Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2016 Innviðaráðuneytið

Heimilað verði að skrá ökutæki tímabundið vegna tilraunaaksturs

Innanríkisráðuneytið hefur til athugunar breytingu á reglugerðum um skráningu ökutækja og um gerð og búnað ökutækja til að unnt sé að skrá ökutæki tímabundið í tilraunaskyni. Með breytingunum verður framleiðendum bíla eða umboðsmönnum þeirra til dæmis heimilað að skrá ökutæki vegna prófana á vistvænum orkugjöfum þeirra við íslenskar aðstæður.

Breytingarnar taka annars vegar til reglugerðar um skráningu ökutækja, nr. 751/2003, og hins vegar reglugerðar um gerð og búnað ökutækja, nr. 822/2004. Með þeim getur Samgöngustofa skráð ökutæki tímabundið til tilraunaaksturs í þágu rannsóknar og þróunar ökutækja. Heimildin verði ekki veitt til lengri tíma en sex mánaða en með möguleika á framlengingu. Heimildin yrði bundin við framleiðendur ökutækja eða umboðsaðila þeirra.

Reglugerðardrögin voru borin undir Ríkislögreglustjóra og umferðardeild embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu en embættin höfðu ekki athugasemdir fram að færa.

Lagastoð er að finna í 60. og 64. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum