Hoppa yfir valmynd
1. júní 2012 Innviðaráðuneytið

Drög að reglugerð um flugafgreiðslu á flugvöllum til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1186/2008 um aðgang að flugafgreiðslu á flugvöllum. Umsagnafrestur er til 13. júní næstkomandi og skal senda umsagnir á netfangið [email protected].

Með reglugerð nr. 1186/2008 um aðgang að flugafgreiðslu á flugvöllum var innleidd tilskipun (EB) nr. 96/67/EC um aðgang að flugafgreiðslumarkaðinum á flugvöllum bandalagsins. Við gildistöku reglugerðarinnar voru aðeins tveir til þrír aðilar sem veittu þessa þjónustu á Keflavíkurflugvelli og þótti því ekki sérstakt tilefni til að taka upp ákvæði um starfsleyfiskyldu eða kveða á um sérstaka heimild til handa þeim sem veita slíka þjónustu hér á landi eins og tilskipunin heimilaði. Slík starfsleyfisskylda er þó meginreglan á EES svæðinu.

Á undanförnum misserum hefur fjölgað í þeim hópi sem veita eða hyggjast veita flugafgreiðsluþjónustu. Þá hafa ýmis álitamál komið upp um framkvæmd þjónustu og aðgang að aðstöðu og erfiðleikar við úrlausn þeirra mála. Í ljós hefur komið að nokkuð skortir á fullnægjandi heimildir til að bregðast við núverandi ástandi og ekki er hægt, eins og er, að binda veitingu flugafgreiðsluþjónustu nægjanlega traustum skilyrðum. Af þessu tilefni er talið nauðsynlegt að skýra og treysta heimildir er varða starfsemi flugafgreiðsluaðila, bæta úr óvissu um framkvæmd og tryggja lágmarkskröfur til flugafgreiðslustarfsemi.

Helstu breytingar sem gerðar eru á reglugerð nr. 1186/2008 er eftirfarandi:

  • Í 7. gr. reglugerðardraganna er tekið upp efni 14. gr. tilskipunarinnar um samþykki til að þjónustu. Með ákvæðinu er gert ráð fyrir að binda megi samþykki skilyrðum um að uppfylltar séu kröfur sem ekki voru tilgreindar áður, um trausta fjárhagsstöðu, fullnægjandi ábyrgðartryggingar og rekstrarhandbók þar sem sýnt sé fram á að uppfylltar séu kröfur er varða flugvernd, öryggi mannvirkja, loftfara, búnaðar og manna svo og kröfum um umhverfisvernd og að starfsemin samræmist annarri viðeigandi löggjöf og fram koma upplýsingar um stjórnendur og ábyrgð þeirra og skyldur. Sum þessara skilyrða hafa þegar verið til staðar eða má þegar leiða af öðrum reglum t.d. flugvernd og ýmsum ákvæðum reglugerðar um flugvelli en önnur eru ný. Þannig verði nú kveðið á um trausta fjárhagsstöðu og tryggingar en hvorutveggja er mikilvægt í starfssemi sem þessari þar sem röskun í rekstri og önnur frávik í starfsemi geta valdið öðrum þjónustuaðilum á flugvelli og rekstraraðila hans tjóni. Skilyrði um trausta fjarhagsstöðu á sér fyrirmynd í 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 1008/2008 sem innleidd var með Reglugerð nr.  48/2012 um sameiginlegar reglur um flugrekstur og flugþjónustu innan Evrópska Efnahagssvæðisins.
  • Í 8. gr. er skerpt á heimild rekstraraðila flugvallar til að setja reglur um starfsemi flugafgreiðsluaðila á flugvelli (Rules of Conduct). Ákvæðið endurspeglar 15. gr. tilskipunarinnar með nokkuð breyttri uppsetningu en gengur efnislega ekki lengra. Í núgildandi reglugerð voru ákvæði um staðla og tækniforskriftir felldar undir 2. mgr. 11. gr.
  • Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að þeir veitendur flugafgreiðsluþjónustu sem eru með starfsemi við gildistöku reglugerðarinnar skuli afla sér samþykkis fyrir þjónustunni í samræmi við kröfur reglugerðarinnar innan sex mánaða frá gildistöku hennar. Þó er gert ráð fyrir skemmri fresti til að sýna fram á fjárhagslega getu þ.e. að það verði gert innan 6 vikna ella gæti það leitt til beitingar á 3. mgr. 14. gr.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum