Hoppa yfir valmynd
6. september 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kæra vegna ákvörðunar tollstjóra - afturköllun nauðungarsölubeiðni

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 6. september 2013
Tilv.: FJR13090025/16.2.2

Efni: Kæra vegna ákvörðunar tollstjóra, dags. 5. september 2013.

Ráðuneytið vísar til kæru yðar, dags. 5. september 2013, þar sem kærð er ákvörðun tollstjóra, dags. 5. september 2013, um að hafna afturköllun nauðungarsölubeiðni á bifreiðnni [X] gegn greiðslu að fjárhæð kr. 60.000. Í kærunni er þess krafist að samningur yðar við tollstjóra verði endurvirkjaður gegn greiðslu þeirra gjalddaga sem féllu niður auk kostnaðar við vörslusviptingu. Ennfremur að samningurinn standi til 30. október 2013 og að krafan verði þá að fullu greidd.

Málavextir og málsástæður

Ákvörðun tollstjóra, dags. 5. september 2013.
Í ákvörðun tollstjóra, dags. 5. september 2013, kemur fram að fjárnám var gert í bifreiðinni [X] sem er Opel Astra G Caravan vegna vangoldinna gjalda í þing- og sveitarsjóðsgjöldum og tryggingagjaldi sem lögð voru á árið 2011. Tollstjóri sendi sýslumanni beiðni um nauðungarsölu 5. febrúar 2013. Greiðsluáætlun var gerð 24. maí 2013 og þá var veittur frestur á vörslusviptingu bifreiðarinnar. Skilyrði greiðsluáætlunarinnar var að kærandi greiddi kr. 30.000 við gerð hennar og síðan kr. 15.000 mánaðarlega til 24. október 2013. Greiðsluáætlunin féll úr gildi þar sem fyrsta greiðslan var eingöngu greidd. Tollstjóri sendi bréf, dags. 9. ágúst 2013, þar sem varað var við því að bifreiðin væri tekin úr vörslum kæranda og send nauðungarsölu ef ekki yrði brugðist við innan 7 daga með greiðslu kröfunnar eða gerð greiðsluáætlunar. Bifreiðin var síðan tekin úr vörslum kæranda vegna fyrirhugaðs uppboðs 7. september 2013. Staða kröfunnar er 5. september kr. 295.950.

Kærandi óskaði eftir því munnlega við tollstjóra að beiðni um nauðungarsölu yrði afturkölluð gegn greiðslu kr. 60.000. Því var hafnað nema krafa kæranda yrði greidd að fullu. Tollstjóri taldi það ekki skipta máli að kærandi hafi ekki fengið viðvörunarbréf tollstjóra í tæka tíð og að kærandi hafi talið sig vera að greiða kröfur vegna greiðsluáætlunar í heimabanka. Tollstjóri hafnaði því kröfu kæranda um afturköllun á nauðungarsölubeiðni á bifreiðinni [X] gegn greiðslu kr. 60.000.

Forsendur og niðurstaða

Tollstjóri setur verklagsreglur um nauðungarsölur fasteigna og lausafjár. 2. útgáfa þeirra reglna var gefin út í mars 2006. Í kafla 5.7. kemur fram að uppboð verði að jafnaði ekki afturkallað nema gegn fullri greiðslu kröfunnar. Þó sé afturköllun heimil ef sýnt þyki að gerðarþoli geti greitt skuld sína innan skamms tíma.

Kærandi hefur boðið greiðslu að fjárhæð kr. 60.000 til að beiðni um nauðungarsölu verði afturkölluð. Heildarskuld er kr. 295.950. Kærandi stóð ekki við greiðsluáætlun sem gerð var 24. maí 2013 sem leiddi til þess að ferli nauðungarsölu hófst. Með vísan til þess að skilyrðum verklagsreglnanna eru ekki uppfyllt, þ.e. full greiðsla kröfunnar hefur ekki borist né hefur kærandi sýnt fram á að hann muni greiða skuld sína innan skamms tíma staðfestir ráðuneytið ákvörðun tollstjóra um að hafna afturköllun nauðungarsölubeiðninnar.

Ráðuneytið tekur undir með tollstjóra að það hafi ekki þýðingu í málinu að kærandi hafi talið sig vera að greiða kröfur vegna greiðsluáætlunar í heimabanka né að kærandi hafi ekki fengið viðvörunarbréf tollstjóra í tæka tíð vegna tíðra flutninga.

Úrskurðarorð

Ákvörðun tollstjóra, dags. 5. september 2013, um að hafna afturköllun nauðungarsölubeiðni á bifreiðinni [X] gegn greiðslu kr. 60.000 er staðfest.



Fyrir hönd ráðherra





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum