Hoppa yfir valmynd
4. mars 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 26. feb. - 4. mars

Nýtt rannsókna- og svarakerfi tekið í notkun á LSH

Í vikunni var gangsett nýtt upplýsingakerfi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi (LSH) sem gerir starfsfólki mögulegt að panta rannsóknir og skoða rannsóknaniðurstöður frá klínískri lífefnafræðideild og blóðmeinafræðideild. Í ávarpi sem Ísleifur Ólafsson yfirlæknir klínískrar lífefnafræðideildar flutti við þetta tilefni sagði hann kerfið valda byltingu í samskiptum heilbrigðisstarfsmanna við rannsóknarstofur LSH og Heilsugæslunnar í Reykjavík. Á heimasíðu LSH er sagt frá notagildi þessa nýja kerfis.
Nánar...

Reglur um aðgangsheimildir starfsmanna LSH að heilsufarsupplýsingum

Framkvæmdastjórn Landspítala – háskólasjúkrahúss hefur sett reglur um aðgangsheimildir starfsmanna að heilsufarsupplýsingum sem varðveittar eru í rafrænu formi á sjúkrahúsinu. Markmið með gerð reglnanna er tvíþætt. Annars vegar að tryggja skjótan aðgang heilbrigðisstarfsfólks að nauðsynlegum heilsufarsupplýsingum til að tryggja hverjum sjúklingi þá þjónustu sem hann þarfnast hverju sinni og hins vegar að hindra aðgengi þeirra sem ekki þurfa á upplýsingum að halda í þágu sjúklings.
Reglurnar...

Frumvarp er varðar niðurgreiðslu á tannviðgerðum aldraðra og öryrkja
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem lýtur að niðurgreiðslu vegna tannviðgerða aldraðra og öryrkja. Frumvarpinu fylgja einnig drög að breytingu á reglugerð nr. 815/2002 um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins (TR) í kostnaði við tannlækningar. Þar er gert ráð fyrir að TR taki þátt í kostnaði elli- og orörkulífeyrisþega vegna fastra tanngerva framan við tólf ára jaxla en þó ekki oftar en með 10 ára millibili á sömu tönn eða tannstæði. Skal endurgreiðslan miðast að hámarki við 80.000 kr. á hverju almannaksári. Í umsögn fjármálaráðuneytis um frumvarpið segir að erfitt sé að meta hve margir muni leita eftir þessari þjónustu en að útgjöld ríkissjóðs geti aukist verulega við fyrirhugaðar breytingar. Er minnt á nýlegar breytingar á reglum um hjálpartæki þar sem reyndist fyrir hendi uppsöfnuð þörf fyrir þjónustu. Gera megi ráð fyrir því vegna umræddrar tannlæknaþjónustu.
Frumvarpið...

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
4. mars. 2005


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum