Nr. 737/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 13. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 737/2023
í stjórnsýslumálum nr. KNU23100022 og KNU23100023
Kæra [...],
[...] og barna þeirra
á ákvörðunum Útlendingastofnunar
I. Málsatvik
Hinn 11. ágúst 2022 lögðu [...], fd. [...], (hér eftir M), og [...], fd. [...], (hér eftir K), ríkisborgarar Kólumbíu, ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 27. mars 2023, um að synja þeim og börnum þeirra, [...], fd. [...], [...], fd. [...], og [...], fd. [...], umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 27. mars 2023, var kærendum og börnum þeirra synjað um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Hinn 29. mars 2023 voru ákvarðanir Útlendingastofnunar sendar þáverandi talsmanni kærenda með rafrænum hætti. Kærendur kærðu ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar 14. apríl 2023, degi eftir að kærufrestur leið.
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 453/2023, dags. 24. ágúst 2023, vísaði kærunefnd frá kæru kærenda.
Kærendur lögðu fram endurteknar umsóknar til Útlendingastofnunar 7. september 2023. Með ákvörðunum 13. september 2023 vísaði Útlendingastofnun frá beiðnum kærenda og barna þeirra um endurtekna umsóknir. Í ákvörðunum kærenda og barna þeirra var tekið fram að kæra frestaði ekki réttaráhrifum, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Hinn 3. október 2023 kærðu kærendur ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar. Hinn 6. október 2023 barst kærunefnd greinargerð kærenda ásamt fylgigögnum.
II. Málsástæður og rök kærenda
Í greinargerð kærenda kemur fram að beiðni um endurteknar umsóknir þeirra og barna þeirra séu byggðar annars vegar á því að ekki hafi allar málsástæður verið færðar fram í greinargerð fyrrum talsmanns til Útlendingastofnunar og hins vegar að sá talsmaður hafi ekki lagt fram öll gögn til stofnunarinnar. Á framangreindum grundvelli telja kærendur að nauðsynlegt sé að endurtaka umsóknarferlið frá grunni. Þá byggja kærendur á því að sá talsmaður sem fyrrum talsmaður sendi með kærendum í viðtöl hafi ekki verið hæfur til að sinna sínu starfi og hafi ekki verið fær um að gæta hagsmuna kærenda með fullnægjandi hætti þar sem grunur leiki á að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna í viðtölunum. Kærendur telja að þeir eigi ekki að þurfa að líða fyrir slæleg og verulega ámælisverð vinnubrögð fyrrum talsmanns síns. Því séu uppi ástæður til að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd aftur til meðferðar ásamt því að fallast á frestun réttaráhrifa á fyrrum ákvörðunum Útlendingastofnunar á meðan mál þeirra verði tekin aftur til meðferðar. Þá byggja kærendur beiðni sína um endurteknar umsóknir á því að umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi verði að geta treyst því að Útlendingastofnun skipi þeim talmenn sem hafi góða þekkingu á lögum um útlendinga og þeim frestum sem gildi samkvæmt þeim lögum og að þeir sinni störfum sínum af alúð og vandvirkni og tryggi að engin réttarspjöll verði í málum umbjóðenda þeirra.
Beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðunum Útlendingastofnunar er byggð á 3. mgr. 35. gr. a. laga um útlendinga.
Þá byggja kærendur málatilbúnað sinn á því að meðferð mála þeirra hjá Útlendingastofnun hafi verið haldin annmörkum þar sem stofnunin hafi ekki aflað nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga og rannsakað mál þeirra áður en teknar voru ákvarðanir í málum þeirra og barna þeirra, með vísan til 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, sem og 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur vísa til þess að heimildir sem Útlendingastofnun byggði á í ákvörðunum kærenda og barna þeirra hafi aðallega verið teknar úr skýrslum og netslóðum frá árunum 2020 og 2021. Kærendur hafi sótt um alþjóðlega vernd í ágúst 2022 og hafi ákvarðanir í málum þeirra og barna þeirra verið teknar í mars 2023. Kærendur vísa til þess að í nýlegum heimildum, sem kærendur vísa til í greinargerð, komi glögglega fram að mannúðarsinnar eins og kærendur séu í mikilli lífshættu í heimaríki þeirra Kólumbíu. Að mati kærenda beri að taka tillit til þessara heimilda til að rannsóknarskylda stjórnvalda verði uppfyllt til hlítar áður en ákvarðanir eða úrskurðir verði kveðnir upp í málum þeirra. Til stuðnings framangreindu vísa kærendur til þess að í heimaríki þeirra sé starfandi umboðsmaður sem hafi í maí 2023 gefið út viðvörun til þeirra einstaklinga sem vinni við að vernda mannréttindi um að þeir væru í verulega aukinni hættu á að verða teknir af lífi. Kærendur telja að tilvísaðar heimildir í greinargerð þeirra sýni fram á að þau séu í lífshættu í heimaríki.
Jafnframt byggja kærendur málatilbúnað sinn á því að fyrrum talsmaður þeirra hafi í sinni umsjá frumrit af gögnum sem hafi verið lögð fram í máli þeirra hjá Útlendingastofnun. Hafi sá talsmaður ekki ennþá skilað frumritunum til baka. Kærendur telja að það sé óumdeilt að sönnunargildi skjala hafi mun meira gildi þegar um frumrit sé að ræða. Kærendur vísa til þess að eitt af þessum gögnum sé listi yfirvalda í heimaríki þar sem fram komi að þau hafi verið þolendur ofbeldis, hótana, hryðjuverkaárása og fleira vegna starfa sinna sem mannúðarsinnar þar í landi. Þá leggja kærendur fram með greinargerð nýtt og uppfært skjal, dags. 7. september 2023, frá ræðismanni Kólumbíu sem staðfesti að kærendur séu enn á lista yfir þolendur glæpa og því ekki stætt að snúa aftur til landsins. Þá leggja kærendur fram rétt eintak af kæru þeirra til lögreglu ásamt enskri þýðingu, dags. 9. desember 2020, sem hafi verið lögð fram í kjölfar þess að skotið hafi verið á bifreið þeirra. Kærendur vísa til þess að kæran og þýðingin hafi verið dagsett með rangri dagsetningu.
Þá vísa kærendur til þess að ástæða þess að ekki hafi fundist á netinu upplýsingar um fyrirtækið sem þau hafi starfað hjá sé sú að það sé ekki starfrækt lengur vegna þeirra hættu sem starfsmenn þess hafi verið í. Kærendur leggi nú fram staðfestingu á stofnun þessa fyrirtækis ásamt þýðingu. Þá leggja kærendur fram afrit af hótuninni sem M hafi fengið þegar hann hafi verið staddur á Spáni. Hins vegar séu ekki til myndir eða skjáskot af hótuninni sem hafi verið sett á Facebook reikning M sökum þess að hann hafi orðið svo hræddur að hann hafi lokað öllum samfélagsmiðlareikningum sínum. Kærendur vísa til þess að hótanir hafi haldið áfram að berast þeim frá 2021 til 2022 en fyrrum talsmaður hafi ekki lagt þær fram með greinargerð þeirra til Útlendingastofnunar og því hafi ekki verið litið til þeirra við meðferð mála kærenda.
III. Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn hans samkvæmt 24. gr. laganna.
Í 3. gr. laga um útlendinga kemur fram að um endurtekna umsókn sé að ræða þegar útlendingur, sem sótt hefur um alþjóðlega vernd, leggur fram frekari gögn í máli sínu eða sækir um alþjóðlega vernd að nýju eftir að hann hefur fengið niðurstöðu í máli sínu.
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 27. mars 2023, í málum kærenda tók stofnunin afstöðu til málsástæðna þeirra og gagna sem þau höfðu lagt fram. Útlendingastofnun dró ekki í efa að kærendur hefðu starfað fyrir samtök að nafninu Asociacíon De Profesionales Y Empresarios De Colombia: Asproemeresa en lagði til grundvallar að innri flótti væri mögulegur fyrir þau hvað hótanir af hálfu glæpasamtaka varðaði. Útlendingastofnun dró þá ályktun af framburði kærenda að eftir að þau hefðu flust til Bógóta hefðu þau verið óáreitt af hópnum sem hefði hótað þeim. Þá dró Útlendingastofnun ekki í efa að kærendur hefðu orðið fyrir fjárkúgunum í heimaríki sínu en þau hefðu hins vegar ekki gert það sennilegt að þau ættu á hættu að sæta ofsóknum af hálfu ELN eða annarra aðila og að þau gætu fengið vernd stjórnvalda í heimaríki.
Eins og að framan er rakið kærðu kærendur ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 27. mars 2023 til kærunefndar eftir að kærufestur skv. 7. gr. laga um útlendinga var liðinn. Með úrskurði kærunefndar nr. 453/2023, uppkveðnum 24. ágúst 2023, var kærum kærenda og barna þeirra vísað frá. Var það niðurstaða kærunefndar að ekki hefði verið afsakanlegt að kærurnar hefðu borist of seint. Kærunefnd tók fram að farið hefði verið yfir gögn málanna, þ.m.t. ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra og ekki yrði ráðið af gögnum málanna að hagsmunir kærenda, barna þeirra eða almannahagsmunir krefðust þess að mál þeirra yrðu tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997. Því bæri að vísa kærunum frá á grundvelli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
Eins og áður segir lögðu kærendur fram beiðni um endurteknar umsóknir hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 7. september 2023. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar 13. september 2023 var beiðnum kærenda og barna þeirra um endurteknar umsóknir vísað frá. Í framangreindum ákvörðunum er vísað til þess að kærendur hafi í viðtali hjá lögreglu um nýjar umsóknir sínar um alþjóðlega vernd greint frá því að hafa fengið upplýsingar um að skipaður talsmaður þeirra hafi ekki unnið mál þeirra á réttan hátt og hafi talsmaðurinn logið að þeim um að hafa kært ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra til kærunefndar útlendingamála. Var það mat Útlendingastofnunar að kærendur hefðu ekki borið fyrir sig nýjar málsástæður og einungis byggt endurteknar umsóknir á því að fyrrum talsmaður hefði ekki kært ákvarðanir stofnunarinnar frá 27. mars s.á. innan kærufrests. Þá vísaði Útlendingastofnun til þess að í þeim ákvörðunum hefði ítarlega verið fjallað um málsástæður þær sem kærendur báru fyrir sig við upphaflegar umsóknir. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að ekki yrði fallist á með kærendum að nýjar málsástæður væru fyrir hendi í málum þeirra sem leitt gætu til þess að fallist yrði á fyrri umsóknir þeirra og barna þeirra um alþjóðlega vernd. Á framangreindum grundvelli vísaði Útlendingastofnun endurteknum umsóknum kærenda og barna þeirra frá.
Í greinargerð kærenda, dags. 6. október 2023, til kærunefndar byggja kærendur kærur sínar á ákvörðunum Útlendingastofnunar frá 13. september 2023 meðal annars á því að fyrrum talsmaður hafi hvorki lagt fram allar málsástæður né öll gögn í greinargerð til Útlendingastofnunar við málsmeðferð upphaflegra umsókna þeirra um alþjóðlega vernd. Þá byggja kærendur á því að Útlendingastofnun hafi við ákvarðanatöku í málum þeirra litið til heimilda og netslóða frá árunum 2021 og 2022. Kærendur telja að nýlegri heimildir um aðstæður í heimaríki þeirra, Kólumbíu, styðji betur við frásögn þeirra þess efnis að mannréttindaaðgerðarsinnar séu í lífshættu þar í landi. Kærendur vísa til þess að þau hafi lagt fram upplýsingar um fyrirtækið sem þau hafi starfað hjá í heimaríki og afrit af hótunum sem M hafi fengið þegar hann hafi verið á Spáni. Þá vísa kærendur til þess að hótanir hafi haldið áfram að berast þeim árin 2021 og 2022 en þar sem fyrrum talsmaður hafi ekki lagt fram gögn um þær hótanir við fyrri málsmeðferð hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki litið til þeirra við ákvarðanatöku í málum þeirra.
Hvorki í ákvörðunum Útlendingastofnunar frá 13. september 2023 í málum kærenda og barna þeirra né í þeim gögnum sem bárust kærunefnd frá stofnuninni er að finna útlistun á þeim gögnum sem lögð voru fram með endurteknum umsóknum kærenda og barna þeirra. Með tölvubréfi til Útlendingastofnunar 21. nóvember 2023 vísaði nefndin til þess að samkvæmt greinargerð kærenda hafi þau lagt fram ný gögn með beiðnum sínum til stofnunarinnar um endurteknar umsóknir. Óskaði nefndin eftir því að Útlendingastofnun tilgreindi hvaða gögn kærendur hefðu lagt fram með beiðnum sínum um endurteknar umsóknir. Í svörum Útlendingastofnunar sem bárust kærunefnd 24. nóvember 2023 kemur fram að stofnunin sé ekki með neina sérstaka skrá yfir hvaða nýju gögn voru lögð fram en þau hafi verið skoðuð samhliða beiðni kærenda um endurtekna umsókn. Af ákvörðunum Útlendingastofnunar verður ekki ráðið að stofnunin hafi tekið sérstaka afstöðu til hinna nýju gagna sem lögð voru fram með beiðni kærenda um endurteknar umsóknir, einungis er vísað til þess að kærendur hefðu ekki borið fyrir sig nýjar málsástæður og einungis byggt endurteknar umsóknir á því að fyrrum talsmaður hefði ekki kært ákvarðanir stofnunarinnar innan kærufrests.
Í greinargerð vísa kærendur til þess að þau hafi með beiðnum sínum til Útlendingastofnunar um endurteknar umsóknir meðal annars lagt fram nýtt og uppfært skjal frá „konsúl“ Kólumbíu sem staðfesti að kærendur séu enn á lista yfir fórnalömb glæpa og því ekki stætt á að snúa aftur til Kólumbíu, dags. 7. september 2023, sbr. fskj. nr. 6. Þá er vísað til þess að kærendur hafi lagt fram rétt eintak af kæru þeirra til lögreglu í heimaríki ásamt enskri þýðingu, dags. 9. desember 2020. Jafnframt vísa kærendur til þess að þeim hafi verið hótað árin 2021-2022 eða allt þar til þau hafi neyðst til að flýja til Íslands en fyrrum talsmaður hafi hins vegar ekki lagt fram gögn um þær hótanir með greinargerð þeirra til Útlendingastofnunnar og því hafi stofnunin ekki tekið afstöðu til þeirra við málsmeðferð umsókna þeirra um alþjóðlega vernd, sbr. fskj. nr. 9-10.
Ákvæði 35. gr. a. laga um útlendinga kom nýtt inn í lög um útlendinga með lögum nr. 14 frá 27. mars 2023. Kveður ákvæðið á um að endurtekin umsókn skuli tekin til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í málinu sem leiða til að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 14/2023 kemur fram að mælikvarðann um ,,sýnilega auknar líkur“ verði að túlka með hliðsjón af því að líkur séu á því að önnur niðurstaða fáist í málið vegna upplýsinga sem ekki lágu fyrir við meðferð upphaflegrar umsóknar. Gerir orðalag ákvæðisins og útskýringar í greinargerð því ekki þá kröfu að fullvissa sé fyrir því að niðurstaðan verði önnur en í fyrri umsókn heldur að ný gögn eða upplýsingar um málsatvik liggi fyrir og að þau gögn eða upplýsingar kunni að leiða til þess að önnur niðurstaða fáist í málinu.
Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að endurteknar umsóknir kærenda og barna þeirra hafi ekki verið skoðaðar með hliðsjón af framlögðum gögnum og upplýsingum kærenda um málsatvik. Ljóst er því að málsmeðferð Útlendingastofnunar er haldin annmörkum og þá er það mat kærunefndar að rökstuðningur hinna kærðu ákvarðana í málum kærenda og barna þeirra hafi enn fremur ekki verið í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga.
Framangreindir annmarkar á hinum kærðu ákvörðunum Útlendingastofnunar eru verulegir og kunna að hafa áhrif á niðurstöðu í máli kærenda og barna þeirra. Ekki er unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því nauðsynlegt að endurteknar umsóknir kærenda og barna þeirra hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun. Eru hinar kærðu ákvarðanir af þessum sökum felldar úr gildi, svo sem í úrskurðarorði greinir.
Úrskurðarorð:
Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka endurteknar umsóknir kærenda og barna þeirra til meðferðar á ný.
The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine their and their children repeated applications for international protection again.
Þorsteinn Gunnarsson