Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2006 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs

Benedikt Jónsson, sendiherra, afhenti í dag Imomali Rakhmonov, forseta Tadsjikistans, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands með aðsetri í Moskvu en í gær undirrituðu sendiherrann og Talbak Nazarov, utanríkisráðherra Tadsjikistan, yfirlýsingu um stjórnmálasamband á milli ríkjanna.

Í tengslum við afhendingu trúnaðarbréfs átti sendiherrann fund með utanríkisráðherra Tadsjikistans. Ræddu þeir fyrst og fremst um framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna 2009-1010 en auk þess ræddu þeir um möguleika á að efla samskipti ríkjanna. Sendiherrann átti einnig fundi með ráðherrum efnahags- og viðskiptamála og orkumála sem og forseta verslunarráðs Tadsjikistans um samvinnu og samstarf á milli Íslands og Tadsjikistans.

Tadsjikistan varð fullvalda ríki 1991 en hafði áður verið hluti af Sovétríkjunum. Íbúafjöldi þess er um 6.000.000. Landbúnaður er helsti atvinnuvegurinn. Landið er ríkt af vatnsorku og af þeim sökum er álframleiðsla vaxandi atvinnugrein.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum