Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2012 Innviðaráðuneytið

Tillögur um bætta öflun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál

Frá afhendingu skýrslu vinnuhóps um húsnæðisupplýsingar
Frá afhendingu skýrslu vinnuhóps um húsnæðisupplýsingar

Vinnuhópur sem fjallað hefur um leiðir til að efla og samræma öflun og miðlun upplýsinga um húsnæðismál skilaði velferðarráðherra tillögum sínum í dag. Tillögur hópsins eru liður í stærra verkefni sem miðar að því að móta heildstæða húsnæðisstefnu á Íslandi í samræmi við tillögur samráðshóps um húsnæðisstefnu sem kynntar voru í apríl 2011. 

Eins og fram kemur í skýrslu samráðshóps um húsnæðisstefnu er markmiðið að tryggja landsmönnum fjölbreytta og örugga valkosti í húsnæðismálum og sérstök áhersla lögð á að efla varanlega leigu- og búseturéttarkosti og stuðla að jöfnuði milli búsetuforma.

Til að útfæra tillögur samráðshópsins skipaði ráðherra fimm vinnuhópa sem falið var að fjalla um upptöku húsnæðisbóta, rekstrar- og skattaumhverfi leigufélaga, gerð húsnæðisáætlunar og framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóð. Í skýrslu samráðshópsins var sérstaklega bent á að mikilvæg forsenda fyrir farsælli stefnumótun í húsnæðismálum séu greinargóðar upplýsingar um stöðu og horfur í húsnæðismálum landsmanna. Hlutverk vinnuhópsins sem skilaði tillögum sínum í dag var að fjalla um þetta.

Grunnur að tillögum vinnuhóps um bætta öflun og miðlun upplýsinga

Mikilvægur grunnur að starfi vinnuhópsins var kortlagning sem Íbúðalánasjóður gerði á upplýsingaöflun sem tengist húsnæðismálum og fer fram hjá ýmsum opinberum stofnunum. Fyrir liggur að nú þegar er viðamiklum upplýsingum safnað um húsnæðismál sem munu nýtast við mótun húsnæðisstefnu. Þá hafa stjórnvöld tekið ákvarðanir um stórbætta skráningu á ýmsum sviðum, svo sem með innleiðingu gagnasafns á vegum Mannvirkjastofnunar, söfnun upplýsinga um skipulagsáætlanir sveitarfélaga á vegum Skipulagsstofnunar, söfnun upplýsinga um skuldavanda og skuldsetningu heimila á vegum Hagstofunnar, árlegri gerð manntals með sundurgreinanlegum upplýsingum eftir landshlutum og sveitarfélögum á vegum Hagstofunnar og ákvörðun um að vinna og birta reglulega vísitölu leiguverðs ásamt öðrum upplýsingum úr leigusamningum á vegum Þjóðskrár Íslands. Vinna við öll þessi verkefni er þegar hafin og víða komin vel á veg.

Niðurstöður vinnuhópsins

Það er mat vinnuhópsins að þegar saman eru teknar þær upplýsingar sem þegar er aflað um húsnæðismál og þær úrbætur á fyrrnefndum sviðum upplýsingaöflunar sem unnið er að, sé kominn sá grunnur sem þarf til að gera vandaða greiningu á húsnæðismarkaðinum og þróun hans. Galli á núverandi fyrirkomulagi er að enginn opinber aðili birtir reglulega greiningu á þróun húsnæðismála og að upplýsingar um húsnæðismáleru ekki aðgengilegar á einum stað. Úr þessu þarf að bæta, enda eru þessar upplýsingar afar mikilvægar, jafnt fyrir stjórnvöld og stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga í tengslum við skipulags- og áætlanagerð, uppbyggingu húsnæðis og allar ákvarðanir sem tengjast húsnæðismarkaðinum til lengri eða skemmri tíma.

Helstu tillögur:

Íbúðalánasjóði verði falið að gera reglulega greiningu á húsnæðismarkaðinumí samráði við við efnahags- og viðskiptaráðuneytið og velferðarráðuneytið. Þar verði meðal annars fjallað um lánakjör til almennings, verðþróun á fasteignamarkaði og leigumarkaði og þróun byggingakostnaðar og lóðaverðs greint eftir landshlutum og sveitarfélögum, umfang húsnæðisstuðnings ríkisins og fleira.

Helstu upplýsingar um húsnæðismarkaðinn sem safnað er reglulega verði birtar opinberlega og gerðar aðgengilegar á einum stað, til dæmis á upplýsingavefnum island.is. Þar verði jafnframt aðgengilegar greiningar Íbúðalánasjóðs á húsnæðismarkaðinum.

Um störf vinnuhópsins

Í tengslum við störf vinnuhópsins var rætt við fulltrúa þeirra stofnana sem á einhvern hátt sinna verkefnum sem tengjast húsnæismálum, auk fulltrúa fjölmargra hagsmunaaðila og er þeirra allra getið í skýrslunni.

Formaður vinnuhópsins var Sigurður Geirsson, tilnefndur af Íbúðalánasjóði en auk hans áttu sæti í hópnum fulltrúar Hagstofu Íslands, Mannvirkjastofnun, velferðarráðuneytinu, efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og Þjóðskrá Íslands.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum