Hoppa yfir valmynd
3. mars 2009 Innviðaráðuneytið

Betri rekstrarlegar forsendur fyrir sveitarfélög

Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um gatnagerðargjöld. Breytingin er gerð að frumkvæði samgönguráðherra og í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Tilgangur hennar er að skapa sveitarfélögunum betri rekstrarlegar forsendur vegna efnahagsástandsins.

Breytt var tvennum lögum er varða sveitarfélögin, annars vegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, og hins vegar lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006.

Í fyrsta lagi var lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, breytt á þann veg að lögveðsréttur fasteignaskatts vegna áranna 2008 til 2010 gildir í fjögur ár í stað tveggja. Breytingin skapar aukið svigrúm fyrir sveitarfélög til að semja við fasteignaeigendur í greiðsluerfiðleikum um skil á fasteignaskatti þar sem tímafrestur varðandi lögveðið er rýmri en almenna reglan segir til um. Sveitarfélög eiga þar af leiðandi síður á hættu að lögveðsréttur vegna slíkrar kröfu glatist þótt samið sé um rúman greiðslufrest.

Í öðru lagi var lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, breytt á þann veg að frestur sveitarfélags til þess að endurgreiða gatnagerðargjald er lengdur úr 30 dögum í 90. Jafnframt segir að endurgreiðslufjárhæð gatnagerðargjaldsins sem skuli verðbætt taki einungs til þeirra lóða sem þegar hefur verið úthlutað.

Kröfur um verðtryggða endurgreiðslu gatnagerðargjalda hafa þegar haft neikvæð áhrif á lausafjárstöðu margra sveitarfélaga. Þeim er því illmögulegt að standa skil á frekari endurgreiðslum innan þess knappa tímafrests sem kveðið er á um í lögum um gatnagerðargjald. Með breytingunni fellur verðtryggingarákvæði 9. gr. brott en engu að síður lagt til í bráðabirgðaákvæði að það haldi gildi sínu hvað varðar endurgreiðslu vegna þeirra lóða sem úthlutað hefur verið eða byggingarleyfi veitt á fyrir gildistöku laganna. Byggist það á sjónarmiðum um bann við afturvirkni laga og þeim réttmætu væntingum sem þeir aðilar sem þegar hafa fengið úthlutað lóðum mega hafa en annað fyrirkomulag væri afar íþyngjandi fyrir þá.

Í þriðja lagi breytist bráðabirgðaákvæði laga um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, með þeim hætti að það gildir til ársloka 2012 í stað ársloka 2009 eins og nú er. Með því gefst þeim sveitarfélögum sem enn eiga eftir að ljúka gatnagerð á grundvelli eldri laga kostur á að laga framkvæmdahraða að efnahagsástandinu.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum