því sambandi er rétt að árétta að Dyflinnarreglugerðin gerir ráð fyrir því að samstarfsríkin hafi almennt sex mánuði frá því að lokaákvörðun er tekin um kæru umsækjanda um alþjóðlega vernd til að flytja umsækjanda til viðtökuríkis, sbr. 1. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar.

Þá lítur kærunefnd einnig til þess að skv. 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að fresta flutningi á umsækjanda ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hans eða ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Er það mat kærunefndar að tímabundnar takmarkanir á endursendingum til Rúmeníu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geti ekki, eins og hér stendur á, leitt til þess að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi hefur kærunefnd sérstaklega litið til sterkra innviða viðtökuríkisins og þess frests sem aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins hafa til að endursenda umsækjendur til viðtökuríkis og fjallað var um hér að framan.

Þá er það jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Vegna tilvísunar í greinargerð kæranda til úrskurða kærunefndar í málum KNU17080037 og KNU17070049 frá 10. október 2017 og úrskurða KNU17080006 og KNU17070041 frá 24. október 2017, tekur kærunefnd fram að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda í þessu máli við stöðu kærenda í framangreindum úrskurðum enda sé ekki um sömu viðtökuríki að ræða auk þess sem aðstæður þeirra séu einnig ólíkar að öðru leyti.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda og á grundvelli heildarmats á áhrifum Covid-19 faraldursins á aðstæður hans er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2 mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 9. desember 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 19. nóvember 2019.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstóllinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn sé frelsissviptur, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Rúmeníu er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda séu ekki slíkar að vegna stöðu hans sem umsækjanda um alþjóðlega vernd í viðtökuríki verði endursending hans þangað talin ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð.

Áður hefur verið fjallað um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í viðtökuríki, þ.m.t. möguleika umsækjenda um alþjóðlega vernd til að fá ákvarðanir um synjun verndar endurskoðaðar hjá yfirvöldum. Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í viðtökuríki sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða það endursent til ríkja þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þeirra og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess að meðferð stjórnvalda viðtökuríkis á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður einstaklinga. Þótt fyrir liggi að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd telur kærunefnd að gögn málsins gefi ekki til kynna að endursending kæranda til viðtökuríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Rúmeníu, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir við hina kærðu ákvörðun

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. við mat Útlendingastofnunar á viðkvæmri stöðu hans og við beitingu og lagastoð reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.

Kærandi telur að tilefni sé til þess að kærunefnd endurskoði mat Útlendingastofnunar er varðar sérstaklega viðkvæma stöðu kæranda, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Af þessu tilefni vill kærunefnd árétta að ákvörðun um hvort umsækjandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga snýst um það hvort þörf sé á sérstökum stuðningi við umsækjanda í gegnum umsóknarferlið og á meðan á dvöl hans stendur hér á landi. Í 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur m.a. fram að við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun tryggja, eins fljótt og kostur er, að fram fari, með aðstoð viðeigandi sérfræðinga, einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Sé hann í slíkri stöðu skal stofnunin meta hvort hann hafi einhverjar sérþarfir, t.d. þörf á tiltekinni heilbrigðisþjónustu. Þá er tekið fram í 2. mgr. sama ákvæðis að ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga um andmælarétt, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. og um stjórnsýslukæru og viðeigandi ákvæði I. og IX. kafla laga um útlendinga gilda ekki um ákvörðun um sérstaklega viðkvæma stöðu skv. 1. mgr. og að skilgreining á stöðu skv. 1. mgr. hafi ekki önnur réttaráhrif en þau sem sérstaklega er getið í lögum eða reglugerð. Kærunefnd telur því ljóst að mat skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga fari fram hjá Útlendingastofnun, sé ekki sjálfstætt kæranlegt til kærunefndar. Þá er ljóst að fyrir utan tilvísun til sérstaklegrar viðkvæmrar stöðu fylgdarlausra barna í 6. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga er hvergi vikið að réttaráhrifum þess að einstaklingur teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu á grundvelli 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd leggur áherslu á að ákvörðun um hvort umsækjandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu er annað en mat á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjanda þó svo að þessi hugtök skarist nokkuð. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á þeim einstaklingsbundnu aðstæðum kæranda sem áhrif gætu haft á mat á því hvort rétt sé að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar hér á landi.

Vegna athugasemda kæranda í greinargerð um beitingu ákvæða 32. gr. a reglugerðar um útlendinga tekur kærunefnd sérstaklega fram að hún telji ljóst að það leiði bæði af orðalaginu „viðmið“ og tilvísun í reglugerðinni um að þau séu í „dæmaskyni“ að ekki sé um að ræða tæmandi upptalningu á þeim sjónarmiðum sem komið geta til greina við mat á því hvort sérstakar ástæður eru fyrir hendi í máli. Kærunefnd áréttar í þessu samhengi að við meðferð mála hjá kærunefnd er ávallt horft til einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklingsins við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að mál verði tekið til efnismeðferðar, í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þ.m.t. heilsufars hans og annarra þátta sem benda til viðkvæmrar stöðu einstaklingsins. Kærunefnd leggur því áherslu á að sjálfstætt heildarmat er lagt á atvik í hverju máli fyrir sig á grundvelli einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklingsins og aðstæðna í viðtökuríki. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda að þessu leyti.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd kom í ljós að við ákvarðanatöku hjá Útlendingastofnun hafi stofnuninni yfirsést komunótur Göngudeildar sóttvarna, dags. 18. desember 2019 til 15. janúar 2020, í máli kæranda. Í tölvupósti frá Útlendingastofnun til kærunefndar, dags. 22. júní 2020, kemur fram að um mistök hafi verið að ræða af hálfu stofnunarinnar. Gagnið sem um ræðir hafi verið sent á póstfang innan stofnunarinnar, sem aðeins einn aðili hafi að jafnaði aðgang að. Hafi tölvupósturinn farið framhjá þeim starfsmanni stofnunarinnar og gagnið hafi af þeirri ástæðu hvorki verið fært inn í skjalakerfi stofnunarinnar né lagt til grundvallar við ákvarðanatöku. Þá vekur Útlendingastofnun athygli á því að óskaði hafi verið eftir staðfestingu á móttöku gagnsins en slík staðfesting hafi ekki verið send af fyrrgreindri ástæðu. Það sé mat Útlendingastofnunar eftir að hafa farið yfir gagnið að ekkert komi þar fram sem sé til þess fallið að breyta fyrri afstöðu stofnunarinnar um að kærandi teljist ekki vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Taldi Útlendingastofnun ekki forsendur til þess að afturkalla ákvörðun í máli kæranda enda hafi gögn sem lögð voru til grundvallar við ákvörðunartöku stofnunarinnar varpað skýru ljósi á þetta tiltekna heilsufarsvandamál kæranda og hvernig það hafði áhrif á heilsu hans þegar ákvörðun í máli hans var tekin. Vegna þessara upplýsinga veitti kærunefnd kæranda frest til þess að koma að andmælum eða athugasemdum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, og hafa viðbótarathugasemdir kæranda þegar verið raktar. Vill kærunefnd beina því til Útlendingastofnunar að gæta þess að mistök sem þessi endurtaki sig ekki. Hefur kærunefnd skoðað umrætt gagn ásamt öðrum gögnum málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Meginmarkmiðið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Ljóst er, með vísan til framangreindrar niðurstöðu kærunefndar í máli kæranda, að framangreindur annmarki á ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki haft efnisleg áhrif á niðurstöðu máls hans og sé ekki slíkur að fella beri ákvörðunina úr gildi af þeirri ástæðu. Kærunefnd hefur bætt úr þeim annmarka sem var á málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera frekari athugasemdir við hana að þessu leyti.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og telur ekki tilefni til þess að gera frekari athugasemdir við hana. Hefur kærunefnd skoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Frávísun

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 19. nóvember 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda bendir allt til þess að hann hafði verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Rúmeníu eins fljótt og unnt er, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa rúmensk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Rúmeníu með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd á grundvelli lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin, m.a. ef afleiðingar Covid-19 faraldursins muni vara lengur og vera alvarlegri en gera má ráð fyrir nú.

Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                          Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum