Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2001 Utanríkisráðuneytið

Nr. 025, 10. apríl 2001: Utanríkisráðherrafundur ESB og samstarfsríkja um hina Norðlægu vídd

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 025


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sótti í gær annan utanríkisráðherrafund Evrópusambandsins og samstarfsríkja þess um hina svokölluðu Norðlægu vídd ESB.
Norðlæga víddin er samheiti fyrir áhersluatriði og verkefni sem ESB stendur að
á norðurslóðum og var hrundið úr vör árið 1999 þegar Finnland gegndi formennsku í Evrópusambandinu. Samstarfsríki ESB um Norðlæga vídd eru auk Íslands, Eystrasaltsríkin, Noregur, Pólland og Rússland. Fundinn sóttu einnig áheyrnarfulltrúar frá Bandaríkjunum og Kanada auk fulltrúa frá norrænum og evrópskum fjármálastofnunum.
Í ávarpi sínu á fundinum lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi svæðisbundins samstarfs á norðurslóðum. Hann lýsti ánægju með þær áherslur og þá vinnu sem Evrópusambandið leggur af mörkum á norðurslóðum, ekki síst á sviði umhverfismála með sérstakri áherslu á varnir gegn mengun frá kjarnakljúfum og kjarnorkuúrgangi.
Þá hvatti utanríkisráðherra til þess að aukin áhersla yrði lögð á að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma og að barátta gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi yrði efld.
Loks lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi öflugs samstarfs milli ESB og svæðasamtaka á norðurslóðum, þ.e. Barentsráðsins, Eystrasaltsráðsins og Norðurskautsráðsins um Norðlægu víddina. Mikilvægt væri að allt starf að málefnum norðurslóða væri samræmt eins og kostur væri til að komast hjá tvíverknaði og auka þannig á skilvirkni.
Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Anna Lindt, stjórnaði fundinum, en Svíþjóð gegnir nú formennsku í ESB.






Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 9. apríl 2001.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum