Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2005 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Kynningarátak Rannsóknarnefndar sjóslysa ber árangur

Aldrei fyrr hafa eins margar tilkynningar borist Rannsóknarnefnd sjóslysa eins og á nýliðnu ári.

Alls bárust nefndinni 152 tilkynningar á nýliðnu ári, en meðaltal síðastliðinna 10 ára eru um 117 mál á ári. Ekki svo að skilja að fleiri slys hafi orðið á síðasta ári, heldur er um að ræða betri og skilvirkari tilkynningar en áður.

Rannsóknarnefnd sjóslysa (RNS) er skipuð af samgönguráðherra, og samanstendur nefndin af fimm kunnáttumönnum, sem allir hafa menntun og starfsreynslu á sviðum sem sérstaklega nýtast við rannsóknir sjóslysa.

Síðastliðið haust opnaði RNS nýja gagnvirka heimasíðu, http//: www.rns.is, en þar er hægt að tilkynna um slys og óhöpp á sjó. Er næsta víst að rekja má aukningu tilkynninga til nefndarinnar til hinnar nýju heimasíðu. Heimasíðan er ekki eingöngu sett í loftið til að auðvelda tilkynningar heldur er tilgangur hennar að upplýsa sjófarendur um eðli og orsakir slysa, og hvar og við hvaða aðstæður slys á sjó gerast. Umrædd síða er afar vel úr garði gerð og inniheldur m.a. allar skýrslur rannsóknarnefndarinnar, en nefndin kannar orsakir allra sjóslysa þegar íslensk skip farast og rannsakar öll slys þar sem manntjón verða. Á heimasíðunni er einnig leitarforrit, með mjög víðtækum leitarmöguleikum, sem á að auðvelda sjófarendum að nálgast gögn hvers slyss fyrir sig.

Rannsóknarnefnd sjóslysa leggur áherslu á að fá tilkynningar um öll óhöpp og slys á sjó enda er tilgangur nefndarinnar sá að rannsóknir hennar miði að því að koma í veg fyrir slys um borð í skipum og að auka öryggi til sjós.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira