Hoppa yfir valmynd
21. mars 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Nýjar aðgerðir á Landspítala

Þeir sjúklingar sem eru með op á milli hjartagátta sjá nú fram á að geta farið í aðgerð á Landspítalanum í stað þess að þurfa að fara í aðgerð til útlanda. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að tryggja Landspítalanum fé svo gera megi aðgerðirnar hér á landi. Felst í því mikið hagræði fyrir sjúka og umtalsverður sparnaður borið saman við aðgerðirnar sem hingað til hafa verið gerðar ytra. Landspítali fær tæplega fimm milljóna króna tímabundið stofnframlag og sérstakt framlag á árinu svo hægt sé að veita þeim sjúklingum þjónustu, sem þurfa að fara í aðgerðina nú. Kostnaðurinn við að senda sjúkling í sambærilega aðgerð til útlanda er talinn vera fjórfaldur m.v. þær áætlanir sem fyrir liggja á Landspítala. :Þróuð hefur verið aðferð eða tækni á liðnum árum sem gerir læknum kleift að loka opi milli hjartagátt með sérstöku neti (Amplatzer neti). Aðgerðin hefur takmarkaða hættu í för með sér, sjúklingarnir þurfa í flestum tilvikum aðeins að dvelja á spítala í einn til tvo daga og geta alla jafna snúið til vinnu án þess að fara í sérstaka endurhæfingu. Sérfræðingar á Landspítala hafa aflað sér þekkingar og reynslu til að gera aðgerðir af þessu tagi og aðstaða er til staðar á Landspítala til að gera aðgerðirnar. Gert er ráð fyrir að um sex sjúklingar þyrftu aðgerðir af þessu tagi árlega fyrir utan þá sem beðið hafa eftir aðgerð upp á síðkastið.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum