Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2005 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Umferðaröryggi á Íslandi

Sú endurskoðun sem nú fer fram á umferðarlögum nr. 50/1987 er liður í því að ná meginmarkmiði samgönguráðuneytisins um bætt umferðaröryggi fyrir landsmenn.

Til að ná meginmarkmiðinu hefur ráðuneytið sett fram eftirfarandi mælikvarða:

  • Fjöldi látinna í umferð á hverja 100.000 íbúa verði sambærilegur við það sem lægst gerist í heiminum árið 2016, mælt sem meðaltal 5 ára.
  • Fjöldi látinna og alvarlegra slasaðra lækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2016.

Árið 2003 voru alvarlega slasaðir í umferð á Íslandi 145 talsins og hefur þeim farið stöðugt fækkandi síðustu ár. Miðað við markmið ráðuneytisins um árlega fækkun alvarlega slasaðra, skulu þeir ekki verða fleiri en 80 árið 2016.

Meðalfjöldi látinna í umferð síðustu 5 árin á hverja 100.000 íbúa var 9 árið 2003. Til samanburðar skal nefnt að í þeim löndum sem bestum árangri náðu árið 2003 létust 6 af hverjum 100.000 íbúum í umferð og stefnt er að því að ná því marki á Íslandi.

Samgönguráðherra skipaði á vormánuðum stýrihóp til að vinna að stefnumótun í umferðaröryggismálum til ársins 2016. Aðgerðir sem stýrihópurinn lagði sérstaka áherslu á skiptast í eftirtalda flokka: Öruggur ökuhraði, öruggari vegir, öruggari ökumenn, öryggisbúnaður faratækja og löggæsla / forvarnir.

Sú endurskoðun sem nú fer fram á umferðarlögum er liður í því að ná markmiði samgönguráðuneytisins um bætt umferðaröryggi fyrir landsmenn. Á þetta sérstaklega við um aðgerðir umferðaröryggisáætlunar sem snúa að öruggari ökumönnum.

Í fyrsta lagi stefnir samgönguráðuneytið að því ökumenn aki ekki undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Slíkur áfangi myndi stórbæta öryggi landsmanna í umferðinni sem má rekja til þess að í 10% banaslysa er aðalorsök talin vera sú að sá látni hafi ekið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og 2,4% allra umferðarslysa má rekja til ölvunaraksturs Til að ná fram þessu aukna umferðaröryggi verður 250 milljónum króna varið til verkefnisins á næstu fjórum árum, m.a. verður eftirlit lögreglu aukið með þeim hætti að afskiptum af ökumönnum verður fjölgað um sem næst 100%. Í dag hefur lögreglan bæði búnað og heimildir til að kann áfengismagn í blóði ökumanna. Breytingar á umferðarlögum munu gera gott betra með því að rýmka heimildir lögreglunnar til að kanna hvort ökumenn séu undir áhrifum annarra fíkniefna en áfengis. Er það gert með því að heimila lögreglu að taka munnvatnssýni úr ökumönnum sem grunaðir eru um aka undir áhrifum vímuefna.

Í öðru lagi hefur samgönguráðuherra ákveðið að verja 385 milljónum króna til umferðaröryggismála á þessu ári. Fjármununum verður m.a. varið til þess efla umferðaröryggisfræðsla í leik- og grunnskólum, með gerð námskrár og starfi umferðarfulltrúa. Einnig verður fjármunum varið í fræðslu meðal bílstjóra fyrirtækja, gerð kynningarefnis fyrir erlenda ferðamenn og fræðsluefnis vegna notkunar öryggisbelta. Til að tryggja fjármagn til öryggisfræðslu er lagt til, í meðfylgjandi drögum að frumvarpi til umferðarlaga, að umferðaröryggisgjald, sem innheimt er við skoðun bifreiða, hækki úr 200 krónum í 400 krónur.

Rannsóknir sýna að um mjög brýn verkefni er að ræða, en í fyrsta sinn er verkefnum sem snúa að umferðaröryggi forgangsraðað svo útkoma til landsmanna megi verða sem best. Fræðsla til erlendra ferðamanna ætti að skila sér í færri umferðaróhöppum en árið 2003 voru 428 umferðaróhöpp þar sem erlendir ferðamenn koma við sögu. Sömu sögu er að segja af notkun öryggisbelta, en í 25% banaslysa er aðalorsök talin vera sú að sá látni notaði ekki öryggisbelti.

Ráðuneytið hefur nýlega óskað álits almennings á frumvarpsdrögunum. Ákveðið hefur verið að lengja þann frest sem ökumönnum og öðrum vegfarendum er gefinn til að koma skoðunum sínum á framfæri til ráðuneytisins. Umsagnir óskast sendar á [email protected] fyrir 17.janúar næstkomandi. Vakin er athygli á því að greinargerð með frumvarpsdrögunum hefur verið lítillega breytt frá fyrri útgáfu.

Drög að frumvarpinu má nálgast í hér (WORD - 67KB).Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira