Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2011 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um ný umferðarlög

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi til nýrra umferðarlaga. Er hér um heildarendurskoðun laganna að ræða sem unnið hefur verið að allt frá því seint á árinu 2007. Sagði hann frumvarpið sennilega hafa fengið meiri umfjöllun og undirbúning en flest frumvörp.

Frumvarp til nýrra umferðarlaga hefur verið lagt fram á Alþingi.
Frumvarp til nýrra umferðarlaga hefur verið lagt fram á Alþingi.

Í upphafi ræðu sinnar sagði ráðherra meðal annars um undirbúning frumvarpsins: ,,Ég mæli hér fyrir frumvarpi til nýrra umferðarlaga, en frumvarp þetta var lagt fram á vorþingi af þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Kristjáni L. Möller en varð ekki útrætt. Efni þessa frumvarps er í stórum dráttum það sama og lagt var fram á vorþinginu en ég mun sérstaklega geta þeirra breytinga sem frumvarp þetta hefur tekið í umfjöllun minni um það hér á eftir.

Frumvarpi þessu ef að lögum verður er ætlað að leysa af hólmi núgildandi umferðarlög nr. 50/1987 sem löngu tímabært var orðið að endurskoða. Nefnd var skipuð undir forsæti Róbers R. Spanó lagaprófessors þann 1. nóvember 2007 í þessu skyni en samkvæmt skipunarbréfi var henni falið meðal annars að taka eftirfarandi atriði sérstaklega til skoðunar,” sagði ráðherra og nefndi í því sambandi að gera þyrfti ýmis ákvæði laganna skýrari, taka mið af þróun í umferðarmálum síðustu tvo áratugina og að stuðla að samræmingu umferðarlöggjafar að alþjóðlegum samningum og skuldbindingum um umferðarmál.

Ráðherra fór í ræðu sinni yfir ýmis nýmæli frumvarpsins, meðal annars að umhverfissjónarmiða væri gætt í ríkara mæli við skipulagningu umferðar, að lágmarksaldur til að öðlast ökupróf verði 18 ár í stað 17 eins og nú er, að þungamiðja ökunáms verði hjá ökuskólum, að sektir fyrir umferðarlagabrot verði tekjutengdar, að 70 ára reglan um ökuskírteini verði afnumin og í stað hennar verði skírteini almennt gefið út til 15 ára og að hámarksökuhraði verði almennt leyfður 90 km á klst. en ekki bundinn við 80 km hjá atvinnubílum sem eru þyngri en 3,5 tonn eða með eftirvagn og að leyfður verði 110 km hámarkshraði á tilteknum vegum utan þéttbýlis en í dag er heimill allt að 100 km á ákveðnum vegum.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira