Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkisreikningur 2005

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 20/2006

Lokið hefur verið við gerð ríkisreiknings fyrir árið 2005. Hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum reikningsins og samanburði við fyrra ár.

Afkoma ríkissjóðs

Samkvæmt niðurstöðutölum ríkisreiknings ársins 2005 var ríkissjóður rekinn með tæplega 113 milljarða króna afgangi á árinu. Árið áður nam afgangurinn um 2 milljörðum króna. Skýringin á stórbættri afkomu liggur að hálfu í sölu hlutabréfa ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf. en hagnaður af sölunni nam 56 milljörðum króna. Að öðru leyti skýrist góð afkoma ríkissjóðs af þeirri uppsveiflu sem verið hefur í efnahagslífinu og aðhaldi í útgjöldum ríkissjóðs. Þannig hækkuðu aðrar tekjur ríkissjóðs um 55 milljarða króna en á sama tíma eru útgjöld hans nær óbreytt milli ára. Þessar tölur eru án 5,7 milljarða fjármagnstekjuskatts af sölu Landssímans sem færist bæði á tekna- og gjaldahlið ríkissjóðs. Hvort sem litið er til afkomu ríkissjóðs á árinu 2005 með eða án söluhagnaðar af Landssímanum er hún jákvæðari en dæmi eru um áður.


Í millj. kr.
Reikningur 2005
Fjárlög / fjáraukalög 2005
Frávik, fjárhæð
Frávik %
Reikningur 2004
   
Tekjur samtals
421.166
408.582
12.584
3,1
302.431
- þar af venjubundnar tekjur
349.030
336.561
12.469
3,7
295.684
- þar af tilfallandi tekjur
72.136
72.021
115
0,2
6.747
           
Gjöld samtals
308.394
317.399
-9.005
-2,8
300.438
- þar af venjubundin gjöld
284.531
295.094
-10.563
-3,6
274.860
- þar af tilfallandi gjöld
23.863
22.305
1.558
7,0
25.578
           
Tekjur umfram gjöld
112.772
91.183
21.588
1.993
- þar af vegna venjubundinnar starfsemi
64.499
41.467
23.032
20.824
- þar af vegna tilfallandi liða
48.273
49.716
-1.443
-18.831
           
Lánsfjárjöfnuður
76.584
99.787
-23.030
11.036

Lánsfjárjöfnuður

Lánsfjárafgangur ríkissjóðs nam 77 milljörðum króna samkvæmt niðurstöðutölum ríkisreiknings. Auk þess var 32 milljörðum af söluandvirði Landssímans veitt til Seðlabanka Íslands með sérstökum lánssamningi. Ríkissjóður nýtti lánsfjárafgang ársins til að greiða niður skuldir og bæta sjóðstöðu sína hjá Seðlabankanum. Á árinu var tæpum 50 milljörðum varið til að greiða niður erlend lán og handbært fé jókst um 27 milljarða. Þannig ráðstafaði ríkissjóður 109 milljörðum af bættri afkomu sinni inn til Seðlabankans og til að greiða niður erlendar skuldir. Í árslok 2005 var staða tekinna lána ríkisins um 196 milljarðar samanborið við 253 milljarða árið áður. Þar af voru erlend lán 85 milljarðar samanborið við 141 milljarð árið áður. Hrein skuldastaða ríkissjóð, þ.e. skuldir að frádregnum veittum lánum, var í árslok 60 milljarðar í stað 156 milljarða króna í ársbyrjun.
Á árinu 1999 ákvað fjármálaráðherra að ráðstafa hluta af lánsfjárafgangi ríkissjóðs til sérstakra innborgana hjá opinberu lífeyrisjóðunum í því skyni að gera þá betur í stakk búna til að takast á við framtíðarskuldbindingar sínar. Á árinu 2005 voru fyrirframgreiðslur um 6 milljarðar króna og nam staða  á uppsöfnuðum innborgunum 101 milljarður króna í lok ársins. Þegar þessar innborganir hófust á árinu 1999 var hlutfall eigna hjá sjóðunum 15,9% af skuldbindingum A-hluta ríkissjóðs en í lok árs 2005 er hlutfallið komið í 41,4%.

Tekjur ríkissjóðs

Tekjur ársins námu 421 milljarði króna og er það um 42,3% af landsframleiðslunni. Ef tekjurnar eru bornar saman við fyrra ár og ekki tekið tillit til tekna vegna sölu Landssímans, þá var hlutfallið 36,0% af landsframleiðslu samanborið við 33,0% árið áður. Hækkunin þannig metin nemur rúmum 56 milljörðum og aukast tekjur um 18,6% milli ára. Tekjur af sköttum á sölu vöru og þjónustu nema 165 milljörðum og eru þær 39,2% af heildartekjum. Það er hækkun um 24 milljarða milli ára og eru tæpir 18 milljarðar vegna virðisaukaskatts. Skattar á einstaklinga, fyrirtæki og fjármagnstekjur nema 132 milljörðum, samanborið við 102 milljarða árið áður. Þar munar mestu um 12 milljarða hækkun tekjuskatts lögaðila, sem tvöfaldast milli ára, og 8 milljarða hækkun fjármagnstekjuskatts að meðtöldum tæplega 6 milljörðum vegna sölu Landssímans. Af öðrum tekjuliðum munar mest um tryggingagjöld sem námu 33 milljörðum króna, en þau hækka um rúma 4 milljarða milli ára.

Gjöld ríkissjóðs

Gjöld ársins námu 308 milljörðum króna samanborið við 300 milljarða árið áður. Sem hlutfall af landsframleiðslu nema þau 31,0%, en ef frá er talinn greiddur fjármagnstekjuskattur vegna sölu Landssímans nemur hlutfallið 30,3%. Á árinu 2004 var hlutfall gjalda af landsframleiðslu 32,8% og fer hlutfallið því lækkandi annað árið í röð. Eins og áður eru útgjöld til heilbrigðismála veigamesti málaflokkurinn, en þau nema 77 milljörðum króna og aukast um 5,4% frá fyrra ári. Næst mest eru gjöld vegna almannatrygginga og velferðarmála, eða 70 m.kr. og hækka þau í heild um 1,8%. Elli- og örorkulífeyrisgreiðslur hækka hinsvegar um 4,7% en á móti því vegur að greiðslur atvinnuleysisbóta lækka og greiðslur vegna fæðingarorlofs, barnabóta og vaxtabóta standa í stað. Samtals vega þessir tveir málaflokkar rétt um  helming af útgjöldum ríkissjóðs. Gjöld vegna atvinnumála, en þar undir falla meðal annars framlög til samgöngu- og landbúnaðarmála, voru samtals um 44 milljarður króna og hækka um 4,5% milli ára. Aukningin skýrist af tæplega 3 milljarða framlögum til landbúnaðar vegna ráðstöfunar á söluandvirði Lánasjóðs landbúnaðarins en á móti vegur lækkun á framkvæmdum í samgöngumálum. Gjöld vegna almennrar opinberrar þjónustu og löggæslu nema 52 milljörðum króna og hækka um 4,7%. Þá nema gjöld vegna mennta- og menningarmála 42 milljörðum króna og hækka um 7,5% sem er hlutfallslega mesta hækkunin milli ára. Mestu munar að gjöld háskóla hækka um tæpa 2 milljarða eða 13,9%. Ýmis óregluleg útgjöld nema um 19 milljörðum og lækka um 4 milljarða eða 16,3%. Það skýrist af 9 milljarða lækkun lífeyrisskuldbindinga, en á móti vegur 5 milljarða hækkun gjaldfærslu fjármagnstekjuskatts.

Reikningurinn fyrir árið 2005 er settur fram í tveimur hlutum. Annars vegar er samstæðureikningur um fjármál A-hluta ríkissjóðs. Hins vegar eru einstakir reikningar stofnana í A-hluta, ríkisfyrirtækja í B-hluta, lánastofnana í C-hluta, fjármálastofnana í D-hluta og hlutafélaga og sameignarfélaga sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins í E-hluta. Ríkisreikningur 2005 verður aðgengilegur á veraldarvefnum og er slóðin www.fjs.is.

Fylgiskjöl:



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum