Hoppa yfir valmynd
15. desember 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 463/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 463/2020

Þriðjudaginn 15. desember 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. september 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júlí 2020, um að synja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 15. apríl 2020. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. júní 2020, var óskað eftir að kærandi skilaði inn vottorðum frá tilgreindum atvinnurekendum, þ.e. B og C. Með öðru bréfi Vinnumálastofnunar, dagsettu sama dag, var óskað eftir að kærandi legði fram undirritaða yfirlýsingu atvinnuleitanda um að hefja ekki rekstur án undanfarandi tilkynningar til stofnunarinnar. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júlí 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að umsóknin væri ófullnægjandi þar sem ekki væri ljóst hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða skilyrði um virka atvinnuleit sem kveðið væri á um í 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. september 2020. Með bréfi, dags. 29. september 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 29. október 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. nóvember 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að hún kæri ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna bótum en henni hafi verið gert að loka starfsemi sinni vegna Covid-19 faraldursins.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Í f-lið 13. gr. laga nr. 54/2006 sé tekið fram að eitt af almennum skilyrðum fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga sé að atvinnuleitandi leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna skuli atvinnuleitandi leggja fram skriflegt vottorð vinnuveitanda er hann sæki um atvinnuleysisbætur. Að öðrum kosti sé Vinnumálastofnun ekki unnt að staðreyna starfstíma á ávinnslutímabilinu, starfslok eða hvort umsækjandi hafi átt ótekið orlof þegar hann hafi hætt störfum. Vottorð fyrrverandi vinnuveitanda sé eitt af þeim grundvallaratriðum sem litið sé til við ákvörðun á rétti einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í athugasemdum með 16. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að mikilvægt sé að kveðið sé á um skyldu launafólks til að skila inn slíkum vottorðum, enda erfileikum bundið að ákvarða rétt fólks innan kerfisins án þeirra upplýsinga er þar komi fram.

Í umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur komi fram að hún hafi starfað sem sjálfstætt starfandi einstaklingur í aðdraganda umsóknar sinnar, auk vinnu sem launþegi. Það leiði af lögum um atvinnuleysistryggingar að óheimilt sé að vera í hlutastarfi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur samhliða atvinnuleysisbótum, enda sé samkvæmt 18. gr. laganna óheimilt að vera með opna launagreiðendaskrá samhliða atvinnuleysisbótum. Í g-lið 14. gr. laga nr. 54/2006 komi einnig fram að það sé skilyrði fyrir því að teljast tryggður á grundvelli laganna að atvinnuleitandi eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teljist vera í virkri atvinnuleit. Kærandi hafi ekki skilað umbeðinni verktakayfirlýsingu og hafi ekki fært fram vottorð frá síðasta vinnuveitanda sínum, þ.e. C. Það hafi því verið niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, enda uppfylli umsóknin ekki hin almennu skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar fyrr en umrætt vinnuveitendavottorð og verktakayfirlýsing hafi borist stofnuninni.

Í ljósi alls ofangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að launamaður leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, sbr. f-lið 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna skal vottorðið vera skriflegt á þar til gerðu eyðublaði þar sem meðal annars komi fram starfstími hjá vinnuveitanda á ávinnslutímabili samkvæmt 15. gr. ásamt starfshlutfalli hans. Enn fremur skal tilgreina ástæður þess að launamaður hætti störfum hjá vinnuveitanda, hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi og hvernig greiðslum vegna starfsloka hafi verið háttað. Þá segir í g-lið 14. gr. laga nr. 54/2006 að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teljist vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við.

Ljóst er af gögnum málsins að kærandi hefur ekki skilað inn vottorði frá síðasta vinnuveitanda sínum, þrátt fyrir að eftir því hafi verið óskað. Þá hefur kærandi ekki lagt fram undirritaða yfirlýsingu atvinnuleitanda um að hefja ekki rekstur án undanfarandi tilkynningar til Vinnumálastofnunar. Með vísan til þessa er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að samkvæmt skýru lagaákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 bar Vinnumálastofnun að synja umsókn kæranda, enda liggur ekki fyrir hvort hún uppfylli almenn skilyrði 1. mgr. 13. gr. um að vera tryggð samkvæmt lögunum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest. 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júlí 2020, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum