Hoppa yfir valmynd
6. desember 2016 Utanríkisráðuneytið

Samningalota TiSA 2.– 10. nóvember 2016

Samningalota í TiSA-viðræðunum var haldin í Genf dagana 2. – 10. nóvember 2016. Af Íslands hálfu tóku Högni S. Kristjánsson, Þórður Jónsson og Bergþór Magnússon þátt í lotunni.

Skömmu áður en lotan var haldin höfðu öll ríkin sem taka þátt í viðræðunum lagt fram endurskoðuð tilboð sín að skuldbindingaskrám. Í lotunni gerðu samningsaðilar grein fyrir tilboðum sínum og útskýrðu hvaða breytingar hefðu verið gerðar frá fyrri tilboðum. Sú afstaða var almenn að hin endurskoðuðu tilboð geti orðið grundvöllur þess að viðræðunum verði lokið. Þó er skoðanamunur á milli ríkja um einstök atriði, einkum það hvort réttmætt sé að einstök ríki geti gert áskilnað um það í tilboðum sínum að þeim sé heimilt að mismuna milli innlendra og erlendra þjónustuveitenda hvað varðar svokallaða nýja þjónustu (new services).

Í umræðum um samningstexta var einkum rætt um ákvæði hins fyrirhugaða samnings um lausn ágreiningsmála, auk viðauka hans um gagnsæi (transparency), innlendar reglur (domestic regulation), fjármálaþjónustu, rafræn viðskipti (e-commerce), fjarskiptaþjónustu, innlenda hlutdeild (localization), sjóflutninga, loftflutninga og för þjónustuveitenda (mode 4). Enn er talsvert af atriðum útistandandi í einstökum samningstextum og má í því sambandi nefna að ekki hefur náðst niðurstaða um efni ákvæða er varða flutning rafrænna upplýsinga yfir landamæri og vernd persónuupplýsinga í því sambandi.  

Í lok samningslotunnar var enn á ný ítrekaður vilji samningsaðila til að ljúka viðræðunum fyrir árslok 2016, enda þótt fyrir lægi að erfitt yrði að ná því markmiði sökum þess hve mörg útistandandi mál eru enn til staðar. Í kjölfar lotunnar varð niðurstaða samningsaðila síðan sú að ekki verði hægt að ljúka viðræðunum á þessu ári. Jafnframt var ákveðið að halda fund aðalsamningamanna ríkjanna 6-7. desember þar sem rætt verður um stöðu og framhald viðræðnanna. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum