Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2018 Utanríkisráðuneytið

Norski utanríkisráðherrann í vinnuheimsókn

Guðlaugur Þór og Ine Ine Marie Eriksen Søreide ásamt bændunum á Refsstöðum, þeim Brynjari Bergssyni og Önnu Lísu Hilmarsdóttur, auk fréttamanns RÚV.  - myndUtanríkisráðuneytið

Tvíhliða samskipti Íslands og Noregs, samvinna Norðurlandanna, málefni norðurslóða og mál tengd EES-samstarfinu voru meðal dagskrárefna á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, sem haldinn var í Reykholti í Borgarfirði fyrr í dag. Utanríkisráðherra Noregs er stödd hér á landi í boði Guðlaugs Þórs. Einnig voru öryggis- og varnarmál, Brexit, málefni Sameinuðu þjóðanna og fyrirhuguð seta Íslands í mannréttindaráðinu til umræðu.

Guðlaugur Þór og Ine Ine Marie Eriksen Søreide ásamt Bergi Þorgeirssyni, forstöðumanni Snorrastofu í Reykholti.

Guðlaugur Þór og Ine Ine Marie Eriksen Søreide ásamt Bergi Þorgeirssyni, forstöðumanni Snorrastofu í Reykholti. Mynd: Utanríkisráðuneytið.

„Noregur er eitt okkar allra nánasta samstarfsríki, hvort heldur sem er innan alþjóðastofnana eða í tvíhliða samskiptum. Milli Íslendinga og Norðmanna ríkir ennfremur mikil vinsemd og nánd sem endurspeglast víða í okkar samfélögum, auk þess sem fjölmargir Íslendingar búa í Noregi og láta þar gott af sér leiða. Þetta eru tengsl sem við tökum ekki sem sjálfsögðum og munum áfram leggja okkur fram við að efla - einnig nú þegar hillir undir formennsku Íslands í norrænu samstarfi og innan Norðurskautsráðsins. Þá lá beinast við að funda í Reykholti þar sem Ísland og Noregur deila sögu og arfleifð,“ segir Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðherra Noregs fundaði ennfremur með fulltrúum í utanríkismálanefnd og atvinnuveganefnd Alþingis og skoðaði sig um í Borgarfirði. Á meðal viðkomustaða hjá ráðherrunum og fylgdarliði voru Refsstaðir í Hálsasveit. Ábúendur þar áforma að selja hey til norskra bænda sem lítið hafa getað heyjað í sumar vegna þurrka. Þá heimsóttu ráðherrarnir Sólbyrgi á Kleppjárnsreykjum þar sem bragðað var á jarðarberjum.

Mynd: Utanríkisráðuneytið.

Í fyrramálið tekur ráðherrann hús á forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni, á Bessastöðum. Vinnuheimsókn utanríkisráðherra Noregs lýkur um hádegisbil á morgun.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira