Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkur aldraðra á erfiðum tímum

Góðir ráðstefnugestir.

Ég gladdist þegar ég sá yfirskrift þessarar ráðstefnu og þess var óskað að ég segði hér nokkur orð. Tónninn í heiti ráðstefnunnar, umgjörð hennar og umfjöllunarefnum er jákvæður og nálgunin sú að aldraðir búi yfir styrk sem komið geti samfélaginu að gagni á erfiðum tímum.

Þessu er ég svo hjartanlega sammála. Aftur á móti virðist mér að velmegunarkynslóðir síðustu áratuga hafi gleymt gömlum sannindum á borð við þau að oft sé það gott sem gamlir kveða. Ég held að um nokkurt skeið hafi samfélagið ekki metið þekkingu og reynslu aldraðra að verðleikum og ekki virkjað hana sem skyldi. Líklega hefur það komið okkur í koll.

Auðvitað er það ekki aðeins á erfiðum tímum sem styrkur aldraðra er mikilvægur. Erfiðar aðstæður nú hafa dregið það skýrt fram að það er óskynsamlegt og hreinlega skaðlegt að hunsa reynslu og þekkingu ákveðinna hópa. Einsleitni er óheppileg en fjölbreytni af hinu góða og í henni felst styrkur samfélaga. Með fullri virðingu fyrir ágæti ungra og vel menntaðra karlmanna í viðskiptum tel ég ekki heppilegt að þeir ráði einir för í málefnum samfélagsins, ekki frekar en einhver annar þröngur hópur fólks. Við þörfnumst víðsýni, þekkingar og fjölbreyttrar reynslu karla og kvenna og fólks á öllum aldri. Þannig mun okkur best farnast.

Íslenskt samfélag hefur goldið fyrir einsleitni undanfarin ár. Það sést ekki síst á þeim gildum sem hafin voru til vegs og virðingar, að því er virðist án almennrar umræðu eða umhugsunar. Einstaklingshyggja varð ráðandi og efnishyggjan taumlaus. Velgengni fólks og lífshamingja var mæld í milljónum og milljörðum, stórum bílum, flottum húsum, fjölda utanlandsferða og þar fram eftir götum.

Einhvern tíma heyrði ég af innihaldsgreiningu frétta í íslenskum fjölmiðlum þar sem niðurstaðan sýndi að um 70% allra frétta sem bornar voru á borð landsmanna fjölluðu um viðskipti. Þá nefni ég til fróðleiks að samkvæmt úttekt á fréttum útvarps- og sjónvarpsstöðva á síðasta ári voru um 78% viðmælendanna karlar en tæp 22% voru konur. Þetta segir meira en mörg orð um áherslur samfélagsins sem ég er viss um að nú er almennur vilji til að taka til endurskoðunar. Ég veit ekki til þess að viðmælendur fréttamanna hafi verið flokkaðir eftir aldri en tel óhætt að fullyrða að fólk um og yfir sjötugt myndi ekki endurspegla aldurssamsetningu þjóðarinnar ef slík mæling væri gerð.

Við búum í lýðræðisríki og okkur er tamt að geta þess með stolti við hátíðleg tækifæri. Minna hefur verið rætt um hvað hugtakið lýðræði felur í sér og hvernig við viljum iðka það. Ef lýðræðið á að vera virkt og standa undir nafni verður allur almenningur að eiga raunhæfan kost á því að hafa áhrif á samfélagið. Þá á ég ekki aðeins við þátttöku í kosningum á fjögurra ára fresti, heldur virka þátttöku í umræðum og rökræðum um málefni samfélagsins.

Þeir sem fara með stjórn landsins á hverjum tíma eiga ávallt að hafa almannaheill í fyrirrúmi. Þá verður mönnum að vera ljóst að hagsmunir einstaklinga og hópa eru ærið misjafnir og gildismat þeirra sömuleiðis. Raddir allra, hugmyndir og áherslur þurfa að hljóma og fá notið sín, hvort sem það eru aldraðir eða ungt fólk, námsmenn eða fatlaðir, karlar eða konur og svo framvegis. Á þetta hefur verulega skort í íslensku samfélagi og úr því verður að bæta.

Ég er kannski komin langt út fyrir efni ráðstefnunnar í þessum hugleiðingum mínum þar styrkur aldraðra á erfiðum tímum er til umræðu. Eins og ég sagði áðan þá veit ég að aldraðir búa yfir margvíslegum styrkleikum og eru reiðubúnir að bjóða fram krafta sína samfélaginu til góðs. Því er mikilvægt að skapa þann farveg sem þarf til þess að aldraðir geti virkjað þá reynslu og þekkingu sem þeir búa yfir þannig að aðrir fái notið góðs af.

Ég er þakklát Öldrunarráði Íslands og Rauða krossinum fyrir að standa að þessari ráðstefnu. Ég veit að þið búið yfir mikilli þekkingu á málefninu og hafið til að bera breidd sem nýtist til að skapa því farveg sem víðast út í samfélagið.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum