Hoppa yfir valmynd
5. ágúst 2022 Utanríkisráðuneytið

Lífslíkur í Afríku hækkuðu um tíu ár á tveimur áratugum

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Lífslíkur íbúa Afríku hækkuðu að meðaltali um tíu ár á tuttugu ára tímabili frá árunum 2000 til 2019, að því er fram kemur í greiningu frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO. Þessi hækkun er meiri en í öðrum heimshlutum en bent er á að neikvæð áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar ógni þessari jákvæðu þróun. Mjög hefur dregið úr ungbarnadauða í Afríku á síðustu árum og það skýrir öðru fremur þessar framfarir ásamt betri forvörnum og meðhöndlun smitsjúkdóma.

Lífslíkur Afríkubúa voru 56 ár í árslok 2019 en 46 ár í byrjun aldarinnar. Hins vegar eru lífslíkur í álfunni enn talsvert minni borið saman við meðaltal jarðarbúa en á heimsvísu eru lífslíkur 64 ár að meðaltali og sú tala hækkaði um fimm ár á fyrrnefndu tímabili. Reikna má með að þessar tölur lækki vegna dauðsfalla af völdum COVID-19.

Meðalævilengd karla á Íslandi var 80,9 ár árið 2021 og meðalævilengd kvenna 84,1 ár, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. Þar er hugtakið meðalævilengd sagt sýna hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans. Þar segir líka að aldursbundin dánartíðni hafi lækkað á undanförnum áratugum og því megi vænta þess að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um. Frá árinu 1988 hafa karlar bætt við sig rúmlega sex árum og konur rúmlega fjórum í meðalævilengd.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum